*

mánudagur, 22. apríl 2019
Leiðari
5. júlí 2018 13:01

Stjórnarskráin njóti vafans

Viðamiklar og óþarfar breytingar á stjórnarskrá eru helst til þess fallnar að reisa úfa meðal þjóðarinnar á ný.

Haraldur Guðjónsson

Í vikunni komu leiðtogar stjórnmálaflokka á Alþingi saman á Þingvöllum til að ræða um „næstu skref í stjórnarskrármálinu“. Ekki er vel ljóst hvert er markmið þessa starfs. Í hinum langa og loðna stjórnarsáttmála sagði að ríkisstjórnin vildi „halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs“. Sem var athyglisvert í ljósi þess að stjórnarskrárbreytingar bar ekki á góma í tíðum alþingiskosningum liðinna ára. Ekki er þó síður merkilegt hvernig stjórnarandstaðan lætur ríkisstjórnina ráðskast með sig með þessum hætti.

Upp úr bankahruni 2008 voru uppi háværar raddir um nýtt Ísland og í ræðustól Alþingis talaði ráðherra jafnvel um „árið núll“ í því samhengi. Ný stjórnarskrá var þar mörgum mannkynsfrelsaranum efst í huga, en óþarfi ætti að vera að rekja hið dæmalausa klúður, sem eftir fylgdi: ógilda stjórnlagaþingskosningu, ríkisstjórnarskipað stjórnlagaráð, stjórnarskrárfrumvarp sem rubbað var af á fjórum mánuðum og skoðanakönnun um alls fimm atriði í 115 greina stjórnarskrártillögum, sumar spurningarnar svo óljósar að svörin gat hver sem er túlkað að vild.

Eftir á að hyggja var það mikil gæfa að þær tillögur urðu ekki að stjórnarskrá í óðagoti hrunsins. Næg voru umbrotin og ólgan samt, þó ekki bættist við umbylting stjórnarskrárinnar með tilheyrandi réttaróvissu og glötuðu réttaröryggi, áralöngum töfum á framgangi réttvísi og réttlætis.

Ástæða þeirra sem hæst hrópuðu á nýja stjórnarskrá var ævinlega hrunið sjálft, þó enginn hafi – hvorki þá né síðar – getað bent á neitt í stjórnarskránni sem orsakaði hrunið, né eitthvað sem þar vantaði og hefði getað afstýrt því. Nú, tíu árum síðar, geta Íslendingar þvert á móti verið hreyknir af stjórnarskránni, sem stóðst þessi áföll öll og hefur reynst vel síðan, bæði til uppgjörs og uppbyggingar.

En því er þá verið að hringla með stjórnarskrána, nú þegar allt leikur í lyndi og það af ríkisstjórn, sem hefur beinlínis að markmiði að endurnýja stöðugleika og stjórnfestu í landinu? Auðvitað má margt betur fara í lýðveldinu, en það má og á að leysa á hinum pólitíska vettvangi, en ekki með því að krukka í stjórnarskrána, grunnlög landsins. Eina haldbæra skýringin er sú að „leiðtogarnir“ vilji sjást vera að gera eitthvað í „stjórnarskrármálinu“ til þess að friða hávaðaseggi í eigin röðum og mögulega til þess að ná fram einhverjum pólitískum markmiðum, sem þeim hefur ekki auðnast að ná með öðrum hætti.

Miðgildi þingstyrks flokka á Alþingi er um 11% og aðeins tveir þeirra yfir því, Sjálfstæðisflokkur með 25% atkvæða og Vinstri græn með 18%. Enginn þeirra er því með minnsta umboð til róttækra breytinga á stjórnarskrá, hvað þá til þess að smíða nýja stjórnarskrá. Leiðtogarnir gera sér grein fyrir þessu, eins og best sést á því að þeir telja að þessi vinna taki ekki minna en tvö kjörtímabil, þegar flestir þeirra verða að líkindum horfnir af vettvangi. Viðamiklar og óþarfar breytingar á stjórnarskrá eru helst til þess fallnar að reisa úfa meðal þjóðarinnar á ný. Núverandi stjórnarskrá hefur reynst afar vel í góðæri jafnt og óvissutímum og það er ábyrgðarhluti að taka til við stjórnarskrárbreytingar nema fyrst sé bent á það, sem þarfnist lagfæringar. Þar til á stjórnarskráin að njóta vafans.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim