Hugvit og nýsköpun hafa fengið aukna athygli og stuðning frá atvinnulífi, stjórnvöldum og fjölmiðlum á allra síðustu árum. Birtist það meðal annars í meiri stuðningi við frumkvöðla, auknu fjármagni af hálfu styrktarumhverfis og auknum fjölda framtaksfjárfestingasjóða. Ég leyfi mér líka að segja að aukinn skilningur á mikilvægi fjórðu stoðarinnar í hagkerfi landsins eigi þar hlut að máli. Sjávarútvegur og nýting raforku í formi áls byggja á auðlindum landsins sem eru takmarkaðar og ferðaþjónustan takmarkast sömuleiðis af innviðum og aðgengi. Fjórða stoðin byggir á hugviti, sem hefur engin takmörk. Mikilvægi þess að byggja upp sterkan alþjóðageira hefur aldrei verið meira aðkallandi. Vöxtur hagkerfisins til að standa undir hagsæld getur trauðla komið frá hinum hefðbundnu þremur geirum.

Til að Ísland geti staðið undir 3-4% hagvexti að jafnaði næstu 20 árin þarf að eiga sér stað aukin verðmætasköpun og útflutningsverðmæti þurfa að nema 1.000 milljörðum á tímabilinu skv. greiningu Viðskiptaráðs. Sú aukning þarf að koma frá alþjóðageiranum, fyrirtækjum sem horfa á markaðssvæði sitt utan landsteinanna. Mikilvægt er að stjórnvöld haldi áfram að efla umhverfi menntunar og nýsköpunar og skapi bestu mögulegu aðstæður fyrir frumkvöðla, innlenda og erlenda, til að fjórða stoðin verði í reynd aðalstoðin í hagkerfinu áður en langt um líður. Þar með skapast krefjandi störf fyrir sérfræðinga á alþjóðamælikvarða.

Að fóstra frumkvöðla

Frá árinu 2012 hefur Arion banki í samstarfi við Icelandic Startups rekið viðskiptahraðalinn Startup Reykjavik (SR). Markmiðið er að frumkvöðlar njóti ráðgjafar og leiðsagnar reynslumikilla einstaklinga við að þróa sínar við- skiptahugmyndir hraðar en gerist að jafnaði. Á ári hverju fá tíu fyrirtæki fjármagn í formi hlutafjár, þjálfun og vinnuaðstöðu. Teymin kynna svo viðskiptahugmyndir sínar fyrir innlendum og erlendum fjárfestum við lok verkefnisins. Sumarið 2017 verður Startup Reykjavík haldið í sjötta skipti og fjárfestingar bankans því orðnar sextíu talsins í lok sumars. Það gefur augaleið að þessi stuðningur í verki skiptir máli. Tengsl, rýni til gagns og myndun samfélags frumkvöðla hefur jákvæð áhrif á umhverfið og er hvetjandi í alla staði.

Arion banki er jafnframt einn fjögurra bakhjarla Startup Energy Reykjavik (SER), sem er byggt upp á sambærilegan hátt og Startup Reykjavík, en í SER er áherslan fyrst og fremst á fyrirtæki í orkutengdum greinum. Sjö fyrirtæki hafa tekið þátt hverju sinni í þau þrjú skipti sem SER hefur verið haldið og fjárfestingarnar þar því orðnar 21 talsins.

Árangur af fjárfestingum

Fjárfestingar í ungum fyrirtækjum er langhlaup þar sem uppbygging fyrirtækja tekur ávallt nokkur ár. Hvort hagnaður verði af þessum fjárfestingum verður hægt að svara innan fárra ára. Á meðan fáar eða smáar útgöngur einkenna stöðu dagsins í dag þá er hægt að horfa til þeirrar viðbótar fjármögnunar sem fyrirtæki sem hafa farið í gegnum viðskiptahraðlana hafa aflað sér. Aðkoma fjárfesta með nýtt hlutafé er þá besti mælikvarðinn. Í dag hafa fyrirtæki sem farið hafa í gegnum SR og SER fengið rúmlega 1.630 milljónir í hlutafé. Þessu til við- bótar hafa samkeppnissjóðir á borð við Tækniþróunarsjóð styrkt fyrirtækin eða veitt þeim styrktarvilyrði fyrir um 970 milljónir.

Stuðningur bæði stjórnvalda og atvinnulífs forsenda

Arion banki er öflugur stuðningsaðili nýsköpunar á Íslandi og hefur sýnt það í verki. Til viðbótar við viðskiptahraðlana er bankinn stærsti einstaki hluthafinn í Eyri sprotum og hefur lagt sjóðnum til 1.200 milljónir króna. Bankinn er jafnframt helsti bakhjarl Nýsköpunarkeppni grunnskólanna og einn bakhjarla Ungra frumkvöðla, Junior Achievement Iceland, sem er fyrirtækjasmiðja í framhaldsskólum landsins. Arion banki styður þannig markvisst við nýsköpun frá grunnskólastigi til atvinnulífs

Nýverið var samstarf Arion banka og European Investment Fund (EIF) kynnt þar sem litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem hyggjast fjárfesta í nýrri framleiðslu eða tækni, innleiðingu á nýjum vörum, ferlum og þjónustu býðst aðgangur að fjármagni á lægri vöxtum vegna ábyrgðar EIF. Tilgangurinn er að styðja við nýsköpun, örva atvinnulíf, rannsóknir og þróun.

Stjórnvöld hafa á allra síðustu misserum tilkynnt lagabreytingar á umhverfi fyrir frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtæki sem hvetja t.d. til fjárfestinga, hafa sanngjarnari skattlagningu kaupréttaskattalega hvata fyrir erlenda sérfræðinga, aukin framlög í samkeppnissjóði fyrir rannsóknir og þróun.

Til að Íslendingar sem þjóð geti styrkt stöðu sína sem framsækið og frjótt frumkvöðlasamfélag þurfa bæði stjórnvöld og enn fleiri fyrirtæki að leggjast á sveif með ungum fyrirtækjum og skapa í senn góð lífsskilyrði og hvetjandi starfsumhverfi fyrir fyrirtækin. Arion banki mun halda áfram á sömu braut og styðja við íslenskt frumkvöðlaumhverfi.

Höfundur er forsvarsmaður nýsköpunar hjá Arion banka.