Ádögunum skók stóra Húh!málið samfélagið og skyndilega var vörumerkjaréttur á allra vörum. Getur einhver átt fagnið okkar? spurði fólk í forundran – og umræðan litaðist af miklum tilfinningahita en ögn minna af staðreyndum. Ef marka má fréttir hefur KSÍ nú farið fram á að Einkaleyfastofan felli skráningu merkisins úr gildi, en í ógildingarmálinu mun væntanlega aðallega koma til skoðunar hvort Húh!-ið sé of almenns eðlis til þess að öðlast megi einkarétt á notkun þess fyrir fatnað og drykkjarvörur en til vara hvort með fyrri notkun á merkinu hafi stofnast vörumerkjaréttur KSÍ til handa sem ryður skráningunni úr vegi. Eins þarf Einkaleyfastofan nú að taka afstöðu til nýrrar umsóknar þriðja aðila um skráningu orðmerkisins HÚH fyrir margvíslegar vörur og þjónustu, meðal annars dyramottur, þjónustu við matvælaskreytingar, öldrunar- og dvalarheimili!

Annað áhugavert vörumerkjaréttarmál sem gáraði nýlega umræðuna, en olli ekki sama usla, er umsókn Hreyfils um skráningu orð- og myndmerkisins SUBER TAXI fyrir leigubílaþjónustu sem bókast með appi. Orðhluti merkisins kallast nokkuð augljóslega á við þekkt alþjóðlegt vörumerki fyrir hliðstæða þjónustu, en haft er eftir forsvarsmanni Hreyfils að með umsókninni sé félagið að búa sig undir hugsanlegar breytingar á leigubílamarkaði. Fram hefur komið að ekki standi til að Hreyfill hefji rekstur farveituþjónustu á borð við UBER á næstunni, en merkið verði notað ef til þess kæmi. „Það er ekkert víst að við þurfum á því að halda en þetta er bara einn liður í að mæta breyttu lagaumhverfi,“ er vitnað til framkvæmdastjóra félagsins. Einkaleyfastofan hefur nú skráð merkið og tveir mánuðir gefast til þess að andmæla skráningunni frá birtingu þess í næstu ELS-tíðindum.

Samkvæmt meginreglu vörumerkjaréttar er vörumerkjavernd landsbundin. Þannig þarf jafnan að tryggja vernd merkis í hverju landi til þess að eigandi þess öðlist rétt til að banna öðrum að nota þar eins eða lík tákn fyrir sömu eða svipaða vöru eða þjónustu. Meginreglan er hins vegar ekki án undantekninga. Þrátt fyrir að tæknirisinn UBER Technologies Inc. hafi ekki hugað að skráningu vörumerkis síns hérlendis og ekki sé enn hægt að panta hér far milli bæjarhluta með UBER appinu gæti Einkaleyfastofan, ef andmæli bærust, þurft að leggja mat á það hvort hætta sé á að almenningur ruglist á SUBER og UBER. Í samræmi við ákvæði vörumerkjalaga verður merki ekki skráð ef það er til þess fallið að villst verði á því og vörumerki sem telst „alþekkt“ hér á landi á þeim tíma sem umsókn um skráningu er lögð inn. Þá má ekki skrá vörumerki ef villast má á því og merki sem hefur verið og er í notkun í öðru landi á þeim tíma sem umsókn var lögð inn, að því gefnu að umsækjandinn hafi vitað eða mátt vita um erlenda merkið. Með öðrum orðum, verið í vondri trú.

Framangreindar undantekningar hafa verið túlkaðar þröngt. Þannig eru gerðar ríkar kröfur til útbreiðslu erlends merkis til þess að það geti talist alþekkt í skilningi vörumerkjaréttar og tálmað skráningu hérlendis. Takist ekki að færa á það sönnur tekur við mat á því hvort umsókn um skráningu hafi verið lögð inn í vondri trú. Þar til Hæstiréttur kvað upp umdeildan dóm í SUSHISAMBA málinu 1. desember 2016 var hér byggt á fordæmum Evrópudómstólsins og lagt til grundvallar að ekki nægði að umsækjandi vissi eða hefði mátt vita um notkun hins erlenda merkis. Langvarandi notkun vörumerkis á erlendri grundu og alþjóðleg viðskiptavild gætu almennt ekki áunnið merki lagalega vernd hér á landi, heldur þyrfti að sýna með óyggjandi hætti fram á að tilgangur skráningar væri beinlínis að hindra aðkomu eiganda erlenda vörumerkisins að íslenskum markaði, notfæra sér viðskiptavild hans eða hagnast fjárhagslega á merki hans.

Hæstiréttur slakaði hins vegar á þessum kröfum í SUSHISAMBA málinu og féllst á kröfu eiganda samnefndra erlendra veitingastaða um ógildingu skráningar hérlendra veitingamanna á merkinu. Gagnstætt fyrri framkvæmd taldi rétturinn að við mat á því hvort skilyrðið um vonda trú væri uppfyllt gæti ekki skipt máli þótt ekki hefði sannast að tilgangurinn með skráningu merkisins væri eingöngu að hindra aðgang erlenda aðilans að markaðnum eða hagnast fjárhagslega á merki hans. Skráningin fæli í reynd í sér hindrun fyrir því að hann gæti opnað veitingastað hér á landi undir eigin vörumerki. Fróðlegt er að máta þessi viðmið við (S)UBER og yfirlýsingar forsvarsmanna Hreyfils um tilgang skráningarinnar.

Höfundur er sérfræðingur í hugverkarétti og rekstri sprotafyrirtækja.