*

fimmtudagur, 21. júní 2018
Helga Árnadóttir
2. september 2017 10:10

Sumarið gert upp

Blikur eru á lofti í ferðaþjónustu og mörg fyrirtæki berjast í bökkum enda hafa ytri skilyrði versnað til muna.

Haraldur Guðjónsson

Haustið er handan við hornið. Háönn ferðaþjónustunnar er að ljúka þetta árið. Við getum verið stolt. Það er ekki sjálfsagt að heildarupplifun erlendra ferðamanna sé almennt jákvæð. Við skulum hins vegar ekki gleyma því að jákvæðni ferðamannanna í garð ferðaþjónustunnar í dag er langt frá því að vera trygging fyrir velgengni morgundagsins. Við skulum alltaf halda því til haga að ferðamennirnir eru ekki gefin stærð, það að taka þeim sem sjálfsögðum hlut, eins og of oft heyrist í umræðunni, er hættumerki út af fyrir sig. Gestrisni heimamanna og velvild í garð erlendra ferðamanna er einnig stór þáttur í jákvæðri upplifun þeirra.  Hún er ekki sjálfsögð og því er ekki síður mikilvægt að ná að byggja ferðaþjónustuna upp í sátt og samlyndi við íbúa um land allt.  Markmiðið á alltaf að vera að byggja upp ferðaþjónustulandið Ísland sem fyrst og síðast er gott að búa í.

Innviðir verða að standa undir væntingum. Tækifærin liggja í uppbyggingu þeirra við okkar helstu ferðamannaperlur, samgöngum, almennu skipulagi og öðru því, sem styður við þau gæði og þá fagmennsku sem við viljum standa fyrir. Hingað til hefur verið hægt að nýta vannýtta innviði s.s. í vegakerfi og vinnuafli með tilheyrandi framleiðniaukningu, en við erum komin að þolmörkum. Ný skýrsla frá Deloitte, sem unnin var fyrir Stjórnstöð ferðamála, sýnir svart á hvítu hvernig ríki og sveitarfélög hafa auknar tekjur sem nema tugum milljarða ár hvert af ferðaþjónustunni með tilheyrandi verðmætasköpun. Þá er búið að draga allan beinan kostnað frá, hér er því um nettó beinar tekjur að ræða og munar um minna. Óbeinar tekjur eru þá ótaldar sem eru umtalsverðar hvort sem horft er til efnahagsstærða eða félagslegra þátta um allt land.

Ytri skilyrði versna

Blikur eru þó á lofti í ferðaþjónustu og mörg fyrirtæki berjast í bökkum. Ytri skilyrði þeirra hafa versnað til muna. Miklar launahækkanir, styrking íslensku krónunnar, mikill fjármagnskostnaður og óskilvirkt regluverk vega þar þyngst. Á sama tíma er neyslumynstur ferðamannsins að breytast, hann sparar við sig í almennri neyslu og afþreyingu. Samkvæmt Alþjóðaefnahagsráðinu (World Economic Forum) féll Ísland um 7 sæti  yfir samkeppnishæfni þjóða í ferðaþjónustu á síðasta ári, úr 18. sæti í 25. sæti af 136 þjóðum sem voru skoðuð.  Auknir skattar og enn þyngri álögur hins opinbera á þessi sömu fyrirtæki eins og boðað er í fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar hljóta að kalla á endurskoðun við gerð fjárlaga fyrir næsta ár. Nú reynir á að halda sjó.

Ábyrgðin er ekki bara stjórnvalda eða sveitafélaganna. Hún er líka okkar sem í ferðaþjónustunni störfum. Það er okkar að tryggja að gæðin og sú þjónusta sem við bjóðum upp á, haldist í hendur við þær væntingar sem við erum búin að byggja upp hjá gestum okkar. Það er því ánægjulegt að sjá sífellt fleiri fyrirtæki tileinka sér gæðakerfi eins og VAKANN, taka þátt í markaðsherferð um ábyrga ferðahegðun, Inspired by Iceland/Icelandic Pledge, með Íslandsstofu og að rúmlega 300 fyrirtæki hafa staðfest þátttöku sína í verkefninu Ábyrg ferðaþjónusta.

109 milljarðar fjárfesting

Það eru þó svartir sauðir sem fyrirfinnast í ferðaþjónustunni rétt eins og í öðrum atvinnugreinum. Rétt er þó að taka fram að langflestir eru að gera alveg hreint magnaða hluti. Stórkostlegt uppbyggingarstarf hefur átt sér stað, það er ekki sjálfgefið að ná að þróa og þroska fyrirtæki sín í miklum vexti, auka gæðavitund, þrautseigju og fagmennsku. Við skulum ekki gleyma því að ferðaþjónustan fjárfesti fyrir um 109 milljarða á síðasta ári - mörgum sinnum hærri upphæð en ríkið lagði í innviðauppbygginu á sama tíma. Það er ekki síst þeirri uppbyggingu að þakka hversu vel til tókst að taka á móti þeim fjölda ferðamanna sem sóttu okkur heim í sumar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.