Fyrr á þessu ári var rætt við tvo forsvarsmenn útgerðarfyrirtækis á landsbyggðinni sem starfrækt hefur verið í hálfa öld. Þeir sögðu veiðigjaldið orðið næst stærsta útgjaldaliðinn á eftir launakostnaði. Ef ekkert yrði að gert myndi fyrirtækið hreinlega leggjast af. Sjálfsagt myndu flestir sæmilega skynsamir stjórnmálamenn leggja við hlustir, enda fyrirtækið burðarás í sinni sveit. Flestir, en ekki allir.

Nánast um sama leyti og viðtalið birtist við forsvarsmenn fyrirtækisins, spurði formaður Samfylkingarinnar úr ræðustól Alþingis: „Er ekki í lagi þótt eitthvað af útgerðarfyrirtækjunum fari á hausinn og við leitum í hagkvæmasta reksturinn?“ Þetta lýsir kannski ekki djúpri þekkingu á gangverki landsbyggðarinnar, en segir sína sögu um hvernig sumir vilja nálgast grunnatvinnuveg landsins. Skattleggja hann í drep og setja peninginn í millifærslusjóð, enda ríkið best í því að fást við atvinnusköpun og verðmætamyndun. Eins og dæmin sanna!

Merkilegt má það samt heita að svo virðist sem formaður Samfylkingarinnar eigi fleiri bandamenn á Alþingi en séð var fyrir. Það kom berlega í ljós í liðinni viku þegar meirihlutinn á Alþingi heygðist á því að samþykkja breytingu á lögum um veiðigjald, sem hefði látið gjaldtöku endurspegla núverandi afkomu í atvinnugreininni og þannig komið fjölmörgum fyrirtækjum um allt land til góða. Flestir þingmenn hafa raunar verið sammála um að ótækt sé að grundvalla álagningu gjaldsins á gömlum gögnum sem miðast við allt annan veruleika en nú er uppi í rekstri fyrirtækjanna. Hættan var hins vegar sú að hin efnislega umræða um málið gæti tafið mjög svo bústið sumarfrí þingmanna um nokkra daga. Þegar þessi er raunin, er ekki óvarlegt að ætla að í athafnaleysi þingsins felist svar þess við áðurgreindri spurningu formanns Samfylkingarinnar. Þingi lauk því með köldum kveðjum til fyrirtækja um land allt.