*

föstudagur, 19. apríl 2019
Leiðari
26. janúar 2018 16:45

Svartur mánudagur

Stuttri sorgarsögu United Silicon er lokið og olíuleit á Drekasvæðinu er í uppnámi.

Aðrir ljósmyndarar

Á mánudaginn birtust tvær risastórar fréttir, sem báðar snerta íslenskan iðnað. Stjórn United Silicon tilkynnti að nauðasamningar hefðu ekki tekist og því hefði hún sent beiðni til Héraðsdóms Reykjaness um gjaldþrotaskipti á búi félagsins. Þessi frétt kom kannski ekkert sérstaklega á óvart.

Þennan sama dag skiluðu kínverska ríkisolíufélagið CNOOC og norska ríkisolíufélagið Petoro sérleyfum til leitar og vinnslu olíu á Drekasvæðinu. Sú frétt kom töluvert á óvart enda hefur olíuverð ekki verið hærra síðan í árslok 2014. Þá er ekki nema rúmur mánuður síðan norska Stórþingið samþykkti að auka framlög til olíuleitar á Drekasvæðinu. Ákvörðun Norðmanna lyktar af pólitískum hráskinnaleik. Í síðustu viku gekk Venstre-flokkurinn inn í minnihlutastjórn Ernu Solberg en hann hefur verið mótfallinn olíuvinnslu á Jan Mayen svæðinu. Ákvörðunin var tekin daginn Venstre gekk til liðs við minnihlutastjórnina. Á sama tíma úthlutaði stjórnin fjölda nýrra sérleyfa til olíuleitar innan norskrar lögsögu.

Fjölbreytt atvinnulíf er lykilatriði fyrir íslenskan efnahag. Hér áður stóð landið og féll með afkomu sjávarútvegs, síðan bættust álverin við og fyrir nokkrum árum ferðaþjónustan. Olíuiðnaður er velkomin viðbót við fremur fátæklega flóru íslensks atvinnulífs. Þess vegna er slæmt að nýr umhverfisráðherra láti hafa það eftir sér að honum þyki ólíklegt að ráðist verði nýtt útboð olíuleitar á meðan núverandi ríkisstjórn sé við völd. Vonandi ræður hann því ekki einn. Reyndar er ólíklegt að hann ráði því einn. Eiginlega útilokað.

Stutt saga United Silicon er eiginlega ein samfelld sorgarsaga. Í stuttu máli hófst hún með ólykt í lofti og endaði með gjaldþroti, milljarða króna tapi fjárfesta og kæru á hendur Magnúsi Garðarssyni, fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins. Hann er sakaður um að hafa stungið ríflega 600 milljónum króna í eigin vasa.

Framkvæmdir við verksmiðju United Silicon hófust árið 2014 og þann 13. nóvember 2016 ræsti Ragnheiður Elín Árnadóttir, þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ljósbogaofninn.  Aðeins nokkrum dögum síðar bárust kvartanir frá íbúum Reykjanesbæjar um reykmengun og brunalykt. Upp úr miðjum desember var ástandið orðið það slæmt að haldinn var opinn íbúafundur í Reykjanesbæ um verksmiðjuna og mengunina sem frá henni barst.

Í febrúar 2017 bárust fregnir af því að Umhverfisstofnun hygðist loka verksmiðjunni yrði ekki ráðist í tafarlausar úrbætur vegna mengunarinnar. Í byrjun apríl sama ár fundaði umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis um málefni United Silicon og var fundurinn í beinni útsendingu á vef þingsins. Nokkrum dögum seinna kom upp eldur í verksmiðjunni en engan sakaði. Í lok sama apríl stöðvaði Umhverfisstofnun starfsemina. Eftir að verksmiðjan var gangsett að nýju héldu vandræðin áfram og bárust fregnir af því í sumar.
Auk vandamála vegna mengunar átti United Silicon í miklum fjárhagsvandræðum.  Strax fór að bera á þessu þegar framkvæmdir stóðu yfir því sumar 2016 bárust fréttir af því að starfsmenn ÍAV hefðu lagt niður störf vegna skuldadeilu. ÍAV var aðalverktaki kísilversins og sögðu forsvarsmenn þess að United Silicon skuldaði háar fjárhæðir. Með dráttarvöxtum hljóðaði krafa ÍAV upp á um tvo milljarða króna. Deilunni síðasta sumar með því að gerðardómur úrskurðaði að United Silicon þyrfti að greiða ÍAV rúmlega einn milljarð króna vegna ógreiddra reikninga.

Rúmlega tveimur vikum eftir að úrskurðinn, eða mánudaginn 14. ágúst 2017, barst tilkynningin frá United Silicon um greiðslustöðvun og nauðasamninga. Til að bæta gráu ofan á svart fyrir forsvarsmenn United Silicon þá samþykkti bæjarráð Reykjanesbæjar bókun þremur dögum síðar þar sem farið var fram á að rekstur verksmiðjunnar yrði stöðvaður vegna mengunar. Þann 1. september var rekstur verksmiðjunnar stöðvaður af Umhverfisstofnun. The rest is history!

Vonandi læra nú allir af þessari sorgarsögu. Til dæmis má kanna betur hverjir það eru sem vilja reisa hér milljarða verksmiðjur og fylgjast með framgangi framkvæmda.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim