Í síðustu viku voru liðin átta ár frá því að Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, bað Guð um að blessa Ísland. Að þessu sinni var hins vegar lítið sem ekkert fjallað um þessi tímamót í fjölmiðlum og er það vel.

Á dögunum buðum við hjá GAMMA viðskiptafræðinemum í móttöku og fram fóru áhugaverðar umræður um framtíðina og tækifærin sem blasa við næstu kynslóð.

Í lok móttökunnar spurði ég háskólanemana hvort mikið væri fjallað um hrunið í kennslu í viðskiptafræðinni. Gestirnir litu hver á annan í forundran og loks svaraði ein stúlka í hópnum kurteislega: „Hrunið? Það er líklega frekar kennt í sagnfræðideildinni.“

Tíminn líður og þessi litla saga minnir okkur á að syndir feðranna eru ekki syndir okkar allra. Ísland skarar fram úr á flestum sviðum, til dæmis þegar litið er til menntunar, heilbrigðismála, efnahagsmála og jafnréttismála, svo eitthvað sé nefnt.

Ísland vermir nú fimmta sætið á lista yfir þau ríki þar sem landsframleiðsla á íbúa er hæst, mælt í bandaríkjadölum. Er það gjörbreyting á stöðu landsins á fáum árum. Árið 2009 vermdi landið sæti númer 14 samkvæmt sömu tölum. Kaupmáttur Íslendinga í bandaríkjadölum hefur ekki verið hærri síðan 2007 en munurinn á stöðunni nú og þá er sá að skuldir heimilanna og ríkisins eru mun lægri.

Á fundum okkar með fjárfestum erlendis ræðir enginn um hrunið heldur er einungis spurt um tækifærin á Íslandi til framtíðar. Þótt auðvitað megi læra af mistökum fortíðarinnar er brýnt fyrir okkur öll að taka unga fólkið til fyrirmyndar og horfa fram á veginn en ekki eingöngu í baksýnisspegilinn.