Fyrir blaðamann var síðasta vika einhver sú eftirminnilegasta í mörg ár. Allt frá því Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var afhjúpaður í Kastljósinu og þar til Höskuldur Þórhallsson fór yfir ráðherraskipan nýrrar ríkisstjórnar og skúbbaði þar með oddvita nýrrar stjórnar í stiganum í Alþingishúsinu.

Ég var spurður að því um daginn hvort vendingarnar í pólitíkinni þessa daga væru stærsta frétt hér á landi í áratug. Ég svaraði því neitandi. Hrunið var stærri frétt. Bankarnir hrundu á mettíma sem hafði áhrif á hag okkar allra í mörg ár. Það að Sigmundur Davíð segi af sér mun ekki hafa nein áhrif á minn hag. Þó kastljós erlendra fjölmiðla hafi beinist að þessum atburðum hér heima þá trompar það ekki hrunið. Í hruninu beindist kastljós erlendra miðla reyndar líka að Íslandi og einnig þegar Eyjafjallajökull gaus með þeim afleiðingum að tugþúsundir flugfarþega sátu fastir í ókunnugri borg því allt flug lá niðri á risastóru svæði.

Þeirri söguskýringu hefur verið haldið á lofti að með því að segja af sér embætti hafi forsætisráðherra svarað kalli fólksins, hlustað á þjóðina. Það er ekki alveg rétt. Ástæðan fyrir því að hann sagði af sér var sú að hann naut ekki lengur stuðnings Sjálfstæðisflokksins og var kominn út í horn í eigin þingflokki. Hann gat í raun ekki gert neitt annað en að segja af sér. Því miður þá skorti forsætisráðherranum fyrrverandi þá auðmýkt að geta staðið trúverðugur fyrir framan fólk og talað út frá eigin brjósti í allri þessari orrahríð. Ef hann hefði gert það þá hefði hann staðið sterkari á eftir en hann kaus að fara aðra leið  — alla leið — allt þar til hann rakst á vegg og komst ekki lengra. Þá fyrst áttaði hann sig á mikilvægi málsins, sem er eiginlega svolítið sorglegt.

Merkilegt var að fylgjast með íslenskum fjölmiðlum í síðustu viku. Þeir sem ég fylgdist með stóðu sig undantekningarlaust ótrúlega vel. Netmiðlarnir birtu ótal fréttir og lýstu jafnvel atburðarásinni í beinni textalýsingu. Upp úr stóð þó gamla góða sjónvarpið. Beinar útsending frá Bessastöðum, af tröppum Stjórnarráðsins og úr stiga Alþingishússins, voru gulls ígildi.