Fjölmiðlar hafa síðustu vikur fjallað nokkuð um laxeldi á Íslandi og greinarskrif um málið hafa vakið meiri athygli en áður.

Undanfarin ár og reyndar áratugi hefur umræðan að stórum hluta snúist um áhrif sjókvíaeldis á  íslenska laxastofninn. Laxveiðimenn hafa haft áhyggjur þessum málum og óttast erfðamengun frá eldislaxinum sem alinn er í kvíum hér og er norskur að uppruna.  Þessi umræða hefur ekki náð mikið út fyrir þá hópa sem annaðhvort eru hlynntir laxeldi eða á móti því.

Nú hefur verið sleginn nýr taktur í umfjöllun og skrifum um laxeldi. Undanfarið hafa birst fréttir af því að norsk fyrirtæki séu að kaupa nánast öll íslensk laxeldisfyrirtæki.

Viðskiptablaðið fjallað ítarlega um þennan flöt á laxeldinu í úttekt, sem birtist í 19. maí síðastliðinn. Þar kom fram að á Íslandi kostar 300 þúsund krónur að fá leyfi fyrir meira en 200 tonna laxeldi. Þetta er fast gjald og hækkar ekki þó sótt sé um meira en 200 tonn. Einnig var bent á að mjög einfalt er að framselja leyfið. Umsýslugjaldið kostar 26 þúsund krónur. Í Noregi  er laxeldið komið að þolmörkum. Síðast þegar ný leyfi voru veitt, sem var fyrir tveimur árum síðan, kostaði 940 tonna eldi í Troms og Finnmörku 200 milljónir íslenskra króna. Á frjálsum markaði í Noregi hafa leyfin kostað 1 til 1,5 milljarða króna.

Í úttekt blaðsins var enn fremur bent á þá staðreynd að þau gæði sem íslenska ríkið er að úthluta í fjörðum landsins eru í raun takmörkuð. Með lögum frá 2004 voru stór svæði við strendur landsins friðuð og má því segja að búið sé að þrengja nokkuð að laxeldi í sjó. Á þeim svæðum sem koma til greina fyrir sjókvíaeldi er framkvæmt burðarþolsmat og þannig reiknað út hvað hver fjörður þolir mikið laxeldi út frá umhverfissjónarmiðum. Þá má því færa sterk rök fyrir því að ríkið sé í dag að útdeila takmörkuðum gæðum á spottprís.

Þessi nýi flötur á laxeldisumræðunni virðist hafa nokkuð breiða skírskotun. Nú þegar umræðan er farin að snúast um auðlindir í eigu þjóðarinnar virðast sífellt fleiri láta þessi mál sig varða. Það er alls ekki óhugsandi að eftir nokkur ár verði til einhvers konar kvótakerfi með laxeldisleyfi. Kvótakerfi, þar sem Norðmenn eiga nánast allan kvótann. Það er engin tilviljun að norskir fjárfestar renna hýru auga til laxeldis á Íslandi.