*

mánudagur, 10. desember 2018
Leiðari
19. október 2017 12:26

Það er eitthvað að

Lýsingin á starfsumhverfi kjörinna fulltrúa þjóðarinnar endurspeglar á einhvern hátt sjúklegt samfélag.

„Stjórnmálin geta tært fólk upp ef það setur ekki sjálfið aðeins til hliðar og sættir sig við að það kemur bara svo og svo miklu í verk. Á vissan hátt er þátttaka í stjórnmálum eins og að hafa ostaskera á sér sem skefur af egóinu, þunnt lag á hverjum degi. Ég hef séð stjórnmálamenn sem eru úrvinda og illa farnir eftir pólitísk áföll. En mótlæti og gagnrýni, jafnvel ósigrar móta mann og styrkja ef maður kann að virkja það sér í vil.

Ég sá fólk sem ég hélt að væri úr stáli bara bráðna við lítinn hita. Ég horfði á það fólk og sá hvernig það brást við utanaðkomandi áreiti og pólitískum þrýstingi og hugsaði með mér: „Ég ætla aldrei að verða svona.“ Maður er mannlegur, ég er ekki að segja annað. Andstreymi og erfiðleikar reyna á mann en það er bara lífið. Það hefur oft hjálpað mér að segja við sjálfan mig: ekki biðja um að þetta sé auðvelt." Þessi orð lét Bjarni Benediktsson forsætisráðherra falla í Viðskiptablaðinu 28. september.

„Það er áhyggjuefni hvað fólk endist stutt í þessu því þetta er á köflum ekkert sérlega skemmtilegt. En meðan maður brennur fyrir hugsjónum og finnst gaman að vinna með fólki þá finnst mér mjög gaman í vinnunni. En ég sé að þetta fer  illa með marga. Og ég skil það bara mætavel. Maður þarf að læra á þetta og átta sig á því að oft er enginn mælanlegur árangur. Hann er ekki alltaf mikill í stjórnmálum. En á köflum veltir maður fyrir sér hvort það skipti einhverju máli hvers vegna maður er hérna. Þannig að ég skil alveg að það er margt ósjarmerandi við þetta starf og ég hef áhyggjur af því að ungt fólk hafi ekki áhuga á að vera stjórnmálamenn.

Ég skynja að margir brenna upp mjög hratt og það er ekkert skrýtið. Maður er stundum beðinn um afstöðu til einhvers máls sem maður vill kynna sér og hugsa. Svo þegar maður er kominn með afstöðuna þá er málið búið og komið nýtt hneyksli og allir æpandi yfir því. Þannig að ég hef reynt að temja mér að fara ekki alltaf inn í þessa umræðu. Ég ætla ekki að hafa skoðun á öllu sem maður getur verið reiður yfir. Ég held að maður brenni mjög hratt upp á því." Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í viðtali í Viðskiptablaðinu í 12. október.

„Ég veit að stjórnmál eru þannig bransi að það telst góður árangur ef 85% þjóðarinnar þola þig ekki, svo lengi sem hin 15 kjósa þig. Ég veit líka að maður verður að vera með skráp. Mér tókst aldrei að koma mér upp almennilegum skráp. Við mínar fyrstu þingsetningar æpti fólk á okkur, gaf okkur fokkmerki og henti í okkur dósum og lyklum. Þetta situr í mér. Þingmenn grétu í kirkjunni.

Stjórnmál eru eineltisumhverfi, ekki innan þings heldur utan þess. Ég las um mig í fjölmiðlum að ég væri puntu­strákur, að ég vildi bara þægilega innivinnu, að ég væri í stjórnmálum bara út af því að mötuneytið væri svo fínt, að enginn myndi taka eftir mér í partíum, að ég liti út eins og lúðaleg útgáfa af Birni Thors (smá fyndið), að enginn gæti hugsað sér að fara út að borða með mér (hvað var það?), að ég væri innantómur og hugsjónalaus, með enga leiðtogahæfileika og að það EINA sem ég vildi í stjórnmálum væri að breyta klukkunni." Þetta skrifaði Guðmundur Steingrímsson, fyrrverandi þingmaður, í pistli sem birtist í Fréttablaðinu 14. október.

Hér hafa verið tekin þrjú lítil dæmi frá fólki sem kemur úr ólíkum áttum í pólitík. Það er líklega engin tilviljun að einungis átta þingmenn hafi tollað á Alþingi frá hruni. Þessi hraða endurnýjun er ekki endilega af hinu góða en að því sögðu þá eiga þingsæti ekki að vera stofnanir útaf fyrir sig eins og stundum tíðkaðist hér áður fyrr.

Það er skuggalegur samhljómur í röddum þremenninganna sem hér hefur verið vitnað í. Lýsingin á starfsumhverfi kjörinna fulltrúa þjóðarinnar endurspeglar á einhvern hátt sjúklegt samfélag, þar sem reiðin, heiftin og ósanngirnin ræður of oft ríkjum. Oftar en ekki kemur þessi andstyggilega orðræða frá fólki sem situr heima, í sínum eigin prédikunarstól, og öskrar á tölvuskjáinn. Það þurfa allir, sama hvar þeir standa í pólitík, að líta í spegil. Þetta ástand er ekki eðlilegt. Þetta er ekki væl í þingmönnunum. Það er eitthvað að.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.