*

þriðjudagur, 19. júní 2018
Ragnhildur Elín Lárusdót
16. apríl 2017 13:10

Það skal vanda sem lengi á að standa

Ragnhildur Elín Lárusdóttir skrifar um innleiðingu alþjóðlegra reglna í íslenska löggjöf.

Haraldur Guðjónsson

Á síðastliðnum árum hefur orðið veruleg aukning á alþjóðlegu samstarfi milli ríkja er varðar lagasetningu á fjölmörgum sviðum og þá oftar en ekki með það að markmiði að gæta samræmis í reglusetningu og tryggja að allir eigi möguleika á að starfa á samkeppnis markaði. Við innleiðingu alþjóðlegra reglna í íslenska löggjöf þá verður fyrst og fremst að gæta að grunngildum EES-samningsins þ.e.a.s. að fjórfrelsisákvæðunum, staðfesturétti, og banni við hvers konar mismunun.

Íslensk stjórnvöld hafa undanfarin ár lagt mikla áherslu á að taka þátt í samstarfi sem lýtur að því að koma í veg fyrir alþjóðlega skattasniðgöngu m.a. með innleiðingu reglna sem byggjast á hinni svokölluðu BEPS aðgerðaráætlun OECD (Base Erosion and Profit Shifting). Aðgerðaráætlun OECD er gríðarlega umfangsmikil og kallar á verulegar breytingar á innanlandslöggjöf og eftir atvikum breytingum á tvísköttunarsamningum sem Ísland hefur gert við önnur ríki. Í aðgerðaráætlun OECD koma fram tillögur að því hvernig útfæra skuli reglurnar í löggjöf einstakra ríkja til þess að samræmis sé gætt og að reglurnar virki sem skyldi þegar á reynir og þá sérstaklega þegar um ræðir skattlagningu þar sem fleiri en eitt ríki koma við sögu.

Innleiðing þessara reglna í íslenskt lagaumhverfi er vandasamt verk og verja þarf tölvuverðum tíma og fjármagni í að útfæra reglurnar ef vel á að vera.

Í þessu samhengi má nefna sem dæmi nýlega reglugerð um ríki-fyrir-ríki skýrslu, nr. 1166/2016 frá 22. desember 2016, en samkvæmt 91. gr. (a) laga nr. 90/2003 (tsl) er móðurfélagi sem skráð er hérlendis og á félög/félag erlendis og myndar þannig alþjóðlega fyrirtækjasamsteypu, gert skylt að skila til ríkisskattstjóra svokallaðri ríki fyrir ríki skýrslu sem á að auðvelda skattyfirvöldum eftirlit með skattskilum slíkra samstæðna, einkum þó með milliverðlagningu, á alþjóðavísu.

Reglan var lögfest með lögum um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl., sbr. lög nr. 112/2016. Lögfesting reglunnar er í samræmi við samkomulag á vegum OECD og ríkja um aukið gagnsæi í starfsemi alþjóðlegra fyrirtækjasamstæðna en Ísland varð formlegur aðili að því samkomulagi með undirritun þess 12. maí 2016. Með ákvæðinu er ríkjum sem aðild eiga að samkomulaginu gert að skiptast á ríki-fyrir-ríki skýrslum, bæði sjálfvirkt og með tvíhliða samningum. Samkomulagið er hluti af 13. lið aðgerðaráætlunar OECD gegn rýrnun skattstofna og tilfærslu hagnaðar í tengslum við endurskoðun á milliverðlagningarreglum. Með stoð í 5. mgr. 91. gr. (a) laga nr. 90/2003 um tekjuskatt var sett reglugerð nr. 1166/2016 um nánari framkvæmd á ákvæðinu.

Í 2.-3. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar er markmiðið með skilum á ríki-fyrir-ríki skýrslum tilgreint ásamt þeim upplýsingum sem gera skal grein fyrir í skýrslunni. Þá var nánar tiltekið í 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar að ríki-fyrir-ríki skýrsla skuli innihalda upplýsingar um tekjur hvers samstæðufélags innan heildarsamstæðunnar, hagnað/tap fyrir tekjuskatt, áfallinn tekjuskatt á yfirstandandi rekstrarári, greiddan tekjuskatt, skráð hlutafé, óráðstafað eigið fé, fjölda starfsmanna ásamt upplýsingum um efnislegar eignir aðrar en handbært fé.

Með þessari framsetningu gengu íslensku reglurnar mun lengra en leiðbeiningarreglur OECD gerðu ráð fyrir og lögðu því meiri ábyrgð á móðurfélög sem falla undir reglurnar en sambærileg félög með heimilisfesti í hinum OECD ríkjunum. Sá munur felst í því að ríki-fyrir-ríki skýrsla til íslenskra skattyfirvalda þarf að innihalda upplýsingar um tekjur hvers samstæðufélags innan heildarsamstæðunnar en ekki einungis samanlagðar upplýsingar fyrir hvert ríki þar sem samstæðan er með starfsemi eins og mælst er til með í 13. lið aðgerðaráætlunar OECD. Vaknaði þá upp sú spurning hjá EY og viðskiptavinum EY hvernig farið yrði með dreifingu slíkra upplýsinga í framkvæmd?

Það gæti valdið verulegum vandkvæðum þegar íslenskum félögum ber skv. lögunum að skila inn ríki-fyrir-ríki skýrslu fyrir hönd móðurfélagsins en samkvæmt 2. mgr. 91. gr. (a) kemur fram að skyldan hvíli á öðrum félögum á íslandi en móðurfélagi heildarsamstæðu ef móðurfélagið er erlent og tiltekin skilyrði eru fyrir hendi.

Þar sem ekki er gert ráð fyrir í reglum OECD að erlendu móðurfélögin þyrftu að tilgreina tekjur hvers og eins félags í hverju ríki, þá getur verið verulega erfitt fyrir íslenska félagið að nálgast umbeðnar upplýsingar. EY Ísland beindi þessari fyrirspurn til ríkisskattstjóra enda höfðu viðskiptavinir okkar verulegar áhyggjur af því að geta ekki uppfyllt þær kröfur sem íslenskar reglur lögðu á herðar þeim.

Þann 10. mars 2017 var síðan útgefin reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 1166/2016 um skil á ríki-fyrir-ríki skýrslu þar sem m.a. 4. gr. reglugerðarinnar var breytt til samræmis við leiðbeiningarreglur OECD þannig að skýrslan þarf nú aðeins að innihalda samanlagðar upplýsingar um hvert ríki í stað hvers félags eins og upphaflega reglugerðin gerði ráð fyrir. Af þessu má ráða að um mistök hafi verið að ræða sem leitt hafi af sér þetta misræmi, ekki hafi verið vandað nægilega vel til verks við innleiðingu reglunnar í íslenska löggjöf . Við innleiðingu BEPS í íslenska löggjöf þarf að gæta þess að reglurnar uppfylli kröfur OECD en gangi þó ekki lengra en nauðsynlega þarf til enda getur það orðið til þess að ekki sé hægt að framfylgja reglunum, hvorki af fyrirtækjum né skattyfirvöldum.

Þann 1. janúar síðastliðinn tók gildi ný regla um takmörkun á frádrætti vaxtagjalda svokölluð regla um þunna eiginfjármögnun, sbr. 57. gr. b. tekjuskattslaga nr. 90/2003. Reglan kveður á um takmörkun á skattalegum vaxtafrádrætti aðila í atvinnurekstri þegar lánveitandi er tengdur aðili. Með reglunni er frádráttur vaxtagjalda og affalla vegna slíkra lánsviðskipta takmarkaður við 30% af EBITDA-hagnaði skattaðilans. Reglan er með ákveðnum undantekningu og ein þeirra laut að því að reglan ætti ekki við væri lánveitandi með heimilisfesti á Íslandi. Nú liggur fyrir á Alþingi frumvarp þar sem m.a. er lagt til að fellt verði út skilyrðið um að lánveitandi þurfi að hafa heimilisfesti á Íslandi með vísan til þess að það brjóti gegn EES-samningnum. Þegar reglan var sett hafði sambærileg regla í dönsku skattalögunum sætt mikilli gagnrýni enda var ágreiningur um regluna til umfjöllunar hjá Evrópudómstólnum þar sem hún var talin fara í bága við staðfesturétt sem tryggður var með 49. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins.

Þau dæmi sem hér hafa verið nefnd sýna okkur að hvert orð í lagaákvæði eða reglugerð þarf að skoða gaumgæfulega því annars getur reglan orðið ómarkviss eða leitt til þess að hún samræmist ekki sambærilegum lagareglum annarra ríkja og jafnvel brjóti gegn samkeppnissjónarmiðum EES- samningsins. Að endingu skal þó hafa í huga að Ísland hefur skuldbundið sig til að innleiða verulegan fjölda alþjóðlegra reglna og því viðbúið að svona mistök í lagasetningu geti átt sér stað endrum og eins.

Stikkorð: Alþingi Lagasetning
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.