*

föstudagur, 19. október 2018
Brynjar Örn Ólafsson
30. september 2017 19:08

Þegar næsta ríkisstjórn fellur

Lífeyrissjóðirnir sáu ekki tilefni að rjúka á dyr í kjölfar frétta um stjórnarslit.

Neikvæðar upplýsingar komu fram eftir lokun markaða síðastliðinn 14. september sem taldar eru ástæða slita síðasta ríkisstjórnarsamstarfs. Daginn eftir fóru fram viðskipti með hlutabréf að verðmæti 5,3 ma.kr. og 19,5 ma.kr. með skuldabréf. Til samanburðar er meðaltal daglegrar veltu frá ársbyrjun 2,7 ma.kr. á hlutabréfamarkaði og 4,7 á skuldabréfamarkaði. Þennan dag var fjöldi viðskipta á skuldabréfamarkaði 246 og hefur ekki verið meiri á einum degi síðan í nóvember 2015.

Upplýsingarnar höfðu áhrif á markaðsverð og lækkaði Úrvalsvísitala Kauphallarinnar (OMXI8) um 3% og ávöxtunarkröfur lengri óverðtryggðra ríkisbréfa hækkuðu að jafnaði um 44 punkta. Kröfur á verðtryggð bréf hækkuðu talsvert minna eða um 3 punkta. Þróunin er vísbending um hvernig markaðurinn bregst við neikvæðum fréttum.

Samkvæmt KODIAK Excel var Arion banki með mikla yfirburði á söluhlið hlutabréfa þennan dag eða ríflega 25% af heildarveltu. Á skuldabréfamarkaði átti Íslandsbanki mest af sölunni með 24% af veltu dagsins. Í 80% tilfella voru upphæðir hlutabréfaviðskipta undir 20 m.kr. en á skuldabréfamarkaði var hvert þeirra nær 100 m.kr. Tölfræðin sýnir hvert fjárfestar leita aðallega við birtingu neikvæðra upplýsinga.

Þegar mat fer fram á hvort réttlætanlegt sé að selja hlutabréf við slíkar aðstæður er haft til hliðsjónar hvort virði sé hátt eða lágt og hvort hækkanir ávöxtunarkrafna hafi áhrif á núvirði hlutabréfa. Mat á virði má kanna með hlutfalli þess á móti hagnaði (VH-hlutfall) fyrir undirliggjandi félög í OMXI8. Við lokun markaða þann 14. september var hlutfallið 13,7 en til samanburðar er miðgildi hlutfallsins 15,3 frá ársbyrjun 1995. Lesandi þekkir að hlutfallið brást árið 2008 sem skýrist af því að þá samanstóð hagnaður undirliggjanda félaga að mestu af gengishagnaði. Fjallað var ítarlega um smíði hlutfallsins í Viðskiptablaðinu 28. apríl 2016.

Ekki er hægt að útiloka að innlendi markaðurinn hafi lagst við akkerið 15 frá árinu 1995 sem hefur framvegis brenglað mat á réttmæti VH-hlutfallsins. Styðjast má við gagnagrunn Dr. Roberts J. Shiller sem sýnir að miðgildi hlutfallsins fyrir bandarísk hlutabréf frá árinu 1881 er um 15,1 og að það sé nú um 23 eða heldur hærra en á íslenska markaðnum. Greiningarfyrirtækið StarCapital heldur úti tölfræði yfir hlutfallið í nærri 40 löndum og um mitt sumar var hlutfallið í þróuð­ um löndum Evrópu 22,9. Aftur heldur hærra en á Íslandi.

Eðlilega töldu markaðsaðilar að 44 punkta hækkun nafnávöxtunarkröfu 15. september myndi hafa áhrif á veginn fjármagnskostnað í sjóðstreymislíkönum. Ef beitt er eftiráhyggju sést að áhyggjur af veikingu krónunnar voru tilhæfulausar þar sem velta á gjaldeyrismarkaði var einungis 1,8 ma.kr. og Seðlabankinn þurfti ekki að selja gjaldeyri til að dempa sveiflur. Of snemmt var að fullyrða um ríkisfjármálin jafnvel þótt róttæk ríkisstjórn kæmist til valda þar sem lög um opinber fjármál tiltaka skilyrði um hámark halla og skuldastöðu. Samkvæmt Lánamálum ríkisins er hrein skuldastaða ríkissjóðs af vergri landsframleiðslu 29% og því lítið svigrúm til aukningar framboðs ríkisbréfa.

Til marks um hvernig stærstu 20 hluthafar skráðra hlutabréfa tóku fréttum um stjórnarslitin sýnir KODIAK Excel að enginn þeirra minnkaði hlut sinn um meira en 0,9 prósentustig frá 14. september til 21. september. Af þeim 148 stöðum sem lífeyrissjóðirnir höfðu héldust 143 þeirra óbreyttar eða jukust. Með öðrum orðum þeir sáu ekki tilefni til að rjúka á dyr.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.