Ég heyrði í Jensen vini mínum á Skype í gær. Hann sýndi mér nýjustu flugurnar sem eru í hönnunarferli. Léttklæddar einkrækjur, sérstaklega hentugar fyrir gárubragð, tilraunir gerðar með ný efni. Ég hlakka mikið til að prófa þær næsta sumar ásamt laxaþurrflugum sem meistari Jensen hefur verið að þróa í vetur. Fyrir ástríðufullan veiðimann eins og mig er tilhlökkun það sem drífur mig áfram og gerir norðlenska stórhríð, myrkur og kulda bærilegri.

Ég ætla að veiða mikið og eingöngu með þurrflugum og yfirborðsflugum. Stór ákvörðun sem á örugglega eftir að þvælast fyrir mér. En í leiðinni verður gaman að glíma við þessa áskorun, ekki ósvipað því þegar ég ákvað að gefa kaststangirnar mínar og spúnaboxin upp á bátinn. Það verða örugglega færri fiskar sem ég dreg á land vegna þessarar sérvisku en um það fæst ég ekki.

Urriði sem kíkir á þurrfluguna mína, lax sem ólgar við gárufluguna mína eða sjóbirtingur sem eltir flottúpu á hægri siglingu skiptir mig meira máli í dag en fjöldi fiska. Minningar frá Miðmundavaði þegar flugan gaus upp og urriðinn óð um allan flóann, eða þegar ég og dóttir mín bjuggum til klak í skítakulda í Hofsá og settum í hverja stórbleikjuna á fætur annarri hvetja mig til dáða. Einn góðan veðurdag verð ég svo kominn það langt í vitleysunni að ég veiði eingöngu með krókalausum þurrflugum á bambusflugustöng fyrir línu númer 0.

En gamanlaust, fluguveiði er lífsstíll sem tekur stöðugum breytingum, eða ekki. Allt eftir hugarfari þess sem á heldur.