Ný verðbólgumæling leit dagsins ljós nú rétt fyrir páskafrí. Var hún markverð fyrir þær sakir að í fyrsta skipti í fjögur ár fór verðbólgan yfir 2,5% markmið Seðlabankans. Fulltrúi í peningastefnunefnd sagði í kjölfarið að þróunin væri ekki óeðlileg í ljósi þeirrar gríðarlegu þenslu sem er í þjóðarbú­skapnum.

Auðvitað er fréttnæmt að verðbólgan sé fyrst nú að rjúfa verðbólgumarkmið eftir gríðarlegan hagvöxt síðustu ára en deila má um túlkunina. Ef rýnt er í undirliði verðbólgunnar liggur í augum uppi að aukin þensla hefur ekkert með það að gera að verðbólgumarkmiðið sé nú rofið. Fyrst og fremst er það framboðsskortur á húsnæði sem drífur áfram þá verð­bólgu sem mælist, skortur sem sveitarfélög í landinu bera fulla ábyrgð á. Aðrar ástæð­ur aukinnar verðbólgu má rekja til þess að heimsmarkaðsverð á olíu kemur ekki til lækkunar vísitölunnar né veruleg gengisstyrking krónunnar ólíkt því sem áður var og fer fjarri að sú breyting tengist innlendri þenslu. Þvert á móti bendir hagvaxtarspá Seðlabankans sjálfs til þess að hratt hægi á vexti hagkerfisins og að það dragi úr spennu. Þá hafa hagvaxtarspár almennt orðið mun varfærnari á undanförnum misserum í takt við breytt efnahagsumhverfi.

Skjótt skipast veður í lofti eftir undraverðan vöxt um langt árabil virðist viðsnúningurinn nú hafinn. Seðlabankinn hefur sleitulaust frá árinu 2014 spáð því að verðbólga fari yfir markmið og hefur það nú loks raungerst. Það ætti þó ekki að hafa áhrif á vaxtastefnu Seðlabankans þar sem hún hefur engin áhrif á ytri þætti á borð við heimsmarkaðsverð á olíu. Þá væri vaxtahækkun á þessum tímapunkti fremur til þess fallin að auka framboðsvandann á húsnæðismarkaði. Það að verðbólgan fari nú yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans hefur ekkert með þenslu að gera.