Viðvarandi lóðarskortur er staðreynd í Reykjavík.  Hann hefur valdið þeim hækkunum fasteignaverðs í borginni, sem aldrei hafa sést áður, þrátt fyrir að oft hafi komið hækkunartímabil.  Um er að kenna þrákelknislegri stefnu um þéttingu byggðar sem byggir á þeirri óraunhæfu framtíðarsýn núverandi meirihluta að í borginni  sé aðeins aukning á ríkum Reykvíkingum sem hafa efni á því að kaupa sér rándýrar lúxusíbúðir á dýrustu þéttingarsvæðum borgarinnar. Aðgerðar- og dugleysi núverandi meirihluta er hrópandi.

Í ársreikningum Reykjavíkurborgar síðustu ár hefur ekki verið að sjá útsvarshækkanir sem gefa til kynna að það sé raunin, heldur frekar þvert á móti þá hafa útsvarstekjur ekki hækkað í takt við íbúafjölgun. Af þessu má draga þá ályktun að ekki sé þörf á uppbyggingu fleiri lúxusíbúða. Venjulegur borgarbúi hefur ekki tekjur til að kaupa á þéttingarsvæðunum þar sem Dagur vill byggja.

Borgarstjóri hefur digurbarkalega barið sér á brjóst og talið upp íbúðir sem verið er að byggja í höfuðborginni á dýrustu svæðum hennar, þéttingarsvæðum. Til að halda þeirri þéttingu áfram skal fórna flugvellinum í Vatnsmýrinni, flugvelli alla landsmanna. Veruleikinn sem borgarbúar þurfa nú að horfast í augu við er að mikið framboð verður næstu misserin á íbúðum sem flestir telja vera lúxusíbúðir og mjög dýrum eignum. Íbúðir sem aðeins sárafáir hafa efni  á að kaupa á meðan að skortur er á venjulegum íbúðum á ódýrari byggingarsvæðum. Hagfræðingar hafa nú bent á augljóst tengsl lóðarskorts og vaxtastigs og þar með verðbólgu. Lúxusmarkaðurinn er mettur í Reykjavík en húsnæðiseklan er engu að síður staðreynd.  Framboð á nýjum eignum er rétt svo helmingur af því sem þarf til að mæta eftirspurn markaðarins og verð á fasteignum í Reykjavík er orðið að lífskjaramáli fyrir þorra borgarbúa.  Það er óhætt að fullyrða að aldrei hefur verið erfiðara fyrir ungt fólk í höfuðborginni að kaupa sér íbúð.  Hvar ætlar unga fólki að búa? Hvar getur unga fólkið búið? Hvar getur fjölskyldufólk búið? Hvar getur eldra fólk búið?

Virkt aðhald

Það er óneitanlega athyglisvert að alvöru umræður um ástæður lóðarskorts, dugleysi núverandi meirihluta til athafna og hinnar miklu hækkana fasteignaverðs má nánast einhliða rekja til virks og gagnrýnis málflutnings borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina í borgarstjórn síðustu þrjú ár.  Ítrekað höfum við sett á dagskrá borgarstjórnar stöðu á húsnæðismarkaði,  lagt fram fyrirspurnir um framboð lóða, eignaaukningu Félagsbústaða og fl. og vakið athygli meirihlutans á því hvert stefnir.  Á rúmlega 18 mánuðum hafa Framsókn og flugvallarvinir sett níu sinnum á dagskrá borgarstjórnar mál er tengjast lóðarskorti og stöðu á húsnæðismarkaði.

Ráðþrota meirihluti

Núverandi meirihluti er einfaldlega ráðþrota þegar kemur að lausn þessa risavaxna vandamáls sem stækkar með degi hverjum.  Síðustu sjö ár hefur kjarklaus borgarstjórnarmeirihlutinn neitað að horfast í auga við þennan vanda sem hefur aðeins vaxið dag frá degi.  Það verður því aðeins með nýjum meirihluta í borgarstjórn sem setur húsnæðisöryggi Reykvíkinga í forgang, húsnæðisöryggi allra aldurshópa, sem verður til þess að þessi staða breytist.  Kallað er hástöfum eftir nýrri borgarstjórn sem hefur kjark og þor til að tryggja húsnæðisöryggi og í því efni að klára m.a. skipulag Úlfarsárdalsins svo að sómi verði af og tryggja ný byggingarsvæði innan borgarinnar.  Staðreyndin er sú að byggingarkostnaður í úthverfum er lægri og byggingartíminn er skemmri og það er því eina raunhæfa lausnin til að vinna úr þeirri stöðu sem uppi er.

Framsóknarflokkurinn vann mikinn kosningasigur á landsvísu árið 2013 þegar við hétum því að setja heimilin í forgang og stóð við það. Framsókn og flugvallarvinir munu setja heimilin í forgang í næstu borgarstjórnarkosninga þar sem húsnæðisöryggi og áframhaldandi vera flugvallarins í Vatnsmýri verða kosningamálin.

Höfundur, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, er borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina.