*

föstudagur, 19. apríl 2019
Leiðari
31. desember 2017 10:02

Þjóðarskútan og farartálmarnir

Úrskurðir kjararáðs hafa sett ríkisstjórnina og kjaramálin í bobba því um 80 samningar losna á árinu 2018.

Haraldur Guðjónsson

Árið 2017 hefur verið viðburðaríkt. Þjóðarskútan siglir örugglega áfram. Hagvöxtur ársins er ríflega fjögur prósent og verðbólgan hefur verið stöðug og undir markmiði Seðlabankans, sem lækkaði stýrivexti þrisvar á árinu. Almennt hafa Íslendingar það mjög gott og það sem mestu máli skiptir er að hin fjárhagslegu lífsgæði hafa ekki verið tekin að láni og reyndin var fyrir hrun. Þó einkaneysla hafi aukist mikið er fólk líka að spara.

Ferðaþjónustan hefur átt stóran þátt í uppganginum hérlendis en nú virðist hún vera á krossgötum því hægt hefur á fjölgun ferðamanna og vöxtur í kreditkortaveltu minnkað. Þessi þróun hefur þegar haft þau áhrif að fyrirtæki í ferðaþjónustu eru farin að hagræða og nokkuð var um sameiningar fyrirtækja á árinu, sem er jákvætt.

Í mars voru fjármagnshöft á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði afnumin að nánast öllu leyti. Voru þetta mikil tíðindi því allt frá hruni bankakerfisins haustið 2018 höfðu gjaldeyrisviðskipti verið háð takmörkunum. Hefur þetta haft sérlega mikla þýðingu fyrir lífeyrissjóðina sem höfðu, vegna haftanna, verið mjög fyrirferðamiklir á íslenskum fjármálamarkaði. Nú geta þeir dreift sinni áhættu og fjárfest erlendis, sem þeir hafa verið að gera.

Vorið 2017 urðu straumhvörf í íslenskri verslun þegar smásölurisinn Costco opnaði verslun í Garðabæ. Neytendur hafa fagnað aukinni samkeppni og í raun hefur bandaríski verslunarrisinn haft ótrúlegan meðbyr frá því hann kom inn á örmarkaðinn Ísland. Aukið vöruúrval og kannski sérstaklega lágt eldsneytisverð skiptir þar miklu. Í samkeppni verða alltaf einhverjir undir og nú í lok ársins hætti Kostur rekstri en verslunin hafði verið rekin frá árinu 2009.

Húsnæðismarkaðurinn hefur verið í brennidepli á árinu. Það er ekkert skrítið því í lok árs 2016 fór að skilja á milli þróunar kaupmáttar og íbúðaverðs þannig að íbúðaverð hækkaði umfram kaupmátt, sem er hættumerki. Á síðasta ári hækkaði fasteignaverð mikið en á seinni hluta ársins dróg úr. Meginástæðan fyrir þessum miklu hækkunum er að of lítið hefur verið byggt af íbúðarhúsnæði og þá sérstaklega í Reykjavík.

Þessi staða húsnæðismála er í hróplegri mótsögn við bæklinginn, sem meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur sendi frá sér nokkrum dögum fyrir þingkosningar í október. Í bæklingnum var dregin upp glansmynd af íbúðauppbyggingunni í borginni. Mynd sem Samtök iðnaðarins, Íbúðalánasjóður og nú síðast Samtök atvinnulífsins hafa skotið niður með tiltölulega einföldum talnaupplýsingum.

Þó þjóðarskútan sigli örugglega áfram hefur pólitíkin verið í ólgusjó. Í byrjun ársins mynduðu Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð nýja ríkisstjórn eftir ríflega tveggja mánaða stjórnarkreppu. Meirihluti þessara flokkar var naumur. Aðfaranótt föstudagsins 15. september sleit Björt framtíð ríkisstjórnarsamstarfinu vegna „alvarlegs trúnaðarbrests“ innan ríkisstjórnarinnar. Slitin tengdust uppreist æru, en þann 14. september var greint frá því að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, hafi verið einn umsagnaraðila fyrir dæmdan kynferðisbrotamann sem sótti um uppreist æru árið 2016.

Gengið var til kosninga 28. október og á meðal helstu tíðinda var að Björt framtíð hvarf af þingi. Vinstriflokkarnir reyndu að mynda meirihluta með Framsóknarflokknum en það gekk ekki eftir. Þann 30. nóvember skrifuðu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn undir stjórnarsáttmála. Eru þetta tímamót í íslenskum stjórnmálum því þessir flokkar hafa ekki áður myndað saman ríkisstjórn.

Ríkisstjórnin tekur við ansi góðu búi. Það þýðir samt ekki að verkefni kjörtímabilsins sé einfalt. Á borði ríkisstjórnarinnar er risastórt mál — kjaramálin. Samningar fjölda aðildarfélaga BHM eru lausir, sem og samningar framhaldsskólakennara. Þessi félög semja við ríkið. Samningar grunnskólakennara við sveitarfélögin eru reyndar líka lausir. Þessu til viðbótar losna um 80 samningar á almenna vinnumarkaðnum í lok árs 2018. Nú hugsa eflaust einhverjir að það verði nú líklega búið að leysa kjaramálahnútinn fyrir þann tíma en málið er ekki svo einfalt. Samningurinn á almenna markaðnum hvílir á þremur meginforsendum, sem koma reglulega til endurskoðunar hjá forsendunefnd verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins strax núna í febrúar.

Úrskurðir kjararáðs undanfarin misseri hafa haft þau áhrif að hið opinbera leiðir launastefnuna í landinu. Það verður gríðarlega flókið fyrir ríkisstjórnina að vinda ofan af þessu því nú þegar eru verkalýðsleiðtogar farnir að benda á kjararáð og það réttilega. Því miður virðist sem hinu mjög svo þreytandi höfrungahlaupi á vinnumarkaði sé ekki lokið.

Bæði Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson voru í viðtölum í Viðskiptablaðinu fyrir kosningar. Það var skuggalegur samhljómur í röddum tvímenningana þegar kom að því að lýsa starfsumhverfi kjörinna fulltrúa. „Stjórnmálin geta tært fólk upp ef það setur ekki sjálfið aðeins til hliðar og sættir sig við að það kemur bara svo og svo miklu í verk. Á vissan hátt er þátttaka í stjórnmálum eins og að hafa ostaskera á sér sem skefur af egóinu, þunnt lag á hverjum degi. Ég hef séð stjórnmálamenn sem eru úrvinda og illa farnir eftir pólitísk áföll,“ sagði Bjarni.

„Það er áhyggjuefni hvað fólk endist stutt í þessu því þetta er á köflum ekkert sérlega skemmtilegt. En meðan maður brennur fyrir hugsjónum og finnst gaman að vinna með fólki þá finnst mér mjög gaman í vinnunni. En ég sé að þetta fer  illa með marga,“ sagði Katrín.

Það þurfa allir, sama hvar þeir standa í pólitík, að líta í spegil. Sú andstyggilega orðræða sem svifið hefur yfir vötnum síðustu ár er ekki eðlileg. Málefnaleg gagnrýni er aftur á móti fullkomlega eðlileg.

Vonandi mun þjóðarskútan sigla örugglega áfram á árinu 2018 þrátt fyrir ýmsa augljósa farartálma.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim