*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Davíð Þorláksson
23. september 2016 08:30

Þjóðnýtingin

„Væri ekki nærtækara að staldra við og byrja á því að svara þeirri grundvallarspurningu hvaða réttlæti felist í því að taka verðmæti af fólki sem hefur keypt þau?“

Haraldur Guðjónsson

Lukkuriddarar stjórnmálanna ríða nú fram á gresjuna og lofa að taka af hinum ríku. Fréttatíminn greindi frá því að allir flokkar, nema stjórnarflokkarnir, vilji uppboð á aflaheimildum. Það sem er ýmist kölluð fyrningar-, uppboðs-, markaðs-, samninga- eða Færeyjaleið í sjávarútvegi snýst um að ríkissjóður taki aflaheimildir af útgerðinni, selji þær og noti ágóðann í að fjármagna kosningaloforð. Flokkana greinir bara á um hve mikið eigi að taka í einu og á hve löngum tíma.

Árið 2008 kom fram að 87,5% aflaheimilda, sem var úthlutað upphaflega þegar núverandi kerfi var komið á árið 1984, hafi verið keyptar. Ef gert er ráð fyrir að þessi tala hafi hækkað jafnt síðan 1984 þá var búið að selja allar aflaheimildir árið 2012. Lukkuriddararnir vilja semsagt taka aflaheimildir af fólki, sem hefur keypt þær, og selja til að borga fyrir styrki til stjórnmálaflokka, beingreiðslur í landbúnaði, fjölmiðlanefnd, sendiráð víða um heim og ýmislegt fleira sem stjórnmálamenn hafa ákveðið fyrir okkur.

Væri ekki nærtækara að staldra við og byrja á því að svara þeirri grundvallarspurningu hvaða réttlæti felist í því að taka verðmæti af fólki sem hefur keypt þau? Hvað hefur ríkið lagt af mörkum? Fjárfesti það í aflaheimildum, skipum og veiðarfærum og skapaði þannig störf og gjaldeyristekjur? Nei. Hvers vegna ætti ríkið þá að fá að sölsa þetta undir sig núna? Það væri líka nærtækt að hlusta á aðvörunarorð Jörgens Niclasen, formanns Fólkaflokksins og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Færeyja, sem sagði að engum í Færeyjum þætti uppboð á kvóta hafa tekist vel þar í landi.

Það kemur ekki á óvart að vinstriflokkar vilji ekki bara blóðmjólka, heldur líka þjóðnýta, eina af nytjamestu mjólkurkúm þjóðarbúsins. Það sem kemur á óvart er að Viðreisn, sem sækir til hægri og á miðju, skuli vera jafn skítsama um eignarréttinn og vinstrimönnum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim