*

mánudagur, 25. mars 2019
Andrés Magnússon
17. mars 2018 13:43

Þögnin um Wessman

Ef menn eru hræddir við að segja fréttir ættu þeir kannski að snúa sér að öðru en að segja fréttir.

Róbert Wessman, forstjóri Alvogen.
Haraldur Guðjónsson

Athafnaskáldið þjóðkunna, Róbert Wessman, hefur áður komið fyrir í þessum pistlum, sérstaklega vegna ágreinings sem hann eða húskarlar hans hafa gert við fréttaflutning Viðskiptablaðsins. Sér í lagi vegna fréttar árið 2014, þar sem Róbert kom við sögu, en honum mislíkaði það svo mjög, að hann stefndi Bjarna Ólafssyni, þáverandi ritstjóra blaðsins fyrir meiðyrði.

Það tók tímann og skildinginn sinn að standa í því vafstri, en í árslok 2015 staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu, en í upphafi árs var Bjarni sýknaður af kröfum Róberts um ómerkingu ummæla í umfjöllun blaðsins hinn 28. ágúst 2014 og af þeirri einstaklega hörkulegu kröfu, að ritstjórinn yrði dæmdur til refsingar og til greiðslu miskabóta.

Ummæli snerust um að Róbert hefði verið sakaður um að hafa dregið sér fé frá Actavis Group hf., en frá þeim tíðindum var vitaskuld greint hér á síðum Viðskiptablaðsins. Bjarni reisti vörn sína á því að ummælin væru rétt, enda um að ræða tilvitnun í stefnu og kæru Björgólfs Thors Björgólfssonar á hendur Róberti.

Á þau sjónarmið féllust bæði héraðsdómur og Hæstiréttur fyllilega, en röksemdir stefnanda að engu hafðar. Dómurinn var afdráttarlaus: „Samkvæmt þessu fólst í hinum umstefndu ummælum í fyrirsögn blaðsins staðhæfing um staðreynd sem var efnislega rétt.“ Róbert var svo dæmdur til þess að greiða Bjarna 2,5 milljónir króna í málskostnað samtals fyrir héraði og Hæstarétti. Ekki var það nú ofrausn.

                                   ***

Þetta var raunar einstaklega vel sloppið hjá Róberti, því málið var einfalt og þurfti ekki lögfræðimenntun til þess að átta sig á því að málshöfðunin var fráleit og tilhæfulaus með öllu. Þar stóð ekki steinn yfir steini og útilokað að dómstóll yrði við kröfum hans.

Þá vaknar hins vegar spurningin, hvers vegna Róbert Wessman fór út í þessi glórulausu málaferli til að byrja með og hélt þeim svo til streitu eftir mjög afdráttarlausan dóm í héraði.

Því var svarað hér á sínum tíma svo:

Tilgangurinn eða a.m.k. árangurinn af þessari ömurðaræfingu Róberts er vitaskuld sá að fæla fjölmiðla frá því að fjalla um sig nema í helgisagnastíl.

Þetta er mergurinn málsins. Næst og tilefni er til þess að fjölmiðlar greini frá einhverju ólögmætu, ósiðlegu, ámælisverðu eða aðeins gagnrýnisverðu, sem varðað getur Róbert Wessman, þá þurfa blaðamenn, ritstjórar og útgefendur ekki aðeins að gæta þess að fréttin sé rétt, sanngjörn og eðlileg. Þeir þurfa nefnilega líka að spyrja sig hvort þeir nenni að þurfa að þvælast með málið fyrir réttarkerfinu mánuðum saman og bera af því verulegan kostnað, alsaklausir.

                                   ***

Þetta rifjast upp í tilefni forsíðufréttar Morgunblaðsins á laugardag, þar sem það var upplýst að Róbert Wessman hefði stofnað sjálfseignarsjóð á Ermarsundseynni Jersey, sem aftur hefði eignast 22% í Alvogen árið 2015. Hingað til hefur því verið haldið fram að hann ætti ekki hlut í fyrirtækinu, en þessi hlutur hefur verið metinn á um 90 milljarða króna.

Þetta var fyrirtaksfrétt hjá Stefáni Einari Stefánssyni, blaðamanni Morgunblaðsins, vel unnin og skýrt og skipulega skrifuð, en umfram allt innihélt hún urmul fréttapunkta frá ýmsum sjónarhornum.

Nú má ljóst vera að Róberti líkaði fréttaflutningurinn ekki, en rætt var í fréttinni við Árna Harðarson, lögmann og aðstoðarforstjóra Alvogen, sem varði nokkru máli í eyða því. Fréttin er auðvitað sérstaklega forvitnileg fyrir það að þarna ræðir um verulega fjármuni, sem hafa verið á ferðinni fram til ársins 2015, en sem kunnugt er hafa verið ýmis áhöld um eignir Róberts vegna skuldauppgjörs og ýmissa mála annarra, sem m.a. hafa verið rekin fyrir dómstólum.

Í framhaldi komu svo yfirlýsingar frá bæði stjórnendum Alvogen og fyrirtækinu sjálfu, þar sem því var haldið fram að í raun ætti enginn þessa fjármuni, þeir ættu sig eiginlega sjálfir. Róbert væri „það sem á ensku er kallað beneficiary og á íslensku kallast sennilega skilyrtur rétthafi að framtíðar fjármunum ef hugsanlega er úthlutað í framtíðinni úr þessari sjálfseignarstofnun“.

Svo var því haldið fram að Stefán Einar hefði sýnt óheiðarleika í vinnubrögðum, ekki birt athugasemdir fyrirtækisins að fullu, að eignarhald fyrirtækisins hefði verið gert tortryggilegt án þess að „viðeigandi skýringar“ fengju að fylgja með og að skort hefði á „jafnræði og sanngirni“ í umfjölluninni, hvað sem það nú þýðir. Ekkert í fréttinni, þeim gögnum, sem þar var vísað til, eða svörum Alvogen-manna getur réttlætt slíkan atvinnuróg. Eða hótanir um málshöfðun og ófrægingu, eins og fjölmiðlarýni skilst að Stefáni Einari hafi borist.

                                   ***

Þau viðbrögð koma mönnum varla á óvart, svona í ljósi þess, sem áður hefur gengið á. Annað er yðar einlægum þó sérstakt umhugsunarefni. Það er sú staðreynd, að eftir að Morgunblaðið skúbbaði þessa frétt, stórfrétt og aðalfrétt á forsíðu helgarblaðsins, hafa aðeins tveir miðlar aðrir minnst á hana. Nefnilega Viðskiptablaðið og Kjarninn. Hvorki Ríkisútvarpinu, né Stöð 2, Fréttablaðinu eða Stundinni, hvað þá DV(!) eða öðrum miðlum Wessmans, þótti ómaksins vert að minnast á þetta.

Eftir öll hrópin um skattaskjól og falinn auð á fjarlægum eyjum, flókið eignarhald og fjárglæfra, þá þykir fæstum fjölmiðlum þetta tíðindum sæta eða nokkru varða. – Hafa menn gleymt því að hér varð hrun?!

Það má með nokkrum ólíkindum teljast og ekki síður í ljósi nýlegra málaferla þar sem Róbert hefur orðið fyrir verulegum skakkaföllum, spurninga um fasteignaverkefni á hans vegum og svo framvegis. Það blasir við að bæði Róbert og fjármál hans eru fréttaefni ef allt er eðlilegt.

Því miður læðist að manni sá grunur að það sé ekki allt eðlilegt, að fyrrnefnd meiðyrðamál hans hafi borið tilætlaðan árangur og að fjölmiðlar veigri sér við að segja af honum fréttir.

En ef menn eru hræddir við að segja fréttir, þá ættu þeir kannski að snúa sér að öðru en að segja fréttir.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.