*

mánudagur, 22. apríl 2019
Leiðari
22. nóvember 2015 17:15

Þörf á upplýstri umræðu

Heilbrigðisþjónusta er ekki, þvert á fullyrðingar um annað, annars eðlis en önnur þjónusta og um hana gilda sömu lögmál.

european pressphoto agency

Viðtal við Ásdísi Höllu Bragadóttur, sem birtist í Viðskiptablaðinu í síðustu viku, vakti upp meiri og harðari viðbrögð en búast mátti við. Fyrirtæki Ásdísar Höllu starfar á heilbrigðismarkaði og fóru ummæli hennar um að ekki væri verra að „hagnast“ á því að lækna fólk en að hagnast á því að selja því mat mjög misjafnt ofan í fólk. Þetta er stóri vandinn við umræðuna um heilbrigðismál hér á landi. Ekkert svigrúm er gefið í umræðunni fyrir óhefðbundna nálgun á viðfangsefnið eða til að finna lausnir sem hugsanlega gætu virkað betur en núverandi kerfi.

Þessi ofurtrú á að ekkert kerfi geti hugsanlega virkað betur en ríkisrekið heilbrigðiskerfi minnir um sumt á heimssýn Birtíngs í bók Voltaire. Á meðan heimurinn brann í kringum hann þuldi hann í sífellu að þetta væri hinn besti hugsanlegi heimur. Sumir varðhundar núverandi heilbrigðiskerfis eru svipaðs eðlis. Þeir viðurkenna að vísu, ólíkt Birtíngi, að kerfið sé ekki fullkomið, en hafna algerlega breytingum á því. Eina lausnin á öllum vanda eru meiri fjárframlög. Drekkja á öllum vandamálum í peningum án tillits til þess hvaðan það fjármagn á að koma.

Staðreyndin er sú að ríkið sá á sínum tíma um ótrúlega stóran hluta af íslensku viðskiptalífi og gerði það almennt illa. Áfengisverslun ríkisins mátti ein selja bökunardropa og Raftækjaeinkasala ríkisins mátti ein selja raftæki og auglýsti í blöðum ljósaperur til sölu. Ríkið rak bifreiðaeinkasölu og síldareinkasölu. Allt er þetta nú komið í hendur einkaaðila og er það vel. Enginn getur efast um að þeir sem nú afa með sölu á bökunarvörum, raftækjum, bílum og síld gera það betur og með hagkvæmari hætti en ríkið hefði nokkurn tímann getað gert.

Heilbrigðisþjónusta er ekki, þvert á fullyrðingar um annað, annars eðlis en önnur þjónusta og um hana gilda sömu lögmál. Í raun má segja það sama um áfengi – það er ekki frábrugðið annarri vöru – en það er önnur umræða.

Sé fólki full alvara í að taka á þeim vanda sem við blasir í heilbrigðismálum er ekki annað tækt en að ræða að minnsta kosti þann möguleika að einkaaðilar komi í auknum mæli að því að veita þessa þjónustu. Það má vel vera að niðurstaðan verði sú að ríkið muni áfram sjá um fjármögnun og veitingu þjónustunnar, en það er algerlega óábyrgt að ræða málið bara alls ekki og slá það óskoðað út af borðinu.

Stikkorð: Leiðari Ásdís Halla
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim