Eitt af því sem ég hef átt hvað erfiðast með í starfi mínu er að þróa með mér færni í fyrirsagnasmíð. Það getur reynst vandasamt verk að koma fyrir inntaki frétta og fréttaskýringa í nokkrum orðum og oftar en ekki rúmast helstu atriði þeirra ekki fyrir í fyrirsögn. Fyrirsagnasmíð krefst þess vegna endalausra málamiðlana, skapandi hugsunar og hæfileika til að greina kjarnann frá hisminu.

Það eru engar sérstakar reglur sem búa að baki því að skrifa góða fyrirsögn. Engu að síður er gott að miða við að fyrirsögnin sé lýsandi fyrir efni greinarinnar og að hún gefi ekki fyrirheit um neitt annað en það sem stendur síðan fyrir neðan hana. Það liggur í augum uppi að það er reginmunur á því hvernig lesandi neytir fréttaefnis á síðum dagblaða og á tölvuskjá. Þess vegna gilda oft aðrar forsendur þegar blaðamaður skrifar fyrirsögn fyrir pappír og fyrir tölvur. Á síðum dagblaða keppir fyrirsögnin aðeins við annað efni á síðunni og þess vegna er mikilvægt að hún rúmi inntak fréttarinnar eins vel og mögulegt er. Á netinu keppir fyrirsögn greinar hins vegar við næstum því hvaða afþreyingarefni sem er. Kröfur til blaðamannsins margfaldast vegna þess að hann þarf að hrópa á eftir athygli lesandans.

Þessi þróun hefur leitt af sér mjög forvitnilegar og skemmtilegar fyrirsagnir en í flestum tilvika verða til svokallaðar smellbeitur (e. clickbait) sem eru lesendum einungis til ama. Eitt skýrt dæmi um slíkt er grein sem birtist á vef Pressunar í síðustu viku undir fyrirsögninni „ Börkur: Þorgrímur Þrá­ insson beitti vinkonu mína grófu einelti árum saman “. Þorgrímur er alræmt ljúfmenni og þess vegna kemur fyrirsögnin flestum lesendum á óvart. Greinin fjallar hins vegar um Facebook-færslu blaðamanns sem fer í að ræða baráttu Þorgríms gegn tóbaksnotkun. Vinkonan í þessu samhengi er sígaretta en ekki manneskja af holdi og blóði. Þetta er ódýr og léleg blaðamennska en hún er því miður ekki einsdæmi á meðal íslenskra fréttamiðla.

Það er umhugsunarefni af hverju það virðist sem svo að gæði fyrirsagna fari minnkandi á sama tíma og kröfurnar um góðar fyrirsagnir aukast. Þetta er að sjálfsögðu bara tilfinning mín en ekki vísindaleg athugun. Það getur verið að það sé einfaldlega nauðsynlegt að ginna lesendur með einum eða öðrum hætti til að smella á fréttir. Ég vona bara að fjölmiðlafólk kjósi í auknum mæli vandvirkni framar bellibrögð­ um við gerð fyrirsagna framtíðarinnar.