*

föstudagur, 26. apríl 2019
Óðinn
7. nóvember 2017 11:04

Til hamingju Ísland!

Líkt og velflestir Íslendingar varð Óðinn fyrir vonbrigðum með yfirstaðnar alþingiskosningar.

Haraldur Guðjónsson

Líkt og velflestir Íslendingar varð Óðinn fyrir vonbrigðum með yfirstaðnar alþingiskosningar. Allt ferlið var til þess fallið að valda vonbrigðum. Í annað sinn á tveimur árum féll ríkisstjórn vegna ofsaæðis minnihluta þjóðarinnar sem magnað var upp á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum hliðhollum vinstriflokkunum.

Það er fráleitt að halda því fram að umræðan um uppreist æru hafi verið tilefni til þess að sprengja ríkisstjórnina. Dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen, hafði, áður en málið varð að þeirri pólitísku atómsprengju sem síðar varð, verið fyrst ráðherra til að setja spurningarmerki við framkvæmd þess að veita dæmdum mönnum uppreist æru. Hún hafði sett í gang vinnu við að endurskoða löggjöfina um þetta efni. Málin voru sem sagt að hreyfast í rétta átt.

Tengslin rofin

Ráðherrar í öllum flokkum sem stýrt hafa innanríkis- og dómsmálaráðuneytunum hafa veitt dæmdum mönnum uppreist æru og þeirra á meðal eru menn sem hafa framið glæpi sem mörgum þykja ófyrirgefanlegir. Það að setja málið upp sem eitthvert sérstakt vandamál Sjálfstæðisflokksins og sitjandi ríkisstjórnar var ósmekklegt og eins langt frá sannleikanum og hægt er að fara.

En skrafarar internetsins fengu sínu framgengt og var þingflokkur Bjartrar framtíðar knúinn af „grasrótinni” til að sprengja ríkisstjórnina. Þar hefur eflaust ráðið miklu fólk sem situr í sveitarstjórnum fyrir flokkinn eða stefndi á framboð í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Hefur þetta fólk hugsað sem svo að vígstaðan í þeim kosningum myndi batna ef tengslin við „íhaldið” yrðu rofin með afgerandi hætti. Það sem raunverulega rofnaði þarna voru tengsl forystu Bjartrar framtíðar við raunveruleikann.

Púkinn á fjósbitanum vel nærður

Vinstrahvelið allt gladdist mjög þegar stjórnin féll og hugsuðu sér margir gott til glóðarinnar. Nú skyldi aldeilis berja á íhaldinu. Þjóðin hefði greinilega ekki hneykslast nóg á Panamaskjölunum, en ótrúlegt væri annað en hægt væri að skelfa hana til fylgilags við vinstriflokkana með því að væna Sjálfstæðisflokkinn um tengsl við barnaníð.

En uppskeran var aldeilis ekki í takt við væntingarnar. Vissulega misstu hægriflokkarnir tveir verulegt fylgi og átta þingmenn. En hver var árangur vinstriflokkanna? Píratar misstu fjóra þingmenn og fjögurra þingmanna flokkur Bjartrar framtíðar þurrkaðist út. Samfylkingin var vakin upp af dauðum og bætti við sig fjórum þingmönnum og VG náði að skrapa einum aukamanni inn á þing eftir einhverja slökustu kosningabaráttu í sögu íslenska vinstrisins. Nettóstaða vinstriflokkanna er sú að þeir töpuðu þremur þingmönnum!

Flokkur fólksins og Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar náðu til sín ellefu þingmönnum. Eftir kosningarnar hefur sama fólk og úthrópaði Flokk fólksins sem samansafn af örgustu rasistum keppst við að sannfæra sjálft sig og aðra um að FF sé vinstriflokkur. Óbeit þeirra á Sigmundi er hins vegar svo mikil að enginn hefur reynt að væna hann um að hallast til vinstri.

Stjórn sem meirihlutinn vill ekki

Þessu má hreinlega ekki gleyma. Vinstriflokkarnir fögnuðu stjórnarslitunum og tóku Bjarta framtíð í sátt aftur. Flokkurinn sem álitinn var hafa svikið vinstrihugsjónina með því að starfa með Sjálfstæðisflokknum fékk uppreist æru með því að svíkja samstarfsflokkana.

Vonir vinstrimanna stóðu til að nota þetta mál til að afla sér fylgis og vinsælda, en vinstriflokkarnir töpuðu samtals þremur þingsætum. Kjósendur voru ekki að velja vinstristjórn í þessum kosningum. Stór hluti þeirra ákvað hreinlega að kjósa „eitthvað annað”, en það sem í boði hefur verið hingað til.

Engin sérstök krafa er því uppi í samfélaginu um vinstristjórn, en því miður munum við væntanlega fá yfir okkur vinstristjórn sem mun láta Jóhönnustjórnina líta út eins og teboð í leikskóla í samanburðinum.

Framundan er löng og ströng viðræðulota um stjórnarmyndun. Við upplifðum nákvæmlega sama sirkusinn í fyrra þegar ríflega tvo mánuði tók að mynda starfhæfan meirihluta. Sá meirihluti lifði ekki út árið. Nú eru flokkarnir fleiri og ekki er möguleiki á tveggja flokka ríkisstjórn. Einu möguleikarnir til að mynda þriggja flokka ríkisstjórn fela í sér samstarf Sjálfstæðisflokks og Vinstri-grænna. Þrátt fyrir að margir skoðanabræðra Óðins hafi séð möguleika í því samstarfi er Óðinn sjálfur ekki eins bjartsýnn. VG hefur sýnt hvernig þingmenn hans rekast í meirihlutasamstarfi og spurning hvort forystu Sjálfstæðisflokksins hugnast að taka að sér að smala köttum – svo vitnað sé í Jóhönnu Sigurðardóttur. Þrátt fyrir alla hennar galla – og þeir eru margir – talar hún engu að síður af reynslu.

Þá er alls óvíst hvort forysta VG hafi nokkra löngun til að starfa með Sjálfstæðisflokknum.

Sjáumst að ári

Því miður er allt of líklegt að við taki vinstristjórn margra flokka. Miðað við það hvernig vinstrimenn hafa talað um Sigmund Davíð Gunnlaugsson er líklega óhætt að útiloka þann möguleika að Miðflokkurinn komi að myndun þeirrar vinstristjórnar. Kjósendur mega því orna sér við tilhugsunina um annaðhvort meirihlutastjórn VG, Framsóknar, Samfylkingar og Pírata – sem hefði eins þingmanns meirihluta, eða sömu stjórn með viðbót Viðreisnar eða Flokks fólksins.

Fjórir eða fimm flokkar, sem allir hafa mismunandi áherslur, mismunandi eftirlætisáhugamál og væntanleg gæluverkefni. Það er aldeilis spennandi tilhugsun.

Eini ljósi punkturinn sem Óðinn sér í þessari framtíðarsýn er sá að líklega munum við kjósa aftur að ári ef vinstriflokkarnir komast nú til valda.

Til hamingju með þetta, Íslendingar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim