Kjarninn birti frétt í lið­ inni viku, sem byggð var á samrunaskrá fyrirtækjanna Fjarskipta (móðurfélags Vodafone) og 365 miðla, sem birt hafði verið á vef Samkeppniseftirlitsins. Í skránni var ýmislegt hnýsilegt að finna, sérstaklega þó vegna þess að eftirlitinu hafði láðst að afmá úr henni margvíslegar trúnaðarupplýsingar úr rekstri fyrirtækjanna.

Þær upplýsingar eru viðkvæmar af ýmsum ástæðum. Þar er t.d. margt forvitnilegt fyrir keppinauta fyrirtækjanna, en fyrst og fremst gætu þær trúnaðarupplýsingar skekkt stöðu fjárfesta. Sem er grafalvarlegt mál. Ábyrgðin á því klúðri hvílir ljóslega hjá Samkeppniseftirlitinu, en samt var það svo að eftirlitið sendi Kjarnanum erindi um málið og hafði í hótunum um að það kynni að varða „við lög að miðla og dreifa upplýsingum sem leynt eiga að fara“.

Samkeppniseftirlitið er auðvitað í ruglinu þarna. Það er ekki Kjarninn eða blaðamaður hans, sem er bundinn trúnaði eða lögum um miðlun trúnaðarupplýsinga. Það er augljóst af lögunum sjálfum og Hæstiréttur hefur fellt dóma þar um með afgerandi hætti. Lög um trúnaðarskyldur opinberra starfsmanna, markaðsaðila, bankastarfsmanna o.s.frv. taka til þeirra, ekki annarra.

Eða svo það sé orðað skýrar: Ef Samkeppniseftirlitið veggfóðrar útidyrnar hjá sér með trúnaðarupplýsingum, þá upphefja sérlög og reglugerðir um stofnunina eða viðskipti á fjármálamarkaði ekki stjórnarskrárákvæði um tjáningarfrelsi vegfarenda eða fjölmiðla. Hvorki um klaufsku stofnunarinnar né efni upplýsinganna.

Af fréttatilkynningum stofnunarinnar varð það ekki ráðið, að Samkeppniseftirlitið hefði kært sjálft sig eða starfsmenn sína til lögreglunnar, Fjármálaeftirlitsins eða annarra, sem málið kann að varða. Við bíðum spennt.

***

Það er ástæða til þess að nefna þetta af rammri alvöru og þunga, því það verður ekki annað séð en að opinberar stofnanir, sérstaklega þó eftirlitsstofnanir, hafi mjög sérkennilegar og fornfá­ legar hugmyndir um eigin völd og lögsögu, en þó ekki síst um hlutverk fjölmiðla og upplýsingu almennings.

Þetta er nefnilega ekki í fyrsta sinn, sem íslensk eftirlitstofnun hefur í hótunum við blaðamenn og fjölmiðla fyrir að segja fréttir. Alls ekki.

Fjármálaeftirlitið, sú lánlausa stofnun, hefur þannig hvað eftir annað reynt að mýla blaðamenn með því að kæra þá fyrir brot á bankaleynd og sakað þá um hegningarlagabrot, og virðist fullkomlega fyrirmunað að skilja að blaðamenn, mögulega blankasta stétt landsins, eru ekki bankastarfsmenn. Og það þrátt fyrir að slíkum kærum eftirlitsins hafi verið vísað frá af saksóknara, svona frekar virðingarlaust.

Svona ritskoðunartilburðir stofnana hins opinbera eru óþolandi og óskiljanlegt að forstöðumenn stofnananna fái ekki áminningu eða tiltal ráðherra.

Meðan svo er, verður ekki annað skilið en að ráðamenn hafi vel­ þóknun á yfirganginum. Og þá geta þeir ekki heldur verið hissa þó að Ísland þokist ekki upp al­ þjóðlega lista yfir fjölmiðlafrelsi.

***

Fyrst verið er að bögga ráðherra er rétt að taka upp þráð frá síð­ ustu viku, þar sem fjallað var eilítið um hugmyndir Kristjáns Þórs Júlíussonar menntamálaráðherra um skattaívilnanir til fjölmiðla. Rekstur þeirra hefði verið þungur og raunar í uppnámi hjá þeim ýmsum, þó að efnahagslífið stæði að öðru leyti í miklum blóma.

Þessar hugmyndir voru harð­lega gagnrýndar af yðar einlægum, þar sem það væri fjölmiðlum og lýðræðislegri umræðu ekki hollt að vera undir handarjaðri stjórnvalda: að eiga rekstur sinn og viðurværi starfsmannanna undir velvild stjórnarherranna hverju sinni.

En það má líka setja það mál fram með öðrum hætti, svona í ljósi þess að tilefni þessara hugleiðinga ráðherrans voru kröggur ýmissa fjölmiðla að undanförnu.

Auðvitað er leiðinlegt ef kollegar eiga bágt með að fá launin sín eða þegar tilteknum fjölmiðlum er lokað eða fara á hausinn.

En af hverju í dauðanum ætti það að vera markmið löggjafa eða framkvæmdarvalds að nota fjármuni skattgreiðenda til þess að niðurgreiða tiltekinn rekstur öðrum fremur?

Eða svo það sé orðað ennþá skýrar: Af hverju ættu skattborgarar landsins að leggja fram fé svo Jón Ásgeir Jóhannesson þurfi ekki að selja frá sér hluta fjölmiðlasamstæðu sinnar, Gunnar Smári Egilsson haldið áfram að gefa út og dreifa blöðum með óvenjulegu trúboði sínu og bullandi tapi, Björn Ingi Hrafnsson og Róbert Wessman haldið sínu víðfeðma fjölmiðlaneti án þess að hafa of miklar áhyggjur af útgjöldum og tekjum? Og svo framvegis. – Nei, það er engin góð ástæða til þess.

Þessi fjölmiðlarýni birtist í Viðskiptablaðinu þann 24. maí 2017.