*

laugardagur, 23. febrúar 2019
Týr
15. janúar 2018 10:04

Tilgangslaust Viðskiptaráð?

Týr veltir fyrir sér stöðu og hlutverki Viðskiptaráðs Íslands, sem lítið hefur borið á að undanförnu.

Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs.
Haraldur Guðjónsson

Það hefur borið mikið á Samtökum atvinnulífsins (SA) eftir að Halldór Benjamín Þorbergsson var ráðinn framkvæmdastjóri í lok árs 2016. Fyrir nýafstaðnar kosningar héldu forsvarsmenn mjög áberandi á lofti sjónarmiðum um frjáls viðskipti, lága skatta og öflugt atvinnulíf. Þá fóru helstu stjórnendur SA í hringferð um landið á haustmánuðum þar sem haldnir voru kynningarfundir og vinnustaðir heimsóttir. Týr hefur ekkert nema gott um þetta að segja. SA eru í auknum mæli farin að starfa eins og hugveita (e. Think tank) sem er ekki síður mikilvægt en hefðbundinn rekstur regnhlífasamtaka atvinnulífsins. Ljóst er að innan SA fer fram mikil hugmyndavinna sem kemur fram með ýmsum og jákvæðum hætti.

                                                         ***

Þá veltir Týr fyrir sér stöðu og hlutverki Viðskiptaráðs Íslands, sem lítið hefur borið á að undanförnu. Viðskiptaráð er ekki bundið af neinum samningum við stjórnvöld og samtök launþega og hafa því frjálsari hendur þegar kemur að hugmyndavinnu, hagkerfinu til bóta. Svo virðist sem stjórnendur Viðskiptaráðs þori ekki eða vilji ekki fjalla um umdeild mál og hvað þá að koma fram með þau að fyrra bragði. Í stuttu máli; Viðskiptaráð er orðið að hugveitu án hugmynda.

                                                          ***

Það má nefna gott dæmi um nýlegt máttleysi Viðskiptaráðs, sem sýndi sig þegar síðasta ríkisstjórn kynnti áætlun sína um svokallaða jafnlaunavottun. Sama hvaða skoðun fólk kann að hafa á jafnlaunavottun þá er alveg ljóst að hún er þvingandi aðgerð af hálfu ríkisins í garð atvinnulífsins. Á meðan SA mótmæltu jafnlaunavottuninni með rökum og málefnalegum hætti sagði í umsögn Viðskiptaráðs að stjórnvöld ættu „hrós skilið fyrir að nálgast þetta við­ fangsefni með framsæknum hætti“. Það eina sem ráðið hafði út á að segja var að aðgerðin gæti mögulega orðið fyrirtækjum kostnaðarsöm.

                                                          ***

Katrín Olga Jóhannesdóttir hefur verið formaður Viðskiptaráðs frá árinu 2016 og Týr heyrir að hún hyggist sækjast eftir endurkjöri í vor. Hún er mikill stuðningsmaður jafnlaunavottunar og hefur ekki farið leynt með það. En það er ekki hægt að vera stundum á móti þvingandi aðgerðum ríkisins og stundum ekki. Ef Viðskiptaráð er ekki vettvangur hugmyndavinnu og baráttu fyrir auknu frelsi, þá er tilgangur ráðsins enginn. Er þá ekki alveg eins gott að SA sjái bara um baráttuna?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.