*

þriðjudagur, 17. júlí 2018
Ástgeir Ólafsson
10. ágúst 2017 14:16

Tíu árum seinna

Ætli við Íslendingar getum ekki bara hallað okkur aftur og fylgst með. Því eins og góður maður á Kalkofnsveginum lét hafa eftir sér: „Við erum að lækka vexti meðan hinir eru að hækka.“

epa

Þegar þetta er skrifað eru 10 ár liðin frá því að franski bankinn BNP Paribas lokaði á innlausnir í þremur vogunarsjóðum sínum sem höfðu fjárfest í undirmálsfasteignalánum í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir að undirritaður hafi einungis verið 12 ára gamall þegar þetta átti sér stað er ákvörðun bankans af mörgum talin marka upphafið á alheimsfjármálakreppunni.

Það sem fylgdi í kjölfarið þekkja flestir þó að rúmt ár hafi liðið þangað til undirmálslánabólan sprakk með hvelli, lánalínur hurfu og verðfall varð á eignamörkuðum. En ég ætla ekki að gerast svo ófrumlegur að fjalla um orsakir, eðli og umfang fjármála kreppunnar.

Nú, 10 árum seinna, virðist allt vera í blóma. Hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum eru í hæstu hæðum, atvinnuleysi fer lækkandi og hagvöxtur í þróuðum löndum er að taka við sér þó að verðbólga láti ekki á sér kræla, Draghi og Yellen til mikillar gremju.

Seðlabankar heimsins standa þó frammi fyrir risavöxnu vandamáli. Frá því í mars árið 2009 hefur Seðlabanki Bandaríkjanna keypt skuldabréf fyrir 2.750 milljarða dollara og hefur þannig keyrt eignaverð upp þar sem peningamagn í umferð hefur aukist gífurlega. Þar að auki hafa stýrivextir beggja vegna Atlantshafsins sjaldan verið lægri þó að Yellen og félagar hafi vissulega hækkað stýrivexti á þessu ári.

Svo virðist sem örvunaraðgerðirnar hafi einungis orðið til þess að ýta eignaverði upp og hafa margir málsmetandi menn haft það á orði á undanförnum misserum að seðlabankar heimsins séu komnir í erfiða stöðu. Segja má að peningastefnunefndir séu í ákveðinni spennitreyju. Búið er að beita flestum þeim tækjum sem eru til staðar til þess að örva hagkerfið og vissulega hefur hagvöxtur aukist en verðbólga er enn undir markmiðum í flestum ríkjum. Þrátt fyrir það er ljóst að á endanum verður að vinda ofan af magnbundinni íhlutun seðlabankanna sem samtals nemur 14.000 milljörðum dollara.

Áhættan sem fylgir þessari magnbundnu íhlutun er gífurleg. Svo ekki sé talað um mögulegar vaxtahækkanir sem Ken Rogoff, fyrrverandi aðalhagfræðingur AGS segir vera stærstu ógnina sem steðji að heimshagkerfinu. Það er líklega rétt sem að Jamie Dimon, forstjóri bandaríska fjárfestingarbankans JP Morgan lét hafa eftir sér að verkefnið við að vinda ofan af magnbundinni íhlutun sé áður óþekkt áskorun. Heimurinn hefur aldrei horft upp á annað eins og ætti það að segja eitthvað um áhættuna sem er til staðar. En ætli það óþægilegasta fyrir fjárfesta heimsins sé þó ekki það sem Dimon sagði um stöðuna. „Við viljum halda að við vitum nákvæmlega hvað muni gerast en í raun vitum við lítið sem ekkert.“

En ætli við Íslendingar getum ekki bara hallað okkur aftur og fylgst með. Því eins og góður maður á Kalkofnsveginum lét hafa eftir sér: „Við erum að lækka vexti meðan hinir eru að hækka.“

Þessi fjölmiðlapistill birtist í Viðskiptablaðinu þann 10. ágúst 2017.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.