*

laugardagur, 20. október 2018
Jón Ólafur Halldórsson
8. janúar 2018 16:09

Tökum ábyrgð á íslenskum innviðum

Miðað við stærð verslunar í íslensku hagkerfi er það í raun merkilegt að ekki skuli vera sérstakt verslunarráðuneyti.

Haraldur Guðjónsson

Árið 2017 var viðburðaríkt í íslensku efnahagslífi. Almennt séð er staðan góð, hagvöxtur er mikill, verðbólga stöðug, vextir hafa lækkað og ríkissjóður greitt niður skuldir. Staðan er líka viðkvæm og margar áskoranir fram undan, til dæmis hvað varðar stöðugleika á vinnumarkaði og uppbyggingu innviða landsins.

Fjárfesting í innviðum hefur verið lítil undanfarin ár og er nauð­synlegt að verja umtalsverðu fé til viðhalds þeirra og í nýjar fjárfestingar. Íslensk verslun og þjónusta er hluti af innviðum landsins. Um 24 þúsund manns hafa verslun að aðal- eða aukastarfi hér á landi sem er um 13% af heildarvinnuafli. Um 7% fyrirtækja starfa í heild- eða smásöluverslun eða tæplega fimm þúsund talsins. Miðað við stærð verslunar í íslensku hagkerfi er það í raun merkilegt að ekki skuli vera sérstakt ráðuneyti sem fer með málaflokkinn líkt og á við um aðra atvinnuvegi. Það sýnir á vissan hátt skilningsleysi stjórnvalda á mikilvægi atvinnugreinarinnar.

Framleiðum gæðaþjónustu

Íslensk verslun og þjónusta stóð frammi fyrir stórum áskorunum á síðasta ári. Mikil breyting varð á smásölumarkaði með innkomu erlendra stórfyrirtækja. Áhrifin eru meiri en orðið hafa hér á landi í áratugi og það reynir á innviðina. Almennt undirbjó íslensk verslun sig vel fyrir þessa auknu samkeppni en samt sem áður hafa áhrifin orðið meiri en búist var við. Þeirra gætir víðar en á smásölumarkaði og má þar helst nefna heildsölumarkaðinn. Brugðist hefur verið við með hagræðingu og samrunum til að styrkja rekstrargrundvöllinn og til að geta boðið vörur og þjónustu á lægra verði.

Neytendur njóta góðs af breytingunum enda veitir erlend samkeppni nauðsynlegt aðhald, stuðlar að lægra vöruverði og auknu vöruúrvali. Öflug samkeppni er af hinu góða og hefur hún alltaf jákvæð áhrif á lífsskilyrði þjóðar ef hún er heilbrigð. Verkefni Íslendinga er, nú sem fyrr, að standa sig í samkeppninni, meðal annars með hagkvæmni, skynsemi og sveigjanleika og með því að finna ný tækifæri og nýjar leiðir til að auka gæði vöru og þjónustu til hagsbóta fyrir viðskiptavini. Síðast en ekki síst þurfa söluaðilar að standa nær viðskiptavinum sínum og hlusta eftir óskum þeirra. Neytendur einblína ekki eingöngu á lágt verð, þeir vilja líka gæði, hátt þjónustustig, gott að­ gengi og öryggi í viðskiptum. Það er staðreynd að íslensk verslun stendur sig vel á öllum þessum sviðum.

Verslum hjá okkur sjálfum

Áhrif erlendra stórfyrirtækja á lítinn íslenskan markað eru og verða alltaf mikil. Stóra spurningin er, hvort Íslendingar geti mætt slíkri samkeppni. Svarið er tvímælalaust, já. Samkeppni frá erlendum alþjóð­legum risafyrirtækjum snýr ekki eingöngu að íslenskum markaði heldur snertir hún samfélagið allt. Allir Íslendingar hafa hagsmuni af því að velja íslenskt. Það er nefnilega þannig að íslensk framleiðsla, verslun og þjónusta eru sá burð­arás hagkerfisins sem stendur undir velferð þjóðarinnar. Allt íslenskt er mikilvægt fyrir atvinnu- og verð­ mætasköpun, en hún er skilyrði fyrir hagsæld og búsetu í landinu og margföldunaráhrifin eru mikil. Hagnaður situr eftir í samfélaginu og þannig leggja íslensk fyrirtæki meira til innviðauppbyggingar landsins en erlend fyrirtæki gera. Reynslan hefur sýnt að ef varan eða þjónustan er jafn góð og á samkeppnishæfu verði, velja Íslendingar íslenskt. Þeir vita að lífsskilyrði versna ef blómleg atvinnustarfsemi nær ekki að vaxa og dafna. Afleið­ingin getur orðið atgervisflótti, að færri hendur standi undir mikilvægum verkefnum þjóðarbúsins.

Ábyrgð stjórnvalda er mikil

Stjórnvöld eiga að skapa heilbrigt og hvetjandi samkeppnisumhverfi hér á landi þar sem mannauður þjóðarinnar fær notið sín. Stofnanir sem hafa eftirlit með mörkuðum mega ekki standa í vegi fyrir því að gripið sé til aðgerða til að aðlagast gjörbreyttu samkeppnisumhverfi. Íslensk athafnastarfsemi er gríðarlega mikilvæg, hún auðgar samfélagið, viðheldur hæfni þess og þekkingu og býr til okkar eigin menningu. Með þrautseigju, samvinnu og sanngirni náum við þeim árangri sem við stefnum að á nýju ári. 

Höfundur er forstjóri Olís.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.