*

mánudagur, 19. nóvember 2018
Leiðari
24. nóvember 2017 16:01

Toppurinn á ísjakanum

Eitt brýnasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar verður að finna lausn þeim hnút sem kjaramálin stefna í.

Haraldur Guðjónsson

Mikið hefur verið rætt um þörfina á að laga hér innviði. Sumir hafa jafnvel talið það eitt brýnasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar að laga vegi, byggja brýr og bora jarðgöng. Endurskipulagning fjármálakerfisins var einnig fyrirferðarmikil í umræðunni fyrir kosningar og auðlegðarskattur fékk einnig töluvert pláss í hinni pólitísku umræðu. Allt eru þetta áhugaverð mál þó þau séu misjafnlega mikilvæg. Það mál sem bar nánast aldrei á góma voru kjaramálin.

Kjaramálin eru eitt brýnasta, ef ekki brýnasta málið sem bíður á borði nýrrar ríkisstjórnar. Hér verða innviðir til dæmis ekki lagaðir ef allt logar í verkföllum. Óhætt er að segja að blikur séu á lofti í kjaramálunum. Í Viðskiptablaðinu í dag er greint frá því að framhaldsskólakennarar séu nú orðnir þreyttir á því að ekkert sé að gerast við samningaborðið og því hafi þeir tekið ákvörðun um að vísa samningunum til ríkissáttasemjara. Samkomulag þeirra við ríkið rann út fyrir tæpum mánuði og því ríkir engin friðarskylda á þeim bænum. Eftir viku losna síðan samningar grunnskólakennara og þá fellur friðarskylda þeirra úr gildi.

Þetta þýðir með öðrum orðum að nú geta kennarar farið í verkfall. Flestir Íslendingar hafa upplifað kennaraverkfall og sumir fleiri en eitt og fleiri en tvö. Þau eru ekkert gamanmál því verkfallsvopn þessarar stéttar er beitt. Það hefur áhrif á allt samfélagið. Foreldrar, vinnandi fólk, þurfa að vera heima með börnunum og því getur verkfall kennara haft lamandi áhrif á fyrirtæki og aðra vinnustaði.

Auk þessa eru sautján aðildarfélög BHM með lausa samninga eftir að úrskurður gerðardóms féll úr gildi í ágúst. Þessi félög hafa nú tekið ákvörðun um semja hvert fyrir sig sem flækir enn stöðuna. En þetta er aðeins toppurinn á ísjakanum því í lok næsta árs losna um 80 samningar í viðbót. Þorri þessara samninga er á almenna vinnumarkaðnum. Nú hugsa eflaust einhverjir að það verði nú líklega búið að leysa kjaramálahnútinn fyrir þann tíma en málið er ekki svo einfalt.

Samningurinn á almenna markaðnum hvílir á þremur meginforsendum, sem koma reglulega til endurskoðunar hjá forsendunefnd verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins. Í febrúar síðastliðnum kom í ljós að tvær af þremur forsendum stóðust skoðun, en ein gerði það ekki. Sú sem ekki stóðst skoðun snýr að launaþróun, þ.e. að launastefna samningsins yrði stefnumarkandi fyrir aðra kjarasamningagerð. Þrátt fyrir forsendubrestinn ákvað ASÍ að segja ekki upp kjarasamningnum heldur var þeirri ákvörðun frestað í eitt ár.

Þetta þýðir að eftir ríflega tvo mánuði mun forsendunefndin skoða á nýjan leik hvort forsendurnar standist skoðun eður ei. Ef það verður forsendubrestur þá er alveg ljóst að mikill þrýstingur verður á forsvarsmenn ASÍ að segja upp samningunum og þá fyrst verður fjandinn laus á íslenskum vinnumarkaði.

Fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar verður því að finna lausn á þessum málum því það mun ekkert gerast í kjaramálunum nema þau komi með eitthvert útspil.

Það er líka ágætis tilefni núna til að minna stjórnvöld á vandann sem þau standa frammi fyrir í samningum sínum við BHM-félögin sautján. Kjararáð hefur nú ítrekað komið með úrskurði um gríðarlegar launahækkanir til embættismanna og kjörinna fulltrúa þjóðarinnar. Launahækkanirnar hafa verið á bilinu 30 til 45% og auk þess hefur fólkið sem nýtur góðs af þessum úrskurðum fengið eingreiðslur upp á milljónir króna.

Nú þarf ríkið að semja við það háskólamenntaða fólk sem starfar við hlið þeirra embættismanna sem hafa notið góðs af velvilja kjararáðs. Það er kannski við hæfi að óska hinu opinbera velfarnaðar í þeim samningaviðræðum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.