Öðru hverju má lesa um traustmælingar á fjölmiðlum, en eins og dyggir lesendur þessa dálks vita, hefur fjölmiðlarýnir nokkrar efasemdir um gildi þeirra mælinga. Þar er leitað álits stórs úrtaks fólks á öllum fjölmiðlum, þegar við blasir að stór hluti svarenda hefur ekki nema nasasjón af miðlunum öllum.

Þegar 90% svarenda hafa eindregnar skoðanir á því hversu traustur fréttaflutningur fjölmiðils með litla, jafnvel staðbundna útbreiðslu, blasir við að þær kunna að vera innistæðulausar, jafnvel byggðar á fordómum. En hitt er auðvitað ekki útilokað, að svarendur hafi flestir kynnst miðlinum, litist illa á og sniðgengið síðan.

Eftir sem áður eru mælingarnar ekki nákvæmar, eins og kannski sást best á því að þegar spurt var um traust á fjölmiðlum almennt komu þær niðurstöður engan veginn heim og saman við samantekt á trausti fjölmiðla, þegar spurt var um einstaka miðla.

Þá má ekki gleyma því, að þegar spurt er um traust til fjölmiðla þá er ekki gefið að fólk sé að svara spurningu um áreiðanleika fréttanna. Það er til dæmis ekki útilokað að fólk láti ritstjórnarstefnu eða ásýnd einstakra miðla trufla sig, þó ekkert sé að fréttaflutningnum og fólk treysti fréttum miðilsins ágætlega.

***

Þetta er rifjað upp vegna þess að fjölmiðlarýnir hefur hlustað óvenjumikið á fréttir Ríkisútvarpsins undanfarnar vikur og kom satt að segja á óvart hvað fréttamennskan var oft slöpp. Léleg. Stundum aðeins þannig að óforvitni fréttamannsins vakti athygli, en líka þannig að augljósum spurningum var ekki svarað, aðeins ein hlið máls kynnt, jafnvel farið með frekar augljósar staðreyndarvillur.

Allt þetta er slæmt, en það er verra vegna þess hvað fréttastofa Ríkisútvarpsins er einstaklega deig við að leiðrétta fréttir, eins og áður hefur verið vikið að hér. Sumt af þessu eru aðeins axarsköft og hjá þeim verður seint komist. En léleg vinnubrögð, þau má bæta. Þau eru vönu fólki augljós og fréttastofan getur ekki kvartað undan manneklu.

***

Skömmu fyrir mánaðamót sagði Kristján Sigurjónsson þannig frá AirBnB á Ríkisútvarpinu í fyrri viku, þar sem það var kynnt sem „úlfur í sauðargæru“:

Skömmu fyrir mánaðamót sagði Kristján Sigurjónsson þannig frá AirBnB á Ríkisútvarpinu í fyrri viku, þar sem það var kynnt sem „úlfur í sauðargæru“:

Alveg hræðilegt, sem sagt. Græðilegt, meira að segja. Allt þetta var byggt á viðtali við dr. Jeroen A. Oskam, hollenskan fræðimann í ferðamálafræðum, sem flutt hafði fyrirlestur um samfélagsleg áhrif AirBnB á vegum Samtaka ferðaþjónustunnar fyrr um daginn.

En hefði ekki verið rétt að minnast á það að innan vébanda þeirra ágætu samtaka væri gervallur hótelgeirinn, sem hefur nokkurra hagsmuna að gæta andspænis gróðapungunum í AirBnB?

***

Um svipað leyti komu húsnæðismál nokkuð til umræðu og Hallgrímur Indriðason sagði frétt af því að tvö stærstu leigufélög landsins ættu 3.100 íbúðir og þótti greinilega nóg um:

Til samanburðar voru um 8.500 leigusamningar í gildi á síðasta ári þannig að um þriðjungur leiguíbúða á landinu er hjá þessum tveimur félögum.

Allir, sem eitthvað vita um húsnæðismál, sjá að það er eitthvað bogið við þetta. Í landinu búa 330.000 manns í tæplega 120.000 íbúðum, ef marka má Hagstofuna. Þó að séreignarstefnan sé vinsæl á Íslandi er fráleitt að aðeins séu um 8.500 íbúðir í útleigu.

Nákvæmar tölur liggja ekki fyrir um það hversu margar leiguíbúðir eru í landinu, en svo heppilega vill til að Samkeppniseftirlitið hefur þurft að gaumgæfa leigumarkaðinn vegna sameininga á því sviði. Þar kemur fram að ekki sé minna en 21% íbúða í landinu í útleigu og þær því ekki færri en 25.000 talsins. Það er um þrisvar sinnum fleiri en Hallgrímur hélt fram og því ljóst að tvö stærstu leigufélög landsins eiga ekki þriðjung markaðarins, heldur rúm 12%. Það er aðeins annað.

Annars er gaman að sjá að á vef RÚV hefur fréttin verið löguð lítillega, að því leyti að tilvitnuðu orðin að ofan hafa verið fjarlægð (þó alnetið gleymi engu). Þess er hins vegar í engu getið, en önnur óljós en mun léttvægari leiðrétting nefnd. Hvað er það?!