Margir eru ósáttir við tekjutengingar eftirlaunagreiðslna í almannatryggingakerfinu og vilja að dregið sé úr þeim eða að þær falli alfarið niður. Sumir hafa meira að segja gengið svo langt að segja að það borgi sig ekki að greiða í lífeyrissjóð og bent á að í sumum tilvikum muni litlu á eftirlaunum þess sem greiðir í lífeyrissjóð alla ævi og hjá þeim sem greiðir ekki neitt.

Það er vissulega rétt að ellilífeyrir almannatrygginga lækkareftir því sem einstaklingar fá hærri greiðslur úr lífeyrissjóði eða aðrar tekjur (atvinnutekjur, vaxtatekjur). Flestum finnst það ósanngjarnt. Ef menn líta á málið frá öðru sjónarhorni er jákvæða hliðin sú að vegna sjóðsöfnunar lífeyrissjóða og tekjutenginga almannatrygginga getur ríkissjóður tryggt að allir fá lífeyri sem dugar til lágmarksframfærslu.

Holland, best í heimi?

Hollenska lífeyriskerfið þykir eitt það besta í veröldinni. Hvergi í heiminum eiga lífeyrissjóðir jafnmiklar eignir sem hlutfall af landsframleiðslu og ellilífeyrir almannatrygginga er óháður öðrum tekjum.

Allir sem búa eða vinna í Hollandi fá ellilífeyri frá ríkinu frá 65 ára aldri (lífeyrisaldur mun hækka í áföngum á næstu árum og verður 67 ára árið 2024). Mánaðarlegur lífeyrir er um 122 þúsund krónur (1.000 evrur) til einstaklinga en um 86 þúsund til einstaklinga í hjónabandi (700 evrur). Réttindi til ellilífeyris almannatrygginga safnast upp á 50 árum á aldrinum 15 til 65 ára og lækka greiðslur um 2% fyrir hvert ár sem einstaklingar búa utan Hollands.

Í stuttu máli er helsti munur á lífeyriskerfum Íslands og Hollands sá að eftirlaun almannatrygginga í Hollandi eru föst fjárhæð á mánuði og óháð öðrum tekjum. Einstaklingar sem eiga engin önnur réttindi eða sparnað verða því að lifa af 122 þúsund krónum á mánuði og hjón af 172 þúsund krónum. Á Íslandi fá einstaklingar, sem eiga engin önnur réttindi eða sparnað, hins vegar 247 þúsund krónur á mánuði (280 þúsund frá 2017). Einstaklingur í hjónabandi eða sambúð fær 212 þúsund krónur eða hjón samtals 425 þúsund krónur (454 þúsund krónur frá 2017).

Hvað ef?

Á árinu 2015 greiddi ríkissjóður Íslands samtals 47,2 milljarða í ellilífeyrisgreiðslur og var sú fjárhæð 7% af heildarútgjöldum ríkisins.Ef ellilífeyrisgreiðslunum hefði verið skipt jafnt á milli allra íbúa 67 ára og eldri væri mánaðarlegur lífeyrir 99.300 krónur á mann. Ef fjárhæðinni hefði verið skipt í sömu hlutföllum á milli þeirra sem búa einir og sambýlisfólks, eins og gert er í Hollandi, hefðu einhleypir fengið 107 þúsund krónur á mánuði og einstaklingar í hjónabandi 75 þúsund krónur og hjón samtals 150 þúsund krónur.

Ef Ísland tæki upp hollensku leiðina fengju allir íbúar 67 ára og eldri fastar og ótekjutengdar mánaðargreiðslur og hagur margra myndi batna. Hins vegar eru aðrir sem fengju þá mun lægri lífeyri og svo lágan að fullyrða má að þeir gætu ekki lifað af honum. Til að setja þetta í samhengi má benda á að árið 2015 fengu 7.200 eftirlaunaþegar greidda sérstaka uppbót til framfærslu eða 18% af íbúum 67 ára og eldri. Þeir sem fá sérstaka uppbót eru einstaklingar með lægri tekjur en 225 þúsund á mánuði og sambýlisfólk með lægri tekjur en 193 þúsund krónur á einstakling. Allur þessi hópur og fleiri til væru verr settir án tekjutenginga.

Einhver kann að segja að ríkið verði bara að greiða hlutfallslega meira í lífeyrisgreiðslur með því að minnka útgjöld til annarra málaflokka og/eða hækka skatttekjur. Þannig geti ríkissjóður greitt hærri eftirlaun. Í nýliðinni kosningabaráttu komu til dæmis fram kröfur um 300 þúsund króna lágmarksellilífeyri til allra. Ef farið yrði að þeim kröfum myndi það kosta 142 milljarða fyrsta árið miðað við núverandi fjölda íbúa sem er þreföldun frá núverandi útgjöldum ríkissjóðs til ellilífeyris.

Eldumst og lifum lengur

Stjórnmálamenn ákveða skatttekjur og skiptingu þeirra milli málaflokka. Þeir verða að líta til langs tíma þegar ákvarðanir af þessu tagi eru teknar til þess að ákvörðun geti staðist. Hlutfallsleg fjölgun fólks á eftirlaunaaldri ásamt lengingu meðalævi dregur úr getu ríkissjóðs til að greiða ellilífeyri.

Hagstofan spáir því að Íslendingum á aldrinum 67 ára og eldri muni fjölga úr 39 þúsund árið 2016 í 86 þúsund árið 2050 eða um 121%. Á sama tíma er reiknað með að heildarfjöldi íbúa vaxi úr 332 þúsund í 422 þúsund eða um 27%. Hlutfall 67 ára af mannfjölda mun því hækka úr 12% í 20%. Fjölgun fólks á eftirlaunaaldri umfram mannfjölda hefur í för með sér hlutfallslega minni skatttekjur á sama tíma og útgjöld til málaflokka sem tengjast öldrun hækka, t.d. útgjöld til heilbrigðismála.

Meðalævilengd á Vesturlöndumhefur lengst mikið á undanförnum árum og áratugum. Sögulega hefur meðalævin lengst um 2 til 3 mánuði á ári frá árinu 1900. Tryggingastærðfræðingar telja að þessi þróun haldi áfram og hafa kynnt nýjar töflur um lífslíkur sem reikna með að flestir árgangar lifi lengur, að meðaltali 2,7-3 ár og allt upp í rúm 6 ár. Fyrir lífeyrissjóði og ríkissjóð, sem greiða lífeyrisgreiðslur til æviloka, þýða þessar breytingar að skuldbindingar hækka að meðaltali um 12% til 14%.

Eftirlaun lífeyrissjóða hækka

Meginhugmyndin með lífeyrissjóðum er að hver kynslóð spari fyrir sig og leggi ekki byrðar á yngri kynslóðir. Lífeyrisgreiðslur lífeyrissjóða ráðast af iðgjaldagreiðslum á starfsævinni og miðað við núverandi iðgjaldagreiðslur munu einstaklingar safna upp lífeyrisréttindum sem tryggja góðan grunnlífeyri frá lífeyristökualdri til æviloka.

Margir af þeim sem nú eru á lífeyrisaldri greiddu hins vegar ekki nema hluta af starfævinni í lífeyrissjóð og á tímabili bara af hluta af launum. Á þessu ári eru 26 ár síðan farið var að greiða í lífeyrissjóð af heildarlaunum og ekki nema 18 ár síðan tekið var upp eftirlit með því að allir greiði í lífeyrissjóð. Eftir því sem þeim fjölgar sem hafa greitt af heildarlaunum í lífeyrissjóð alla starfsævina mun þeim fækka sem fá lífeyri frá almannatryggingum. Sem dæmi má nefna að meðallífeyrir lífeyrissjóða fyrir einstaklinga sem eru fæddir árið 1932 er um 81 þúsund krónur á mánuði en til samanburðar má búast við að meðallífeyrir þeirra sem eru fæddir árið 1982 verði 244 þúsund krónur.

Þegar að er gáð

Ef ég ætti að velja á milli lífeyriskerfis sem tryggir að allir hafi lágmarksframfærslu með tekjutengingum eða kerfis þar sem allir fá jafnmikið frá ríkinu myndi ég velja fyrri kostinn. Það má auðvitað deila um hvaða fjárhæð dugar til að geta lifað af og hvenær greiðslur úr lífeyrissjóðum og aðrar tekjur byrja að skerða og hversu hratt þær skerða ellilífeyri almannatrygginga. Það er hins vegar óraunhæft að ætlast til að ríkissjóður geti greitt öllum jafnan lífeyri sem dugar til lágmarksframfærslu. Það má líka færa sterk rök fyrir því að þeir, sem hafa haft hæstar tekjur á starfsævinni og hafa þar af leiðandi safnað mestu, eigi að fá lægri eftirlaun frá ríkinu en þeir sem hafa lægri tekjur. Þeir sem eiga mestan sparnað ættu jafnvel ekki að fá neinn lífeyri frá ríkinu.

Það borgar sig auðvitað að greiða í lífeyrissjóð þrátt fyrir tekjutengingar. Með því safna einstaklingar upp réttindum til eftirlauna eftir að vinnu lýkur og áfallalífeyris, ef þeir verða óvinnufærir á starfsævinni eða falla frá. Hlutverk lífeyrissjóðanna er að greiða ævilangan ellilífeyri sem er uppistaðan í eftirlaunum. Hlutverk almannatrygginga er hins vegar að tryggja að allir eftirlaunaþegar hafi eftirlaun sem tryggja lágmarksframfærslu.

Höfundur er framkvæmdastjóri  Almenna lífeyrissjóðsins.