Á síðustu dögum hef ég notið tveggja verka, annars vegar bókar og hins vegar kvikmyndar, sem eiga það sameiginlegt að vera uppgjör við tiltekið tímabil. Þó að höfundar þessara verka fari mismunandi leiðir í þeim efnum er margt sameiginlegt við verkin við nánari skoðun.

The End of Alchemy er bók eftir Mervin King, sem var bankastjóri Englandsbanka frá 2003 til 2013. Bókin er um fjármálakreppuna sem King þurfti að takast á við sem bankastjóri, en um leið er hún um eðli fjármálakerfisins og hlutverk þess. Kenning Kings er sú að hlutverk peninga og um leið fjármálakerfisins sé að takast á við óvissu um framtíðina – óvissu sem er ómælanleg – og atburði sem eru fullkomlega ófyrirsjáanlegir.

Bók Kings er uppgjör við fjármálakreppuna, en um leið persónulegt uppgjör manns sem hefur helgað líf sitt vísindum sem honum þykir nú verða að sandi. Hann sér nú að ekki er hægt að treysta á peninga, grundvöll fjármálakerfisins.

Þó að ytra yfirborðið sé ólíkt er margt sameiginlegt með þessari nálgun Kings og kvikmyndinni Lemonade , en það er uppgjör söngkonunnar Beyoncé við trúnaðarbrest eiginmanns síns, Shawns Carter. Ef bók Kings er uppgjör við vísindi er mynd Beyoncé uppgjör við hjónaband. Og myndin er mjög góð. Við fyrstu sýn virðist manni sem hún muni í framtíðinni vera talin einn af hápunktum þeirra strauma sem nú einkenna vestræna dægurmenningu.

Þó að tónlistin í myndinni sé góð, og hin sjónræna upplifun í senn heillandi og tilgerðarlaus, þykir mér framlag sómalísk-breska ljóðskáldsins Warsan Shire vera það besta við Lemonade . Ljóðin, sem Beyoncé fer með á milli laga, lýsa flóknum heimi tilfinninga með einstaklega kraftmiklum hætti.

Ég mæli eiginlega frekar með Lemonade en The End of Alchemy . Hugmyndir Kings eru athyglisverðar, en hvorki frumlegar né tímalausar. Listaverk Beyoncé er nokkuð frumlegt og verður líklega talið tímalaust.