Þann 5. júní sl. féllu tveir áhugaverðir dómar á sviði skattaréttar hér á landi. Annars vegar dómur Héraðsdóms Reykjaness, í máli nr. S-111/2014, sem varðar brot á lögum um virðisaukaskatt og hins vegar dómur Hæstaréttar í máli nr. 38/2013, sem varðar brot á lögum um tekjuskatt. Málin eru því nokkuð ólík að upplagi, en eitt eiga þau sammerkt. Í báðum tilfellum höfðu ákærðu sætt álagsbeitingum þegar brot þeirra voru til meðferðar ríkisskattstjóra, með vísan til lögbundinna heimilda tekju- og virðisaukaskattslaga. Þá sættu báðir ákæru í kjölfar málsmeðferðar ríkisskattstjóra vegna sömu brota.

Kröfðust ákærðu frávísunar í báðum málum, með vísan til þess að þessar tvær málsmeðferðir fælu í sér tvöfalda refsingu fyrir eitt og sama brot, sem væri í andstöðu við 4. gr. samningsviðauka nr. 7 við Mannréttindasáttmála Evrópu (hér eftir MSE).

Hvað varðar þennan þátt málsins komst héraðsdómarinn að þeirri niðurstöðu að beiting álags á grundvelli laga um virðisaukaskatts væri refsimeðferð í skilningi refsiréttar. Þá taldi dómurinn, að ríkisskattstjóri, í krafti refsiheimilda í sérrefsilögum, hefði þegar ákvarðað ákærða refsingu fyrir brot sitt. Þar með taldi hann nýja lögsókn ákæruvaldsins brjóta gegn 1. mgr. 4. gr. samningsviðauka 7 MSE, og var því málinu vísað frá að hluta. Byggði dómurinn þessa niðurstöðu að miklu leiti á fordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu (hér eftir MDE) í máli Zolotukhins gegn Rússlandi. Í téðu máli var ítarlega rakið í hvaða tilvikum reglur um bann við tvöfaldri refsingu gætu átt við.

Hvað varðar þessa sömu málsástæðu ákærða í Hæstaréttarmálinu, hafnaði rétturinn að vísa málinu frá. Vísaði Hæstiréttur til fyrri fordæma sinna, þar sem dómurinn hafði komist að þeirri niðurstöðu að álagsbeiting í endurákvörðun skatta og saksókn á seinni stigum fæli ekki í sér tvöfalda refsimeðferð. Byggðu þessi fyrri fordæmi réttarins m.a. á dómum MDE í málum Ponsetti og Chesnel gegn Frakklandi, sem og Rosenquist gegn Svíþjóð. Í málunum var kveðið á um að 4. gr. 7. viðauka við MSE hamli því ekki að annars vegar eigi sér stað álagsbeiting skattyfirvalda, vegna brota gegn skattalögum og hins vegar sé rekið annað refsimál í tilefni af sömu málsatvika.

Ekki er hér rými til samanburðar á þeim málum MDE sem dómarnir vísa til, en almennt er þekkt að aðilar sæti einhverskonar viðgjöldum á stjórnsýslustigi, án þess að það komi í veg fyrir seinni tíma sektargreiðslu eða annars konar refsingu. En athygli vekur að í hvorugu málinu er vísað til nýlegs dóms MDE í máli Nykänens gegn Finnlandi, frá 20. maí sl. Málsatvik í því máli voru þau að finnskt félag var tekið til skattrannsóknar, þar sem komist var að því að eigandi félagsins hefði vantalið tekjur af atvinnustarfsemi sinni.

Sætti viðkomandi eigandi endurálagningar skatts, ásamt álagi, í samræmi við lög í Finnlandi. Þar með lauk þeim hluta málsins er varðaði skattyfirvöld. Í kjölfarið hóf saksóknari refsimál á hendur honum, vegna sömu atvika, og hlaut hann á endanum 10 mánaða fangelsisdóm.

Maðurinn leitaði með mál sitt til MDE, þar sem hann taldi þetta jafngilda tvöfaldri refsimeðferð fyrir eitt og sama brotið, sem væri í andstöðu við áðurnefnda reglu MSE.

MDE tók undir með Finnanum. Byggði dómurinn þessa skoðun sína á eftirtöldu:

  • Málsmeðferðirnar tvær eru reknar af tveimur sjálfstæðum stofnunum, án þess að þær tengist beint.
  • Hvor málsmeðferð fyrir sig fer sína sjálfstæðu leið hjá yfirvöldum og eru niðurstöður kveðnar upp sjálfstætt.
  • Við ákvörðun refsingar er ekki tekið mið af því að viðkomandi sætir tveimur ólíkum málsmeðferðum.
  • Við ákvörðun álagsbeitingar er tekið mið af athæfi skattgreiðandans og ábyrgð hans skv. lögum. Mat dómsins á refsinæmi er hins vegar óháð því mati.

Þar með taldi dómurinn að ekki væru nægjanleg tengsl milli þessara tveggja refsimeðferða, heldur væri um tvöfalda málsmeðferð að ræða. Væri slíkt andstætt 4. gr. samningsviðauka nr. 7 við MSE. Þær málsmeðferðarreglur sem gilda í þessum skattbrotamálum í Finnlandi svipar mikið til þeirra sem gilda hér á landi. Í fljótu bragði virðist nálgun héraðsdómarans vera í frekara samræmi við þennan nýja dóm MDE en nálgun Hæstaréttar. En þó er rétt að ítreka að málin eru vissulega sprottin af ólíkum rótum og að Hæstiréttur hefur ekki að svo stöddu fengið tækifæri til að taka niðurstöðu héraðsdómsins til efnislegrar meðferðar.

Þá fer ennfremur að styttast í að MDE kveði upp dóm í máli íslensks skattaðila sem varðar einmitt tvöfalda refsimeðferð skattamála skv. íslenskum lögum. Fróðlegt verður að sjá hvort MDE sér einhvern blæbrigðamun á finnsku aðferðafræðinni og þeirri íslensku.

Ef dómurinn heldur sig við þá línu sem hann virðist vera að marka í máli Finnans er ekki loku fyrir það skotið að þeir, sem hafi sætt álagsbeitingu við endurákvörðun skatta, sem og seinni tíma refsimeðferð, sem eflaust er þónokkur fjöldi, kunni að eiga rétt á bótum úr hendi íslenska ríkisins.