*

miðvikudagur, 24. apríl 2019
Andrés Magnússon
21. október 2016 13:51

Týr skoðar Kalashnikov

Fjölmiðlarýnir tók eftir því að ýmsir tóku myndbirtingu í dálki Týs á netinu mjög óstinnt upp.

Haraldur Guðjónsson

Fjölmiðlarýnir fjallar sjaldnast um Viðskiptablaðið; að staðaldri verða aðrir að sinna því eftirlitshlutverki.

Hins vegar tók hann eftir því að ýmsir tóku myndbirtingu í dálki Týs á netinu mjög óstinnt upp, svo mjög að rétt er að gefa því gaum.

Týr er einn af ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins, en þar er jafnan fjallað um stjórnmál, oft af nokkurri gamansemi, jafnvel stríðni. Dálkurinn er nafnlaus en birtist á ábyrgð ritstjóra. Hann líkt og dálkur Óðins hefur birst í Viðskiptablaðinu um árabil og tæpast verið að ljóstra upp leyndarmáli ef upplýst er að þar hafa margir haldið á penna yfir árin.

                                                         * * *

Í umræddum pistli birti Týr myndir af Smára P. McCarthy, forsætisráðherraefni Pírata, þar sem hann handlék ýmis skotvopn á ferðum sínum um Afganistan fyrir nokkrum árum. Myndirnar bárust Tý í tölvupósti, en í ljós kom að þær voru fengnar af Facebook-síðu Smára, sem öllum er opin. Var svo gantast eitthvað með umræðu Pírata um skotvopn og öryggismál, fremur græskulaust.

Það dugði þó ekki, því fjölmargir stuðningsmenn Pírata mótmæltu þessu harðlega og fannst þetta gróf aðför að Smára, lýðræðinu og alls konar. Um það er helst að segja: Rólegan æsing.

Sem er um það bil hið sama og Smári sagði meðfram því sem hann kom með einhverjar skýringar á því hvers vegna hann hefði handfjatlað byssur þar syðra. Hann var í sjálfboðaliðastarfi í Afganistan og kvaðst hafa hlotið byssuþjálfun sem hluta af öryggisviðbúnaði. Jafnframt drap hann á að hann hefði verið báðum megin byssukjaftsins, ekki líkað og því væri hann andsnúinn vopnaburði.

                                                         * * *

Gott og vel. Fjölmiðlarýnir skilur vel að taugaveiklaðir Píratar í kosningabaráttu geti orðið fúlir út af svona myndbirtingu. Á hinn bóginn er fleira í þessu máli sem skiptir miklu máli. Og annað sem skiptir minna máli.

Það að forystumaður í stjórnmálaflokki hafi stundað slíkan vopnaburð á vel erindi við almenning, Menn geta rétt ímyndað sér hvort það hefði ekki þótt fréttnæmt ef sams konar myndir hefðu komið í leitirnar af Bjarna Benediktssyni eða Oddnýju G. Harðardóttur, Óttari Proppé eða Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.

Undirritaður telur nokkuð víst að sérhvert þeirra hefði hlotið verulegt ámæli fyrir. Jafnframt fullyrðir hann að enginn hefði rekið upp gól um óviðurkvæmilegar árásir eða ámóta.

Hvers vegna annað virðist eiga við um Pírata er erfitt að segja. Kannski þeir séu hörundsárari eða nojaðri eftir netseturnar allar. En sennilegra er nú að þetta sé reynsluleysi, stjórnmálamenn koma sér skjótt upp þykkum skráp. Eða koma sér annað.

                                                          * * *

Hitt er svo annað mál að aðrir fjölmiðlar voru ekki neitt upprifnir yfir þessu. Hvað þá forvitnir. Nánast óforvitnir. Sem er eilítið skrýtið, því það var eitt og annað forvitnilegt í því. Nokkrar augljósar spurningar:

1. Er það til siðs eða heimilt að starfsmenn góðgerðasamstaka á hjálparsvæðum séu vopnaðir? Er t.d. munur á vopnabúri Lækna án landamæra og hjálparstarfsmanna Rauða krossins? Gilda einhverjar siðareglur um það? Gildi?

2. Er það heimilt og alsiða í Afganistan að starfsmenn við uppsetningu þráðlausra neta séu vopnaðir?

3. Tekur bandaríski herinn að sér þjálfun starfsmanna hjálparstarfsmanna í vopnaburði?

4. Býður bandaríski herinn upp á bjór í herþjálfun svona yfirleitt?

5. Hvernig tengist Krispy Kreme Doughnuts þessu máli og er það tilviljun að Hagar skuli nýverið hafa fengið umboð fyrir keðjuna? Og hvar standa Dunkin’ Donuts í deilunum í Afganistan?!!!! Hér hefði verið gaman að nota hástafalás líka.

                                                         * * *

Nei, auðvitað er málið dellukennt og ber að höndla sem slíkt. En það þýðir ekki að það sé einhver goðgá að fjalla um það, birta myndir sem öllum eru opnar á Facebook-síðu frambjóðandans eða ámóta. Hvort sem það er nú gert í gríni eða römmustu alvöru.

Stjórnmálamenn verða að sætta sig við að um þá sé fjallað í aðdraganda kosninga og það jafnvel af gagnrýni, að fram séu dregin gömul ummæli, jafnvel gamlar myndir. Sérstaklega ef þær orka tvímælis.

Umfram allt verða þeir þó að fella sig við að það sé hent gaman að þeim. Það er undirstöðuatriði í lýðfrjálsu ríki þar sem menn virða prentfrelsið.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim