Í ljósi umræðna fyrir væntanlegar kosningar um skattlagningu eigna takmarkaðs fjölda einstaklinga kann að vera gagnlegt að skoða ákveðin lögfræðileg álitaefni. Sú grundvallarspurning sem vaknar er hvernig eða hvort skattlagning einstaklinga á grundvelli eigna þeirra getur brotið gegn stjórnarskrárvörðum eignarétti þeirra. Önnur grundvallarspurning hlýtur að vera hvort löggjafanum sé það mögulegt að skattleggja tiltölulega fámennan hóp einstaklinga að teknu tilliti til jafnræðisákvæðis stjórnarskrár um að allir skulu vera jafnir fyrir lögum, m.a. án tillits til efnahags.

Nú vill svo til að það er mjög stutt síðan síðast voru lagðir eignaskattar á einstaklinga, undir heitinu auðlegðarskattur. Af tilefni þeirrar skattlagningar reyndi á ofangreindar spurningar fyrir Hæstarétti. Afstaða réttarins í máli nr. 726/2013 verður að teljast áhugavert innlegg í umræðuna fyrir kosningar. Af dóminum er ljóst að hægt er að skattleggja eignir án þess að brotið sé gegn reglum stjórnarskrár um eignarrétt og jafnræði. Hins vegar er jafnframt ljóst að það eru takmörk fyrir því hversu langt löggjafinn getur gengið við skattlagningu á eignum einstaklinga.

Jafnræðis spurningin

Um jafnræðisspurninguna sagði rétturinn m.a.: „…má þó ekki ganga svo langt í skattheimtu gagnvart einstökum mönnum að þeim sé mismunað á ótilhlýðilegan hátt í samanburði við aðra. Nái skatturinn til fámenns hóps skattborgara kann það að veita vísbendingu um að of nærri þeim hafi verið gengið, en fjöldinn einn sker þó ekki úr, heldur hvort skattlagningu sé gagngert beint að einstökum mönnum án þess að það sé gert á málefnalegan hátt.“

Um eignaréttarspurninguna sagði rétturinn m.a.: „Við úrlausn um hvort lagaákvæðin um auðlegðarskatt séu stjórnskipulega gild verður að horfa til þess við hvaða aðstæður lögin voru sett og hvert hafi verið markmið þeirra, hvers eðlis skatturinn er og hver sé upphæð hans. Þar sem auðlegðarskattur er ein tegund eignarskatts skiptir ekki síst máli að gæta að því hversu íþyngjandi hann er til lengri tíma litið vegna þess að því hærra sem skatthlutfallið er samanlagt á stuttu árabili þeim mun meiri líkur eru á að skattlagningunni megi jafna til eignaupptöku í skilningi 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar .“ (áhersla undirritaðs).

Aðrar aðstæður

Í þessum orðum réttarins er sérstaklega athyglisvert að hann horfir til aðstæðna við setningu laganna. Nú ætti engum að dyljast að aðstæður við setningu laga um auðlegðarskatt voru þær að tekjustofnar ríkisins höfðu hrunið, skuldir aukist hratt og við verulega erfiðleika var að etja við rekstur ríkisins. Það voru því allt aðrar aðstæður en eru uppi í dag. Þá var markmiðið alls ekki að færa eigur frá tilteknum hópi til annars hóps heldur að taka meira af einum hópi til að fjármagna almennan rekstur ríkisins. Meðal þess sem rétturinn notar til að lýsa aðstæðum sem réttlættu auðlegðarskattinn var var að „…á þeim tíma var við að etja einstæðan vanda í ríkisfjármálum.“

Þá er sérstaklega athyglisvert að rétturinn horfir til uppsafnaðs skatts, ekki bara til skatthlutfalls eins árs enda verða „mun meiri líkur á […] eignaupptöku“ ef skatthlutfall er hærra yfir tímabil til skoðunar. Fyrir réttinum var deilt um þriggja ára tímabil þar sem uppsafnað skatthlutfall almenns auðlegðarskatts var 4,75% og viðbótarauðlegðarskatts 2,75%. Nú ætti ekki að vera sérstaklega umdeilt að þarna var um verulega skattlagningu að ræða.

Að teknu tilliti til allra aðstæðna, þ.á m. þess að auðlegðarskatturinn væri tímabundinn, taldi Hæstiréttur löggjafann ekki hafa brotið gegn ákvæðum stjórnarskrár um eignarétt og jafnræði. Hins vegar verður ekki litið framhjá þeim rökstuðningi sem leiddi til niðurstöðu réttarins, þ.e. aðstæður í ríkisfjármálum, mat á uppsöfnuðum sköttum yfir tímabil, fjöldi einstaklinga sem skatturinn náði til, þess að skatturinn var tímabundinn o.s.frv.

Þarf að stíga varlega til jarðar

Af þessu verður varla dregin önnur ályktun en að löggjafinn þurfi að stíga mjög varlega til jarðar ef nú, örfáum árum eftir að auðlegðarskattinn rann sitt skeið, kemur til greina að leggja eignaskatt á fámennan hóp einstaklinga. Rökstuðningur Hæstaréttar gefur ekki tilefni til þess að ætla að það sé hægur leikur. Þvert á móti má ráða af honum að gæta þurfi vel að því hvort það sé yfirhöfuð mögulegt að leggja slíkan skatt á við núverandi aðstæður – og ef það er hægt er alls ekki ljóst að skatthlutfall geti verið nema mjög takmarkað og mun lægra heldur en við þær aðstæður sem ríktu í kjölfar ársins 2008.

Höfundur er lögmaður og einn eigenda LOGOS.