Fyrir næstum 41 ári féllu nóbelsverðlaunin í hagfræði (eða réttara sagt Verðlaun sænska seðlabankans í hagvísindum til minningar um Alfreð Nóbel) í skaut þeirra Gunnars Myrdal og Friedrich Hayek. Mér finnst mikilvægt að rýna af og til í fyrirlesturinn sem Hayek flutti í tilefni viðurkenningarinnar sem bar titilinn Undir yfirskyni þekkingar (e. The Pretence of Knowledge). Í fyrirlestrinum ræðir hann þá undarlegu þrá hagfræðinga að gera greinina að raunvísindum í stað þess að viðurkenna það sem hún er – mannvísindi.

„Í raunvísindum er því yfirleitt haldið fram að hvern einasta mikilvæga þátt sem ákvarðar mælanlega atburði verði hægt að sjá og mæla, eðli málsins samkvæmt,“ sagði Hayek í fyrirlestrinum. „Þegar flókin fyrirbæri á borð við markaði eru skoðuð, sem eru háð aðgerðum margra einstaklinga, verða allar þær aðstæður sem ráða útkomu ferils aldrei að fullu þekktar eða mælanlegar.“

Árið 1997 var hagfræðinóbelnum deilt á milli þeirra Myrons Scholes og Roberts Merton vegna rannsókna þeirra á sviði afleiðuviðskipta. Þremur árum áður höfðu þeir stofnað vogunarsjóðinn Long Term Capital Management sem átti að þeirra sögn að tryggja góða arðsemi fyrir viðskiptavini þeirra til lengri tíma vegna þess að viðskipti þeirra byggðust á vísindalegum aðferðum. Ári eftir að þeir fengu verðlaunin tapaði sjóðurinn 4,6 milljörðum Bandaríkjadollara á minna en fjórum mánuðum m.a. vegna óvæntrar fjárhagskrísu í Rússlandi.

Stundum fæ ég það á tilfinninguna að hagfræðirannsóknir séu framkvæmdar til þess að sníða raunveruleikann að flóknum líkönum í stað þess að smíða líkön til að skýra raunveruleg afdrif hagfræðilegra fyrirbæra. Hayek áttaði sig á þeirri mikilvægu staðreynd að þegar við skoðum fyrirbæri á borð við markaði þá er öll sú þekking sem spegluð er í verði vöru of flókin til að hún rúmist fyrir í höfði eins snjalls hagfræðings (og jafnvel tveggja hagfræðinga sem telja sig geta verðlagt kauprétti vísindalega).

Ég hef stundum sagt að hagfræðin snýst um svo miklu meira en bara peninga. Í grunninn snýst hún um það hvernig mannskepnan tekst á við skort. Þannig kemur stærðfræðin vissulega að góðum notum en hún er til einskis nýt ef hagfræðingar átta sig ekki samhliða á þeim siðferðislegu og heimspekilegu vandamálum sem fylgja skiptingu gæða samfélagsins. Þrátt fyrir að hugmyndir Hayeks eru margar hverjar mjög gagnrýniverðar þá var hann í hið minnsta meðvitaður um takmörk sinnar þekkingar. Vonandi gildir það um fleiri handhafa þessarar viðurkenningar.