*

fimmtudagur, 21. júní 2018
Andrés Magnússon
15. júlí 2017 18:17

Upp og ofan

Fjölmiðlarýnir Viðskiptablaðsins fjallar um það sem Ríkisútvarpið gerði vel í vikunni og það sem það gerði illa.

Haraldur Guðjónsson

Hið ógeðfellda fráveitumál í Reykjavík var tvímælalaust frétt vikunnar og fjölmiðlarýni kæmi alls ekki á óvart þó hún yrði tilefnd til Blaðamannaverðlauna þegar stundir líða fram. Fréttaflutningur Ríkisútvarpsins var óaðfinnanlegur og vatt áfram dag eftir dag, án þess að fréttagildið minnkaði, því með hverri yfirlýsingu stjórnvalda, embættismanna, stjórnmálamanna og borgarstarfsmanna varð málið einhvernveginn verra og verra.

Það er raunar lykilatriði í málinu, að þetta var ekki frétt sem kviknaði í einhverri tilkynningu eða opinberri skýrslu, fyrir ábendingu úr stjórnkerfinu eða pólitíkus á keiluskóm. Nei, þvert á móti er það ekki sístur þáttur fréttarinnar, hvað öllu þessu opinbera batteríi þótti málið litlu varða og engin ástæða til þess að láta ótínda alþýðuna vita. Og einhver tók beinlínis ákvörðun um að láta engan vita.

Jafnvel eftir að allt hafði komist upp, hélt kerfið áfram að þybbast við, forsvarsmenn reyndu að koma sér hjá óþægilegum spurningum, borgarstjórinn gufaði upp af yfirborði Jarðar, menn létu til skiptis eins og þetta væri alvanalegt eða algert undantekningartilvik, þrættu fyrir að minnsta ástæða hefði verið til þess að láta almenning vita af lífmengunarslysi og þar fram eftir götum.

Þetta er með öðrum orðum frummyndin af frétt: eitthvað sem einhver vildi ekki að spyrðist út.

Sennilegast hefði enginn orðið neins vísari nema vegna frumkvæðis fjölmiðla og það eitt dregur fram nauðsyn sjálfstæðra og þróttmikilla fjölmiðla. Jafnvel í litlu lýðræðisþjóðfélagi, þar sem allt á að vera svo opið og skemmtilegt.
Það er ástæða til þess að hrósa Ríkisútvarpinu fyrir fréttaflutninginn. Fréttirnar voru sagðar af ákveðni og jafnvægi, viðtöl notuð til þess að upplýsa meginþætti þeirra og myndefni sagði mikla sögu, þannig að styrkur sjónvarpsins sem fréttamiðils var vel nýttur.
                                                  * * *

Ein lítillega skyld athugasemd. Einhversstaðar í þessum fréttaflaumi varði Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, þá ákvörðun í viðtali að hafa hvorki látið borgaryfirvöld né almenning vita:

[...] í rauninni myndi það æra óstöðugan að senda þeim tilkynningu í hvert skipti sem neyðarlúga opnast í borginni.“
Gott og vel, ekki viljum æra vora óstöðugu yfirboðara í borginni, nóg er nú samt. En mætti þess í stað ekki benda Veitum ohf., Orkuveitunni eða hinni fjölmennu en þegjandalegu upplýsingadeild Ráðhússins á að koma sér upp Twitterþjörkum, sem þá geta látið vita um hvers kyns bilanir, opnar lúgur og lokaðar? Án þess að æra þessa óstöðugu.

                                                 * * *

Annars má efast um þessar fullyrðingar  ýmissa  borgarstarfsmanna, að það væri nú ekki vaninn að vera að vara sérstaklega við einhverju svona smotteríi. Á síðu Heilbrigðiseftirlitsins á vef Reykjavíkurborgar  er  sérstök fréttasíða. Þar var þriðja frétt tilkynning um að heilbrigðiseftirlitið bæði fólk um að vera ekki á ferli í fjörunni neðan við Búagrund á Kjalarnesi á meðan viðgerð á fráveitulögn stæði. Eins og eðlilegt er.

                                                  * * *

Fyrst það er búið að hæla Ríkisútvarpinu svona er best að finna aðeins að hjá því líka. Fjölmiðlarýni varð það á að hlusta á Síðdegisútvarpið á þriðjudag þegar þangað kom Björn Malmquist blaðskellandi af fréttastofunni, til þess að vera með létta og skemmtilega yfirferð erlendra frétta dagsins.

Kannski það sé dagskipunin hjá RÚV að láta hressleikann vera í fyrirrúmi eða kannski Bjössi hafi sopið of mikið af mysu í hádeginu. Eða kannski fjölmiðlarýnir hafi misst framan af kynningunni og þetta hafi verið sérstök útsending Krakka Ríkisútvarpsins.

Hvernig sem því var farið, þá var þetta óboðleg vitleysa, þar sem ekki var ljóst hvort talað væri við hlustendur í hálf kæringi eða sem hálfvita.

Fyrst ræddi Björn um fall Mósúl, þýðingu þess, ástand og horfur, en á slíkum hraða og svo í belg og biðu, að enginn varð neins vísari og hlustendur heyrðu kjálkana  á  umsjónarmönnum þáttarins síga. Næst hóf hann að segja frá nýjustu ævintýrum Trumpanna en hætti svo við af því honum fannst það eiginlega of klikkað. Samt mikilvægt. En samt. Sem má vel vera rétt athugað, en hlutverk fréttamanna er að segja fréttirnar. Loks var farið út í að segja stórtíðindi af vettvangi YouTube, sumsé að Gangnam Style hefði verið velt af stalli títt séðustu ræmunnar af einhverjum leiðindum sem sjálf yrðu senn úr sögunni. (!)

Þetta var ekki dagskrárgerð, þetta var raus. Bæði Björn og Ríkisútvarpið geta betur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.