*

sunnudagur, 21. apríl 2019
Týr
21. september 2018 10:10

Upplýsingaveitan

Undanfarna daga hefur stjórnkerfi Orkuveitunnar og dótturfélagsins Orku náttúrunnar riðað til falls.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur.
Haraldur Guðjónsson

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, sparar ekki upplýsingagjöfina á samfélagsmiðlum, þar sem pólitískir andstæðingar fá að heyra það og hefur jafnvel notað Facebook-síðu OR undir sleggjudóma um fólk. En um þeirra flokka menn, hverra hann hefur etið úr lófa í borgarkerfinu undanfarin 15 ár, á hann aldrei styggðaryrði. Eiríkur fór enda beint úr starfi aðstoðarmanns borgarstjóra Samfylkingarinnar í starf upplýsingafulltrúa OR, fékk djobbið kortér fyrir kosningarnar 2006, þegar ljóst varð að það yrðu borgarstjóraskipti. Og gott betur, því ekki var liðið ár þar til hann var kominn á lista yfir þá innstu koppa OR, sem áttu að fá kauprétt í REI á silfurfati.

***

Undanfarna daga hefur stjórnkerfi Orkuveitunnar og dótturfélagsins Orku náttúrunnar riðað til falls. Afar umdeildar ákvarðanir hafa verið teknar innan fyrirtækisins og upplýsingagjöf til furðu lostins almennings í skötulíki. Að ekki sé minnst á ákvæði laga og reglna um viðvarandi upplýsingaskyldu til markaðsaðila, sem hafa fráleitt verið uppfyllt. 

***

Síðasta fimmtudag var ákveðið í skyndi að ráða nýjan framkvæmdastjóra til Orku náttúrunnar, en innan sólarhrings kom upp úr dúrnum að hann gæti ekki gegnt starfinu. Hvers vegna ekki? spurðu gáttaðir borgarbúar, eigendur fyrirtækisins. Til svara varð Eiríkur Hjálmarsson upplýsingafulltrúi: „Það voru persónulegar ástæður þar að baki. Það er það sem ég get sagt.“

***

Þar var upplýsingafulltrúinn að villa um fyrir almenningi. Síðar sama dag kom nefnilega í ljós að framkvæmdastjórinn situr undir ásökunum um kynferðisbrot, sem eru fjarri því að vera hans prívatmál, eins og Eiríkur sagði blákalt. Til að bíta höfuðið af skömminni svaraði Eiríkur svo þeirri spurningu, hvort ákvörðunin um að nýráðinn framkvæmdastjóri tæki pokann sinn hefði verið að eigin frumkvæði eða fyrirtækisins, með orðunum „Ég veit það ekki.“ Hann er upplýsingafulltrúi á launum hjá almenningi. 

***

Að kvöldi mánudags höfðu fleiri mál, sem tengjast kynferðislegri áreitni starfsmanna Orkuveitunnar, verið dregin fram í dagsljósið. Ekki var það þó gert af stjórnendum fyrirtækisins eða „upplýsingafulltrúanum“ því þeir eru allir á harðahlaupum undan bæði síðustu ákvörðunum, eigin orðum og ábyrgð gagnvart borgarbúum.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim