Hæstiréttur Íslands staðfesti í síðustu viku að dæmdur kynferðisafbrotamaður skyldi hljóta lögmannsréttindi sín aftur. Var rökstuðningur Hæstaréttar á þá leið að maðurinn hefði hlotið uppreist æru frá forseta Íslands síðastliðið haust og hafi hann því öðlast óflekkað mannorð lögum samkvæmt.

Það eru fjölmörg atriði í þessu máli sem erfitt er að átta sig á en ég ætla að fjalla um tvö þeirra. Fyrra atriðið snýr að forseta Íslands, í þessu tilviki Guðni Th. Jóhannessyni. Hann er í raun tilneyddur samkvæmt lögum til þess að setja nafn sitt við ákvörðun sem hann tekur ekki sjálfur. Forsetinn er þar með bundinn af þeirri ákvörðun sem tekin er í innanríkisráðuneytinu og formsins vegna ber hann ábyrgð á henni á meðan nöfn þeirra sem raunverulega tóku ákvörðunina hafa hvergi komið fram í fréttum. Þegar mál sem þessi koma upp kemur bersýnilega í ljós hve miklir gallar eru á raunverulegu „valdi“ forsetans. Það virðist því vera ærin þörf á því að taka ferlið um uppreist æru og óflekkað mannorð til gagngerrar endurskoðunar. Ég er ekki að halda því fram að taka eigi út þær réttarreglur sem geta veitt mönnum sem brotið hafa af sér uppreist æru. Þar liggja manngildissjónarmið að baki en á sama tíma getur ákvörðunin ekki legið á einum stað, þá sérstaklega ekki ef annar aðili en sá sem ákveður hvort viðkomandi brotamað- ur fái uppreist æru eða ekki ber ábyrgð á ákvörðuninni.

Seinna atriðið er þó öllu alvarlegra. Það snýr að því að þeim skilaboðum sem Hæstiréttur sendir til þolenda kynferðisafbrota með dómi sínum. Það er eitt að veita mönnum sem hafa brotið af sér annað tækifæri en að veita manni lögmannsréttindi á ný eftir að hafa framið kynferðisafbrot er annað mál. Hér er ekki um ræða mann sem missteig sig. Menn misstíga sig ekki þegar þeir fremja kynferðisafbrot og valda þar með þolendum þeirra miklum andlegum skaða sem getur jafnvel varað ævilangt. Vanvirðingin við þolendurna sem hafa ekkert tækifæri til að hvítþvo sig af fortíðinni er mikil auk þess sem dómurinn vekur upp tilfinningar hjá þolendum og aðstandendum sem erfitt er að gera sér í hugarlund hve slæmar eru.

Ef Hæstiréttur telur svo vera að endurheimt lögmannsréttinda eigi að vera jafn sjálfsögð og endurheimt almennra borgararéttinda sendir dómurinn hættuleg skilaboð út í samfélagið. Auk þess er erfitt fyrir ólöglærðan mann að átta sig á raunverulegri merkingu orðanna „uppreist æru“ og „óflekkað mannorð“. Í mínum huga er æra og mannorð eitthvað sem menn skapa sér sjálfir og með gjörðum sínum, en ekki að mönnum sé það veitt með bréfi frá innanríkisráðuneytinu.

Þessi fjölmiðlapistill birtist í Viðskiptablaðinu þann 22. júní 2017.