Lesendur bóka eftir japanska rithöfundinn Haruki Murakami, sem kalla má orðið Íslandsvin, eftir að hann var gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík fyrir áratug, vita í grófum dráttum að hverju þeir ganga í nánast hvert sinn sem þeir opna bók eftir hann. Söguhetjan, sem í nær öllum tilvikum er karlmaður, annaðhvort skilur við konu sína eða týnir henni. Köttur hans fer líka eigin leiðir. Maðurinn hlustar jafnan á jasstónlist þegar hann eldar spagettí á milli þess sem hann veltir fyrir sér hvað hafi orðið um konuna og köttinn. Oftar en ekki bankar fólk upp á, stundum einhvers konar tvíeyki, systur eða börn nágranna, sem segja honum sögur og opna söguhetjunni dyr inn í annan heim. Leiðirnar eru misaðgengilegar. Í einni sögunni klöngrast maðurinn ofan í brunn á lóð í nágrenninu og horfir þar upp til himins í gegnum brunngatið. Hvað sem leiðunum líður þróast söguþráður bóka Murakamis nær alltaf á þann veg að söguhetjan tekur skrefið út í óvissuna og lendir í ævintýrum sem tengjast jafnt furðum úr japönskum goðsagnaheimi sem nútímalegri hryllingi.

Það má segja að staða efnahagsmála hér hafi um áratugaskeið svipað til söguþráðar í bókum Murakamis. Hagkerfið hefur gengið í sveiflum og krónan flökt eins og lauf í vindi. Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, hefur í tíu ár sagt þetta ástand gera sér og öðrum þeim sem reki fyrirtæki hér í alþjóðlegum rekstri, erfitt fyrir; ógerningur sé að gera plön fram í tímann. Nokkuð er reyndar um liðið síðan hann sagði síðast að fyrirtækið þyrfti að flytja úr landi vegna þessa. Niðurstaða síðustu þingkosninga er staðfesting á því að Íslendingar eru söguþjóð sem kýs hið óvænta. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur eru við það að mynda saman næstu ríkisstjórn. Í forgrunni eru loforð um flata skuldalækkun heimila í stað lækkunar á skuldum ríkissjóðs, loforð um lægri skatta, Ísland án ESB og sveiflukennda krónu í stað stöðugs gjaldmiðils. Búast má við því að gangi allt þetta eftir muni hagkerfið taka kipp til skamms tíma. Að partýinu loknu tekur óvissan við á ný. Kona yfirgefur mann, köttur týnist, hagkerfið gengur í bylgjum og forsvarsmenn fyrirtækja í alþjóð- legum rekstri klóra sér í höfðinu þegar langtímaplönin ganga ekki upp.

Pistill Jóns Aðalsteins birtist í Viðskiptablaðinu 16. maí 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.