Ríkisfjármálaáætlun 2018-2022 og stefna í lánamálum ríkisins 2017-2021 geyma áætlaðan lánsfjárjöfnuð ríkissjóðs. Jöfnuðurinn tekur tillit til tekjuafkomu og hreyfinga efnahagsliða. Súlurnar á myndinni sýna hreinan lánsfjárjöfnuð hvert ár samkvæmt ríkisreikningi, áætlaðan jöfnuð miðað við sögulegar stefnur í lánamálum, og ferillinn sýnir útgáfu ríkisbréfa umfram afborganir og uppkaup. Frá og með 2017 er um áætlanir að ræða.

Líkt og síðastliðin þrjú ár eru yfirgnæfandi líkur á að jöfnuðurinn verði jákvæður í ár vegna um 50 milljarða króna afborgunar af skuldabréfi sem útgefið var af Kaupþingi. Aftur á móti skal það tekið fram að í fjárlagafrumvarpi 2018 er gert ráð fyrir innheimtum stöðugleikaframlögum að andvirði 114 milljarða króna árið 2017 en sú upphæð hefur ekki komið fyrir í mánaðaruppgjöri ríkissjóðs það sem af er ári. Þrátt fyrir það má gera ráð fyrir að lausafjárstaða eða handbært fé ríkissjóðs verði ríflega 140 milljörðum yfir skilgreindu 40 milljarða króna lágmarki í lok árs. Fyrir vikið hefur ekki verið þörf fyrir útgáfu ríkisbréfa umfram 34 milljarða króna afborgun RIKB 17 0206 og 45 milljarða uppkaup á RIKH 18 1009 (RIH18) og RIKB 19 0226 (RIKB19) á árinu.

Hvoru tveggja stefna í lánamálum og fjárlagafrumvarp 2018 gefa til kynna að jöfnuðurinn verði jákvæður á næsta ári. Frumvarpið gerir ráð fyrir um 40 milljarða króna útgáfu langra ríkisbréfa en miðað við núverandi eftirstöðvar RIKH18 verða afborganir ríkissjóðs af löngum lánum um 132 milljarðar króna. Fyrir vikið verð­ ur hrein útgáfa árið 2018 neikvæð um nærri 90 milljarða króna. Lánamál ríkisins hafa að markmiði að halda úti virkum vaxtaferli þar sem stærð flokka með 2, 5 og 10 ára líftíma skal vera um 40 til 70 milljarðar. Þeir flokkar sem skipa þennan feril á næsta ári ná stærðarskilyrðinu fyrir utan RIKB 28 1115 sem verður tæplega 40 milljarðar ef Lánamálum tekst að selja um 3 milljarða af flokknum í þessum og næsta mánuði. Undirritaður telur að einblínt verði á þennan flokk hvað sölu varðar á næsta ári.

Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir já­ kvæðum jöfnuði árin 2019 til 2021 verður að hafa í huga að hann segir ekki alla söguna. Ríkissjóður telst seint rekstrarhæfur ef handbært fé er neikvætt. Á árinu 2019 fellur RIKB19 á gjalddaga sem hefur neikvæð áhrif á handbært fé sem nemur 83 milljörðum króna og sömuleiðis árið 2020 þar sem gjalddagar RIKB 20 0205 og erlends láns hafa ríflega 140 milljarða neikvæð áhrif. Ef áætlun fjármálaráðuneytisins um 40 milljarða króna árlegan tekjuafgang til ársins 2021 gengur eftir þarf útgáfa ríkisbréfa að vera að minnsta kosti 200 milljarðar króna á tímabilinu til að handbært fé verði yfir 40 milljörðum króna í lok hvers árs.

Höfundur er hagfræðingur.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.