*

laugardagur, 20. október 2018
Leiðari
12. janúar 2018 13:16

Vandinn í borgarpólitíkinni

Völd embættismanna, áhugaleysi, skortur á fólki með skýra pólitíska sýn, laun og fjölgun borgarfulltrúa.

Haraldur Guðjónsson

Eftir rúmlega fjóra mánuði, eða þann 26. maí, verða haldnar sveitarstjórnarkosningar. Opinber umræða um kosningarnar hefur verið afskaplega fátækleg fyrir utan nokkrar fréttir af vandræðagangi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Leiðtogakjör flokksins verður haldið 27. janúar en frestur til að skila inn framboði rann út í gær.

Framan af benti allt til þess að enginn myndi bíta á agnið fyrir utan þau Kjartan Magnússon og Áslaugu Friðriksdóttur, sem sitja í borgarstjórn fyrir flokkinn. Í fyrradag ákvað hins vegar Eyþór Arnalds, framkvæmdastjóri og fyrrverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins  í Árborg, að bjóða sig fram. Í gær bættist Vilhjálmur Bjarnason, lektor við Háskóla Íslands og fyrrverandi þingmaður, í hópinn og Viðar Guðjohnsen, leigusali og athafnamaður. Slagurinn mun standa á milli Eyþórs, Vilhjálms, Kjartans og Áslaugar.

Staða Sjálfstæðisflokksins í borginni er veik. Eftir að hafa verið um um 50% fylgi frá miðri síðustu öld og til aldamóta fór að halla undan fæti í byrjun þessarar. Frá árinu 2006 og til ársins 2014 lækkaði fylgið úr 42% í 25,7%. Í kosningunum 2014 leiddi Halldór Halldórsson, sem verið hafði bæjarstjóri á Ísafirði, flokkinn. Hann náði engan veginn að feta stíginn í stjórnarandstöðu og mistókst algjörlega að reisa flokkinn við. Það kom fáum á óvart að hann skyldi í ágúst tilkynna að hann hygðist ekki halda áfram.

Með fullri virðingu fyrir þeim sem hafa boðið sig fram þá kemur á óvart er hversu fáir virðast reiðubúnir að fara í borgarpólitíkina. Hvaða skýringar ætli séu á því? Þær eru vafalaust nokkrar. Ein skýringin kann að vera sú að hér sé einfaldlega skortur á fólki með hugsjónir. Önnur er sú að þeir sem hafa hugsjónir hugnist kannski ekki að ganga inn í stjórnkerfi þar sem embættismenn hafa sífellt fengið meiri völd og stjórna í raun flestu. Jón Gnarr ber töluverða ábyrgð á þessu því hann færði meðvitað völdin til embættismanna og var ekkert ófeiminn við flagga þeirri ákvörðun sinni. Opinberlega viðurkenndi hann vanmátt sinn í mörgum málum.

Það er misskilningur að stjórnmálamenn þurfi að vera sérfræðingar í öllum málum. Þeir þurfa hins vegar að hafa skýra pólitíska sýn og stjórnunarhæfileika. Þá komum við að  annarri mögulegri ástæðu þess að fáir virðast hafa áhuga á borgarpólitíkinni. Launin. Grunnlaun borgarfulltrúa eru um 630 þúsund krónur á mánuði sem er hjákátleg upphæð. Þar með er samt ekki öll sagan sögð því allir borgarfulltrúar fá 25% álag fyrir setu í annað hvort borgarráði eða fyrir að sitja í þremur nefndum eða ráðum. Í heildina eru launin því um 800 þúsund. Oddvitar flokkanna fá hærri laun.

Fólk með stjórnunarreynslu er flest í góðri og vinnu og þess vegna getur það vegið ansi þungt að launin séu ekki hærri en raun ber vitni. Þó borgarstjórn hafi á síðasta ári samþykkt að hafna tengingu við úrskurði Kjararáðs, sem hefði hækkað grunnlaunin úr um 590 þúsund krónum í tæplega 860 þúsund, þá þarf virkilega að endurskoða launastrúktúrinn í borginni.

Þá komum við að öðru og alveg hreint makalausu máli. Það er lagasetning sem skikkar sveitarstjórnir til að fjölga kjörnum fulltrúum. Í borginni þýðir þetta í staðinn fyrir 15 borgarfulltrúa munu 23 borgarfulltrúar verða kjörnir maí. Þetta skapar allskonar flækjustig fyrir borgina. Enginn þröskuldur er fyrir flokka til að komast í borgarstjórn þannig að mögulegi gæti komið upp sú stað að við verðum með töluvert fleiri flokka í borgarstjórn en nú. Í dag eiga sex flokkar fulltrúa í borgarstjórn en þeir gætu hæglega orðið átta eða tíu. Það þýðir að launakostnaður borgarinnar vegna kjörinna fulltrúa eykst. Fleiri fá oddvitalaun, fleiri varaborgarfulltrúar fá laun o.s.frv. Hefði nú ekki verið skynsamlegra að hafa bara fimmtán borgarfulltrúa en hækka launin hjá þeim?

Vandamálin í borginni blasa við. Meirihlutinn hefur rekið lóðaskortsstefnu um árabil með þeim afleiðingum að unga hefur séð sig knúið til að flytja annað — í nágrannasveitarfélögin eða jafnvel lengra. Skattar hafa hækkað mikið og má þar til dæmis nefna gjaldskrárhækkanir Orkuveitunnar. Af nógu er að taka. Borgarbúar eiga skilið að besta fólkið gefi sig fram til starfa í borginni. Það á við um minnihlutann jafnt sem meirihlutann.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.