Innflæðishöft hafa verið hér við lýði í 22 mánuði. Hefur tilvist þeirra verið rökstudd með því að hindra þurfi flæði skammtímafjármagns erlendra aðila til landsins, þó reyndar sé illa skilgreint af Seðlabankanum sjálfum hvað flokkist sem skammtímaflæði.

Það er óumdeilt að höft á fjármagnsflæði hindra viðskipti milli landa, brengla verðmyndun á mörkuðum og stuðla að hærra vaxtastigi í þeim löndum sem búa við höft. Draga þau úr fjárfestingu og halda aftur af verðmætasköpun sem bitnar á hagsæld landsmanna.

Það ætti að vera markmið allra landsmanna að afnema höft. Það vekur því athygli að Seðlabankinn furði sig á gagnrýni um innflæðishöftin og standi vörð um óbreytt ástand. Það eru nefnilega ekki aðeins hagsmunasamtök, fjárfestar eða bankastarfsmenn á Íslandi sem gagnrýna höftin. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur verið afdráttarlaus í andstöðu sinni við innflæðishöftin á Íslandi. Sjóðurinn telur að slík höft eigi að vera neyðarúrræði og sér enga ástæðu til annars en að afnema þau enda eigi höft ekki að gegna lykilhlutverki í innlendri hagstjórn.

Seðlabankinn virðist þó gefa lítið fyrir sjónarmið sjóðsins. Mikill vaxtamunur við útlönd laðar til landsins erlent fjármagn og voru innflæðishöftin sett til að hindra slíkt flæði. Í dag eru hins vegar stærstu innlendu fjárfestarnir, lífeyrissjóðirnir, að beina fjárfestingum sínum úr landi. Við slíkar aðstæður getur hæglega myndast skortur á fjármagni.

Það er alltaf varasamt þegar embættismenn reyna að stýra hagkerfum í ákveðnar áttir. Það ætti því ekki að koma á óvart að hvergi í þeim ríkjum sem við viljum bera okkur saman við eru innflæðishöft við lýði. Höft eru skaðleg, þau valda óþarfa kostnaði og draga úr verðmætasköpun. Höft eiga að vera neyðarúrræði, sú neyð virðist hvergi sjáanleg nema ef ske kynni út um gluggana á Kalkofnsvegi 1.