*

föstudagur, 24. maí 2019
Týr
26. júlí 2018 12:34

Vargar í véum

Týr veltir vöngum yfir andstöðu við komu Piu Kjærsgaard.

epa

Hún var frekar misheppnuð hátíðin á Þingvöllum í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands, þó ekki væri nema fyrir það að reyna að halda upp á 1. des. hinn 18. júl. Flestir stöldruðu þó við hitt, að þangað væri boðið forseta danska þingsins til þess að vera hátíðarræðumaður. Hið íslenska uppnám vikunnar varð samt ekki vegna þess að það væri sérstök goðgá að fá djöfulinn danskan í þau helgu vé þjóðarinnar, heldur vegna þess að þar ræddi um kvendjöfulinn Piu Kjærsgaard.

***

Margir urðu til þess að láta í ljós vandlætingu, hneykslan og bræði vegna þessa. Þingmönnum Pírata varð svo um að þeir létu ekki sjá sig á þingfundinum, sem hugsanlega hefði verið áhrifameira ef þingflokkurinn væri annálaður fyrir góða mætingu. Hins vegar fór ekki fram hjá nokkrum manni þegar leikkonan Helga Vala Helgadóttir spratt á fætur með dramatískum hætti og skundaði af Þingvelli. Sem átti þó enn meira skylt við leikaraskap eftir að hún kom svo stundvíslega til hátíðarkvöldverðar á Hótel Sögu um kvöldið til þess að skála í dýrum veigum með þeim afleiðingum að hún þurfti á klóið þegar Pia kvaddi sér aftur hljóðs.

***

Þessi andstaða við ræðuhöld Piu var rakin til ógeðfelldrar stefnu Danska þjóðarflokksins í útlendingamálum. Hún var úthrópuð sem rasisti og bent því til stuðnings á danskan hæstaréttardóm. En það er ekki rétt athugað, dómurinn kvað ekkert upp úr um hvort Pia væri rasisti, heldur vék aðeins að því hvort segja mætti að hún hefði látið í ljós rasísk sjónarmið, jafnvel þó svo að þau væru strangt til tekið ekki rasísk, þ.e.a.s. kynþáttafordómar. Hún, stjórnmálamaðurinn, yrði að þola það í opinberri umræðu. Með því væri hins vegar ekki grundvöllur til þess að kalla hana rasista refsilaust.

***

Það var einkum félagsmiðlaherdeild Samfylkingarpírata, sem æpti sig hása um Piu sem rasista, en fáum duldist að hinn raunverulegi skotspónn var Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis: hann hefði boðið þessum vonda félagsskap til sín og látið að því liggja að hann væri eiginlega næstum-rasisti fyrir að hafa lyft Piu á stall á Lögbergi helga. Það er óboðlegur málflutningur, hafi málpípurnar meint eitthvað með pípinu. En það er merkilegt að Samfylkingin er enn í nánu samstarfi með danska Jafnaðarmannaflokknum, sem hefur nánast gert stefnu Danska þjóðarflokksins í innflytjendamálum að sinni. Ekki múkk um það.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim