Fyrir um 50 árum fór að skilja á milli efnahagslegrar velmegunar hér á landi og í öðrum Evrópuríkjum. Landsframleiðsla á mann, sem er einn mælikvarði á efnahagslega velmegun fór á þessum tíma úr því að vera til jafns við meðaltal Evrópu yfir í að vera nú um helmingi meiri.

Fjölmargir þættir skýra þessu miklu breytingu. Stór hluti skýringarinnar er hins vegar sá að þá hófu Íslendingar að nýta ríkulegar náttúruauðlindir landsins í meiri mæli en verið hafði. Stigin voru stór skref í rafmagnsframleiðslu með hjálp fallvatnanna til álframleiðslu en fram að þeim tíma höfðu Íslendingar byggt gjaldeyrissköpun nánast alfarið á sjávarútvegi.

Á þeim 50 árum sem liðin eru frá því að álframleiðsla hófst hér á landi hefur landsframleiðsla á mann farið úr því að vera 2,4 m.kr. í 7,9 m.kr á verðlagi ársins 2018, og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann aukist um 275%. Fjölbreytni útflutnings hefur jafnframt aukist en útflutningur iðnaðarvara hefur á þessum tíma farið úr 11 mö.kr . í 321 ma.kr . Vegur þar þyngst aukningin í útflutningi álsins.

Mikilvægt framlag áliðnaðar

Á síðustu 50 árum hefur álframleiðsla skilað um 870 m.ö.kr . í hlut launþega álfyrirtækja og fyrirtækjaeigenda á núvirði. Auk þessa er sá virðisauki sem áliðnaðurinn skapar með viðskiptum sínum við aðra atvinnuvegi m.a. við orkuframleiðendur, tæknilega ráðgjafa, þjónustufyrirtæki ofl . Gróflega má áætla að óbeint framlag álframleiðslunnar hafi verið um 880 ma.kr . á þessu tímabili. Heildarframlag áliðnaðar til landsframleiðslunnar á þessu 50 ára tímabili er því ríflega 1.750 ma.kr . sem er um 62% af landsframleiðslu síðastliðins árs.

Athugum hins vegar að rekstrarafgangur af álframleiðslu fellur ekki í hlut Íslendinga. Ef sá þáttur er dreginn frá má áætla að beint og óbeint framlag álframleiðslu til íslenska hagkerfisins hafi numið um 1.150 mö.kr . yfir þetta 50 ára tímabil sem er um 41% af landsframleiðslu síðastliðins árs svo dæmi sé tekið. Meirihluti þessa framlags til efnahagslegrar velmegunar í landinu hefur fallið til á síðustu tíu árum enda hefur framleiðslugeta álsins verið sögulega mikil á þeim tíma.

Fjárfestingar vegna uppbyggingar á framleiðslugetu í áliðnaði hér á landi og í tengdri raforkuframleiðslu hafa verið miklar. Samanlagt yfir síðastliðin 50 ár nemur þessi fjárfesting nálægt 1.400 mö.kr . Til að setja þetta í samhengi nam heildarfjárfesting í hagkerfinu, þ.e. heimila, fyrirtækja og hins opinbera, 623 ma.kr . á síðasta ári.

Ýmis önnur óbein áhrif hafa fylgt uppbyggingu álframleiðslu hér á landi. Má í því sambandi nefna að álframleiðslan notar rétt um 74% allrar raforkunotkunar í landinu. Raforkukerfið hefur byggst upp samhliða uppbyggingu álframleiðslu. Önnur atvinnustarfsemi og heimilin hafa notið góðs af þessari uppbyggingu í auknu orkuöryggi og lægra raforkuverði.

Aukin fjölbreytni í gjaldeyrissköpun

Óstöðugleikinn í fortíð átti m.a. rætur sínar að rekja til einhæfni í gjaldeyristekjum sem nær alfarið byggðu á sjávarútvegi. Óstöðugleikinn kom niður á framleiðnivexti og innlendri verðmætasköpun. Leiðin að auknum stöðugleika fólst í að auka fjölbreytni í gjaldeyrissköpun og byggja upp greinar sem voru óháðar sveiflum í aflabrögðum og verði sjávarafurða. Gjaldeyrissköpun álframleiðslunnar er nú viðlíka heildargjaldeyristekjum af útflutningi sjávarafurða eða um 230 ma.kr . á síðastliðnu ári. Framleiðsla á áli hefur á síðustu 50 árum eða svo vaxið tvöfalt á við heimsframleiðsluna. Má skýra þetta m.a. með aukinni notkun málmsins í samgöngur, byggingar, heimilistæki og rafkerfi svo eitthvað sé nefnt. Spurn eftir áli mun fara vaxandi á næstu áratugum. Það er ekki sjálfgefið að íslensk álframleiðsla haldi samkeppnishæfni og sæki fram, ekki frekar en aðrar atvinnugreinar.

Viðhalda þarf samkeppnishæfni

Á undanförnum árum hafa íslensk álver stigið næsta skref í virðiskeðjunni og fjárfest í bættri straumnýtingu og flóknari og virðismeiri afurðum, auk þess sem árangur í að draga úr losun er með því besta sem þekkist, en losun á hvert framleitt tonn hefur dregist saman um 75% frá árinu 1990. Til þess hefur þurft breytt vinnubrögð og fjárfestingar í tækniframþróun. Frekari fjárfestingar eru nauðsynlegar til að viðhalda samkeppnishæfni íslenskrar álframleiðslu, enda er þróunin hröð og ál er selt á heimsmarkaði svo engin leið er að velta óþarfa kostnaði út í verðið.

Íslensk álframleiðsla hefur í hálfa öld verið undirstaða mikillar verðmætasköpunar fyrir íslenskt þjóðarbú og uppspretta tækifæra fyrir komandi kynslóðir. Hvort íslenskur áliðnaður heldur áfram að dafna og þróast veltur á samkeppnishæfni landsins og stefnumörkun á vettvangi stjórnmálanna.

Höfundur er aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins.