Í desember síðastliðnum rann upp langþráð stund þegar tækni- og þekkingaryfirfærsluskrifstofan Auðna - Tæknitorg var sett á laggirnar eftir talsverðan undirbúning. Aðild að félaginu eiga eftirtaldir háskólar og rannsóknastofnanir: Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Landspítalinn, Matís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Hólum, Háskólinn á Bifröst, Listaháskóli Íslands, Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum og Vísindagarðar auk Samtaka iðnaðarins.

Auðna sækir fyrirmyndir til erlendra hliðstæðna, sem almennt ganga undir heitinu TTO eða Technology Transfer Office. Slíkar skrifstofur hafa margsannað gildi sitt, en hlutverk þeirra er einkum að stuðla að því að hámarka verðmæti þeirrar tækni- og vísindaþekkingar sem verður til innan veggja mennta- og rannsóknastofnana. Það verður áhugavert að fylgjast með mótun starfsemi Auðnu og þeim áherslum sem lagðar verða en félaginu eru sett metnaðarfull markmið. Þannig er því ætlað að vinna að framgangi nýsköpunar á grundvelli vísinda og leitast við að tryggja að fjárfesting hins opinbera í vísinda- og þekkingarstarfi skili sér sem best til samfélagsins og renni um leið styrkari stoðum undir samkeppnishæfni Íslands.

Í því skyni er Auðnu m.a. falið að tengja háskólana og rannsóknastofnanirnar við atvinnulífið, fjárfesta o.fl. sem geta tekið verkefni sem þaðan stafa upp á sína arma og stuðlað að framgangi þeirra. Á verksviði félagsins er að aðstoða umbjóðendur sína við þróun og undirbúning vænlegra verkefna til kynningar fyrir innlenda sem erlenda fjárfesta og gagnvart atvinnulífinu. Auðnu er einnig ætlað að sinna ráðgjöf um vernd hugverkaréttinda, s.s. einkaleyfa og vörumerkja, og umsjón með slíkum réttindum auk þess sem félagið skal veita aðstoð við stofnun sprotafyrirtækja utan um verkefni sem eiga rætur að rekja til háskólanna og rannsóknastofnananna. Það er vonandi að þetta auðnist sem best.

Höfundur er sérfræðingur í hugverkarétti og rekstri sprotafyrirtækja.