Víðtæk áhrif ferðaþjónustunnar hafa líklega ekki framhjá neinum farið. Ferðaþjónustan hefur sprottið upp sem ný stoð í innlendum efnahag, hvergi er meiri fjölgun starfa og hefur greinin skipt sköpum fyrir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Að þessu sögðu er íslensk ferðaþjónusta í raun að slíta barnskónum á Íslandi og vaxtarverkirnir eftir því. Skyldi engan undra að þessi gríðarlega fjölgun valdi álagi á innviðum og helstu ferðamannastöðum landsins. Við þessu þarf að bregðast.

Náttúra okkar Íslendinga er takmörkuð auð­lind og til þess að við séum reiðbúin til að taka á móti þeim fjölda sem sækir landið án þess að ganga á hana þarf raunverulegar lausnir. Gistináttagjald hefur þegar verið tekið upp og margir horfa einnig til komugjalds á ferðamenn til að fjármagna uppbyggingu. Þær leiðir eru báðar því marki brenndar að þær snerta ekki á aðgangsstýringu. Langsamlega besta leiðin er að greitt sé fyrir veitta þjónustu, eins og gert er í öðrum atvinnurekstri. Sé greitt fyrir aðgang að svæðunum fer saman fjármögnun og aðgangsstýring.

Ánægjulegt er að sjá að nýskipaður ráðherra ferðamála virðist vel áttaður í þessum efnum og opnar á gjaldtöku til uppbyggingar og aðgangsstýringar. Nefnir ráð­ herra Kerið sem dæmi um svæði þar sem þetta hefur verið gert með góðum árangri, en þar skapar gjaldtaka hvata til uppbyggingar svo hægt sé að tryggja bæði góða upplifun og öryggi ferðmanna.

Sem stærsti landeigandinn ætti hið opinbera að ganga fram með góðu fordæmi og hefja þegar í stað gjaldtöku við vinsælustu og við­ kvæmustu náttúruperlur landsins. Framganga ráðherra á fyrstu metrum starfsferils síns gefur tilefni til bjartsýni.

Höfundur er forstöðumaður efnahagssviðs SA.