Hér var á dögunum fjallað um ruglfréttir af ruslflokkun erlendra fjármálafyrirtækja, þar sem nær allir Íslands fjölmiðlar komu upp um vanþekkingu sína á grundvallaratriðum fjármálamarkaða.

Því var gaukað að fjölmiðlarýni að hann gæti nú tæpast ætlast til þess að allir fjölmiðlar hefðu sér­ þekkingu á þessu sviði. Og jú, það er sjálfsagt til of mikils ætlast. Einmitt þess vegna er Viðskiptablaðið til og bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið halda úti sérstökum kálfum helguðum fjármálum og viðskiptalífi (sem kom þó ekki í veg fyrir að þau flyttu ruglfréttina bæði).

En það er ekki til of mikils ætlast að fjölmiðlar setji sig inn í þær fréttir, sem þeir segja. Það er algert frumskilyrði. Fjölmiðlar eiga ekki að segja fréttir, sem þeir kunna ekki skil á.

Það er raunar helsti tilgangur fréttamiðla, að starfsmenn þeirra horfa haukfránum augum yfir þjóðlífið og greina hið fréttnæma frá hinu. Svo setja þeir sig inn í þetta fréttnæma, til þess að geta sagt almenningi skýrt og skipulega frá hinu sanna og staðreynda í málinu. Það er punkturinn með þeim.

Um fjölmiðlana gildir hið sama um mennina: Mæl þarft eða þegi.

***

Þetta þýðir auðvitað ekki að það sé aðeins á færi sérfræðimiðla að segja fréttir úr tilteknum geirum. Öðru nær, því sérfræðimiðlarnir sinna fyrst og fremst sérfræð­ingum, hagsmunaaðilum eða sérstökum áhugamönnum. Eftir sem áður er það almennra fréttamiðla að segja almenningi fréttir og þeir eftirláta ekki Læknablaðinu fréttir úr heilbrigðiskerfinu, Fiskifréttum úr sjávarútveginum eða Tíund fregnir af skattamálum.

En svo er hitt, að miðlarnir geta verið misvel heima í ýmsum fréttaflokkum. Það getur bæði oltið á einsklingum og miðlunum sjálfum, að blaðamaður hafi betra tengslanet en aðrir í tiltekinni grein eða að miðill sinni svona fréttum betur en aðrir. Eða eftir atvikum síður.

Hér hefur t.d. áður verið minnst á hvað Ríkisútvarpið er lítt með á nótunum í viðskiptafréttum, en veit hins vegar yfirleitt hvað það syngur í sakamálum. Þegar það tvennt fer saman getur hins vegar kveðið við falskan tón.

Það átti við í furðulegri fréttaröð Stígs Helgasonar á dögunum af málflutningi í fjársvikamáli fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Málið var svo skrýtið að hlustendur skildu eiginlega minna eftir því sem á leið fréttirnar (inntakið var um það bil það að fífl og fjármunir eiga sjaldnast samleið lengi).

Látum það þó vera, það sem var einkennilegast var hvað þetta tiltölulega lítilfjörlega mál varð tilefni margra og ótrúlega langra frétta. Svo umfangsmikið að þessi hlustönd spurði hvort einhver starfsmaður fréttastofu hefði tapað peningum í fjárglæfrum þeim, sem málið snýst um!

Út af fyrir sig voru þessar fjárglæfrafréttir bara dulítið skrýtnar, en þegar þetta er dögum saman meðal helstu frétta í Ríkisútvarpinu, útvarpi í almanna­þágu, verða þær meira en lítið skrýtnar. Og það var ekkert eins og það væri að öðru leyti lítið að frétta.

***

Á sama tíma og Ríkisútvarpið flutti þessa Hafnarfjarðarbrandara úr héraðsdómi var annað mál, stórfrétt, sem einhvernveginn fór miklu minna fyrir í fréttum. Og í Ríkisútvarpinu var bara alls ekki minnst á það.

Það bar nefnilega til tíðinda á dögunum, að Financial Times birti viðtal við Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. 1. apríl, nánar tiltekið (auðvitað!).

Þar var haft eftir fjára, að sjálfstæður, fljótandi gjaldmiðill eins og krónan væri hvorki verjandi né lífvænleg. Og sitthvað fleira um gjaldmiðilsmálin, peningamál og ríkisfjármál, sem fréttnæmt mátti telja.

Það sem fjármálaráðherra hafði um gjaldmiðil landsins að segja hefði í öllum öðrum löndum verið alger fréttabomba og kveikt fjölmiðlabál, sem logað hefði dögum saman. Það að fjármálaráðherra dragi sjálfar forsendur gjaldmiðilsins svo í efa hefði alls staðar annars staðar orsakað magnaðan skjálfta á mörkuðum, kallað á þingyfirheyrslur, afsagnarkröfur og vantraust.

En nei, ekkert svoleiðis á Íslandi, bara tæpt á því í fyrirspurnartíma í þinginu og þeir miðlar sem minntust á málið fjölluðu helst um það sem pólitískan ágreining stjórnarflokkanna!

Auðvitað má fagna því að þessi einstaklega ábyrgðarlausu ummæli Benedikts hafi ekki valdið meiri usla. Það er kannski áhyggjuefni fyrir Benedikt að orð hans hafi ekki meiri vigt og að erlendis hafi aðallega verið hæðst að þeim, en það ætti að vera íslenskum almenningi kvíðaefni að fjölmiðlar hafi fæstir kippt sér upp við þetta. Og málið gersamlega farið fram hjá sjálfu Ríkisútvarpinu.