Fyrst ein vinsamleg ábending til Alþingis. Í gær fékk stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis Ólaf Ólafsson í Samskipum á sinn fund til þess að svara nokkrum vel völdum spurningum um kaupin á Búnaðarbankanum sællar minningar.

Óhætt er að segja að almennur áhugi hafi ríkt á fundinum, en hann siglir í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á einkavæðingu bankanna. Þar komu fram margvíslegar ávirðingar á hendur Ólafi, en honum til happs munu allar hugsanlegar sakir í því fyrndar. Áhugi fjölmiðla og almennings hins vegar er alls ekki fyrndur. Eins og best mátti sjá á því að margfresta þurfti fundinum til þess að útvega sæti fyrir blaðamannakösina alla.

Nú var ljóst að Ólafur ætlaði að gera sér mat úr fundinum eftir að hafa úthrópaður af alþjóð vikum saman. Hann vildi fá að flytja klukkustundarlanga greinargerð, en nefndin tók það ekki í mál, honum væri stefnt þangað til þess að svara spurningum. Úr varð að Ólafur fékk að gera stuttlega grein fyrir afstöðu sinni en síðan tóku við spurningar nefndarmanna. Af fréttum að dæma var það fjörlegur fundur.

En það er nú meinið, að almenningi gafst aðeins kostur á að lesa fréttir eða beinar blogglýsingar af fundinum. Þaðan var engin bein útsending svo almenningur gæti sjálfur og milliliðalaust metið málflutning mannsins eða frammistöðu kjörinna fulltrúa almennings.

Það er verra, því sumir atburðir eru þannig að almenningur þarf að fá þá ómengaða og meta sjálfur. Þetta var einn af þeim.

Nú er skiljanlegt að nefndir Alþingis hafi efasemdir um að leyfa beinar útsendingar af nefndarfundum. Af því kynni í sumum tilvikum að vera truflun, stundum er fjallað um trúnaðarmál og hugsanlega óttast einhverjir (ekki að tilefnislausu) að leikrænir tilburðir þingmanna yrðu með mesta móti ef allt væri í beinni útsendingu.

Slíkar efasemdir eru hins vegar léttvægar hjá hinum hagsmununum, hagsmunum almennings. Það þarf ekki að vera minnsta truflun af myndavélunum, ekki frekar en í þingsal alla daga, rjúfa má útsendingu þá sjaldan fjallað er um sérstök trúnaðarmál og dramatísk tilþrif þingmanna koma tæplega nokkrum illa nema þeim sjálfum.

Nei, það er réttara að það sé reglan að nefndarfundir séu opnir og i beinni útsendingu. Mætti jafnvel minna gestina á að þeir séu þar til þess að gefa vitnisburð. Eiðsvarinn helst.

* * *

Næst önnur vinsamleg ábending til Kristjáns Þórs Júlíussonar, menntamálaráðherra (í síðustu viku var skorað á hann að leggja fjölmiðlaeftirlit ríkisins niður).

Ráðherrann var gestur í umræðuþættinum Kjarnanum á Hringbraut á þriðjudagskvöld, þar sem hann lét í ljós áhyggjur af stöðu íslenskra fjölmiða. Þeir hafa sem kunnugt er verið í nokkurri deiglu og skapandi eyð- ingu markaðarins orðið nokkuð ágengt. Kristján Þór kvaðst hins vegar vilja skakka leikinn og í því samhengi horfði hann sérstaklega til hins skattalega umhverfis:

Skoða skattkerfið og ívilnanir þar til prentmiðla, til vefmiðla þess vegna, og svo framvegis.

Nú er vel skiljanlegt að ráðherrann hafi áhyggjur af stöðu ýmissa fjölmiðla, en það er ekki þar með sagt að hann eigi taka til sinna ráða ef það skortir á áhuga almennings eða ráðdeild þeirra sem reka miðlana.

Þvert á móti er sérstök ástæða til þess að vara við hugmyndum sem þessum.

Almennt má auðvitað segja að stjórnvöld eigi að láta það alveg vera að hygla einstökum atvinnugreinum eða sérstökum þáttum þeirra, hvort heldur það er gert með beinum styrkjum og niðurgreiðslum eða með óbeinni skattaívilnunum. Það er ávísun á sóun fjármuna skattborgaranna og felur einnig í sér að viðkomandi fyrirtæki losna við hið beina og nauðsynlega taumvald viðskiptavinanna.

Hitt er þó enn mikilvægara, að í lýðræðisþjóðfélagi er það beinlínis hættulegt að fjölmiðlar séu upp á náð stjórnvalda komnir. Skattaívilnanir sem þessar væru óhjákvæmilega í valdi fjárveitingavaldsins á Alþingi, meirihlutans þar. Er það einhverjum hollt að fjölmiðlar vilji komast í mjúkinn hjá þingmeirihlutanum og vera þar?

Nei og þá væri þó skömm skárra að styrkirnir væru beinir og sýnilegir. Þá væru miðlarnir hins vegar komnir áratugi aftur í tímann. Á sínum tíma var það sérstakt þroskamerki íslenskrar fjölmiðlunar þegar Dagblaðið og Morgunblaðið afþökkuðu fjölmiðlastyrkina sem Alþingi lét þeim í té ár hvert.

Það væri afleitt og ömurlegt ef fjölmiðlum yrði nú komið aftur á jötuna, allt auðvitað af hinum bestu hvötum, en afleiðingar örugglega hvorki fjölmiðlunum, almenningi né sjálfu lýðræðinu til góða.