*

þriðjudagur, 23. apríl 2019
Benedikt Jóhannesson
12. október 2017 15:33

Viðreisn innviða Íslands

Viðræður þarf við forsvarsmenn lífeyrissjóðanna um að koma að fjármögnun innviðaverkefna þjóðfélagsins á næstu árum.

Hörður Kristjánsson

Samtök iðnaðarins hristu ærlega upp í okkur um daginn með útgáfu skýrslu um bágborið ástand innviða landsins, það er samgöngukerfi, orkukerfin, fráveitur og fleira.

Skýrsluhöfundar kalla eftir stefnufestu og skýrari framtíðaráætlunum um nauðsynlegt viðhald innviða næstu 10 árin. Það er algjörlega nauðsynlegt að setja fram áætlun um hvernig þjóðin á að mæta þessari uppbyggingu á næstu árum. Fullfjármögnuð innviðaáætlun þarf að liggja fyrir.

Uppsöfnuð þörf viðhalds nær 400 ma.kr.

Um er að ræða mjög háar fjárhæðir. Uppsöfnuð viðhaldsþörf er talin 372 milljarðar kr. fyrir flugvelli, hafnir, vegi og fasteignir. Víða eru hættulegir vegakaflar og á hringveginum eru enn hátt í fjörutíu einbreiðar brýr. Bæta verður samgöngur talsvert á höfuðborgarsvæðinu svo nokkuð sé nefnt. Stjórnvöld geta líka nýtt sér mismunandi þenslustig á landinu til þess að fjárfesta þar sem hagkvæmast er á hverjum tíma.

Í merkri skýrslu ISAVIA er spáð fyrir um fjölda erlendra ferðamanna til landsins næstu áratugi. Greiningardeildir fjármálastofnana hafa einnig gefið út slíkar spár. Allar eiga þær það sammerkt að áætla áframhaldandi fjölgun ferðamanna. Á næstu 15 árum getum við séð fjölda ferðamanna fara yfir fimm milljóna markið, en þeir eru nú um tvær milljónir.

Það þýðir stóraukna notkun flestra ef ekki allra innviða landsins, ekki síst flugvalla, hafna, vegakerfis, orkukerfis en ekki síður þjónustustofnana á borð við löggæslu og heilbrigðisþjónustu. Ofan á nauðsynlegt viðhald verðum við að gera enn betur og ráðast í enn frekari uppbyggingu. Erum við undir þetta búin? Hvernig ætlum við að taka á móti þessum fjölda erlendra gesta? Alltof lítið fer fyrir umræðum um þetta framtíðarverkefni okkar Íslendinga.

Horfum til annarra lausna

Verði ekkert að gert í viðhald og uppbyggingu innviða getur stefnt í alvarlegt ástand. Um leið er ljóst að við óbreyttar aðstæður getur ríkissjóður vart brugðist vel við og bjargað málunum. Dapurlegt viðbragð stjórnlyndra manna er auðvitað að stórhækka verði skatta og setja á allskyns ný gjöld í einu vetfangi. En við getum einnig horft til annarra lausna.

Það ætti að vera óþarft að leggja viðbótarskatta á landsmenn til að koma þessum lífsnauðsynlegu innviðum okkar í viðunandi horf. Mörgum finnst það bæði óþarfi heldur beinlínis svik við fólkið í landinu að ætla nú að auka enn við þetta alvarlega misvægi með vegagjöldum eða annarri viðbótarskattheimtu.

Verkefnið er aftur á móti svo gríðarstórt að fjármagna verður það til langs tíma. Viðreisn leggur áherslu á að minnka vaxtakostnað með því að greiða niður skuldir ríkisins. En það er líka dýrt að vanrækja nauðsynlegar framkvæmdir og því er nauðsynlegt að efna til þjóðarátaks í innviðauppbyggingu.

Þess vegna bendi ég á aðra leið sem gæti dugað til að fjármagna þessa miklu framkvæmdaþörf við viðhald og uppbyggingu innviðanna á næstu árum. Lífeyrissjóðir landsmanna eru gríðarlega öflugir og eftir að iðgjaldið var hækkað og verður á næsta ári 15,5% allra tekna er ljóst að þeir hafa aukið ráðstöfunarfé. Þeim ber auðvitað að fara vel með þessa fjármuni sjóðfélaganna og leita nýrra og öruggra fjárfestingarkosta.

Nýir tímar – nýjar leiðir

Það á að vera forgangsverkefni stjórnvalda að hefja alvarlegar viðræður við forsvarsmenn lífeyrissjóðanna um með hvaða hætti þeir geti komið með ríkinu að fjármögnun innviðaverkefna þjóðfélagsins á næstu árum.

Þetta byggir á því að sjóðirnir fjárfesti í fjármögnun verkefnanna og þannig yrði um leið létt af þeim þrýstingi á að fjárfesta á hinum þrönga og litla íslenska hlutabréfamarkaði. Ég trúi því að þetta sé fær leið og lífeyrissjóðirnir og ríkið fyrir hönd allra landsmanna geti náð farsælli lausn á þessu brýna máli.

Nýir tímar kalla á nýja hugsun í viðreisn Íslands!´

Höfundur er fjármálaráðherra

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim