*

þriðjudagur, 23. apríl 2019
Leiðari
18. apríl 2015 12:10

Viðskiptalegar forsendur

Dómur um meint samráð starfsmanna byggingarvöruverslana ætti að vekja fólk til umhugsunar um rannsókn slíkra mála.

Haraldur Jónasson

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli á hendur tólf starfsmönnum Byko, Húsasmiðjunnar og Úlfsins, þar sem þeir voru sakaðir um ólögmætt samráð á byggingarvörumarkaði, hefur ekki vakið þá athygli sem ætla mætti af fréttaflutningi af málinu þegar það fyrst komst í hámæli. Eflaust er það vegna þess að ellefu af tólf sakborningum voru sýknaðir og sá sem dæmdur var sekur var í raun dæmdur fyrir tilraun til samráðs.

Lögmennirnir Helga M. Óttarsdóttir og Halldór Brynjar Halldórsson skrifa fróðlega grein í Viðskiptablaðið í dag þar sem farið er yfir dóminn og niðurstöðu hans. Eru lesendur hvattir til að lesa greinina alla. Í lokakafla greinarinnar fara þau svo almennt yfir stöðuna í þessum málum. Í lögum kemur skýrt fram að aðeins skuli kæra alvarlegustu samkeppnislagabrot til lögreglu. „Í ljósi afdráttarlausrar niðurstöðu héraðsdóms er óhjákvæmilegt að spyrja hvort rétt hafi verið af hálfu Samkeppniseftirlitsins að beina kæru til lögreglu í þessu máli. Á það sér í lagi við þar sem kæran byggði eingöngu á munnlegum framburði forsvarsmanna samkeppnisaðila félaganna.“

Þau halda áfram: „Eru einhliða yfirlýsingar samkeppnisaðila, án nokkurra sönnunargagna, nægjanleg rök til að beina kæru til lögreglu? Er sambærilegt verklag viðhaft í öðrum málum?“

Þetta eru alvarlegar athugasemdir um verklag bæði Samkeppniseftirlitsins og saksóknara. Á grundvelli kæru Samkeppniseftirlitsins fengust heimildir hjá dómurum til símhlerana og annarra rannsóknaraðgerða, en afraksturinn var sá að ellefu af tólf sakborningum voru sýknaðir. Hér hefur áður verið fundið að því hversu viljugir íslenskir dómarar eru til að veita heimildir til símhlerana og húsleita og er þetta mál síst til þess fallið að slá á slíkar áhyggjur.

Annað atriði sem skoða verður í þessu sambandi er að fyrrverandi rekstraraðili Húsasmiðjunnar, sem var að fullu í eigu Landsbankans, gerði sátt í fyrra við Samkeppniseftirlitið um greiðslu sektar að fjárhæð 325 milljónir króna vegna málsins. Með sáttinni viðurkenndi félagið, sem heitir Holtavegur 10 ehf. sekt sína, en fram kom að viðskiptalegar forsendur hefðu legið að baki þeirri ákvörðun.

Nú er það svo að sektir Samkeppniseftirlitsins geta tekið mið af veltu, ekki aðeins þess fyrirtækis sem í hlut á, heldur samstæðunnar allrar. Landsbankasamstæðan var því í mjög erfiðri stöðu og því auðvelt að sjá þær viðskiptalegu forsendur sem lágu að baki þeirri ákvörðun að ganga til sáttar. Hvað verður um þessa sátt, og sektargreiðsluna, ef málið endar með þessum hætti? Allir starfsmenn Húsasmiðjunnar voru sýknaðir og því erfitt að sjá það brot sem fyrrverandi eigendur fyrirtækisins hafa viðurkennt að hafa framið.

Lokaorð þeirra Helgu og Halldórs ættu að vekja fólk til umhugsunar. „Hvernig bregst réttarríkið við þegar einstaklingar hafa þurft að sæta því að verða dregnir fyrir dóm á grundvelli tilhæfulausra staðhæfinga samkeppnisaðila vinnuveitenda, sæta handtöku, opinberri rannsókn í mörg ár og síðan ákæru, án þess að nokkur grundvöllur sé fyrir málatilbúnaðinum?“

Stikkorð: Leiðari Dómsmál Samkeppnismál
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim