Það virðast allir vera orðnir sammála um að innreið Reykjavíkurborgar í heimsmálin hafi verið frumhlaup. Ákvörðunin setti mikilvæga viðskiptahagsmuni – fyrirsjáanlega – strax í hættu. Það mætti halda að íslenskir vinstrimenn hafi ekki kynnt sér hvað er að gerast í heiminum í kringum okkur síðan í kalda stríðinu.

Viðskiptaþvinganir eru gamaldags og lélegt tæki í baráttunni fyrir betri heimi. Þær bitna harð­ast á þeim er síst skyldi. Ef margir myndu sniðganga vörur frá Ísrael væri bandaríska stórfyrirtækinu Intel t.d. í lófa lagið að flytja verksmiðjur sínar annað. Mörg lönd myndu gera ýmislegt til að lokka slíka starfsemi til sín. Það gæti hins vegar verið þrautin þyngri fyrir þá verkamenn sem vinna nú í verksmiðjunum, og bera þeir þó enga ábyrgð á framgöngu Ísraels gagnvart Palestínu, að finna sér nýja vinnu.

Jafnvel Bandaríkin hafa verið að brjóta odd af oflæti sínu í samskiptum sínum við Kúbu og Íran. Viðskiptabannið á Kúbu hefur engu skilað á 55 árum nema því að dæma kúbverskan almenning til langvarandi og sárrar fátæktar. Castro-bræður eru enn við völd, en því má velta upp hvort þeir væru ekki fyrir löngu búnir að hrökklast frá völdum ef viðskiptabann hefði ekki verið sett á landið.

Staðreyndin er að viðskipti eru til alls fyrst. Þau opna nýjar samskiptaleiðir manna og ríkja á milli og efla traust á milli þeirra. Þau sýna fólki að gagnaðilarnir eru ekki jafnslæmir og þau héldu og þau kenna minna þróuðum ríkjum hvernig frjáls viðskipti virka. Þau gagnast þeim mest sem helst þurfa á því að halda með því að bæta lífskjör allra. Frjáls viðskipti eru því miklu betra vopn í baráttunni fyrir betri heimi en boð og bönn.