Allir fjárfestar, lífeyrissjóðir, félög eða einstaklingar, vilja vexti af fé sem þeir lána. Arðgreiðsla felur í sér greidda vexti af hlutafjárframlagi. Hún er í raun forsenda fjárfesta fyrir þátttöku. HB Grandi er til dæmis með um 1.300 hluthafa. Á lista yfir 20 stærstu hluthafa eru 10 lífeyrissjóðir, nokkur hlutafélög, einstaklingur og fagfjárfestar. Allir þessir aðilar vilja arð af hlutafjárframlagi sínu.

Sú vísa er oft kveðin í aðdraganda kosninga að arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja séu háar. Undantekningarlaust skortir hins vegar allan rökstuðning þessarar staðhæfingar. Þegar betur er að gáð er staðhæfingin nefnilega röng. Samkvæmt opinberum upplýsingum frá Hagstofu Íslands liggur fyrir að arðgreiðslur sem hlutfall af hagnaði á árunum 2010- 2015 voru 21% í sjávarútvegi en 31% að jafnaði í atvinnulífinu.

Sjávarútvegur greiddi því hluthöfum sínum hlutfallslega töluvert lægri arð en fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum.

Bábiljan um arðgreiðslur er síðan notuð sem rökstuðningur fyrir því að sjávarútvegur geti hæglega greitt hærra gjald fyrir nýtingu auðlindarinnar. Stundum heyrist að greitt veiðigjald sé lágt. Nú er það svo að tekjuskattur fyrirtækja er 20% og sjávarútvegsfyrirtæki greiða þennan skatt eðli máls samkvæmt. Umliðin ár hefur greitt veiðigjald verið áþekkt greiddum tekjuskatti sjávarútvegsfyrirtækja. Það má því segja að sjávarútvegur greiði um 100% hærri skatt en önnur fyrirtæki í landinu. Það stenst því engin rök að veiðigjald sé lágt.

Um 1.000 aðilar greiða veiðigjald. Veiðigjald úr hófi setur rekstur í sjávarútvegi í uppnám. Við það eykst samþjöppun og sjávarútvegurinn verður ekki lengur sá burðarás sem hann hefur verið víða um land. Skorað er á þá stjórnmálaflokka sem boða hærri gjaldtöku, að upplýsa almenning einnig að þeir styðji bæði samþjöppun í sjávarútvegi og lakari samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum sjávarútvegi, þ.m.t. þeim norska, sem greiðir ekkert gjald fyrir nýtingu auðlindarinnar. Allt helst þetta nefnilega óhjákvæmilega í hendur.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) .